Rifs ‘Jonkheer van Tets’ – Ribes rubrum ‘Jonkheer van Tets’
Harðgerður berjarunni. Hæð: 1,0 - 1,5 m. Millibil: 80 - 100 sm. Uppskerumikið yrki. Ber þroskast í ágúst - byrjun september. Ber fremur sæt. Vinsæl í hlaup og þess háttar. Þolir vel hálfskugga en uppskerumest í fullri sól. Þrífst best í frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Venjulega plantað í raðir ásamt öðrum berjarunnum eða eitt og sér. Hollenskt yrki.
Rjúpuvíðir ‘Þórhalla’ – Salix glauca ‘Þórhalla’
Mjög harðgerður, meðalstór runni. Hæð um 1 - 1,3 m. Lauf og sprotar gráloðin. Gulir haustlitir. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Minnir á loðvíði (S. lanata) en laufið á rjúpuvíði er að jafnaði smærra. Engin axlarblöð eru á rjúpuvíði eins og eru á loðvíði. Rjúpuvíðir 'Þórhalla' sómir sér vel í blönduðum beðum með öðrum gróðri en einnig í röðum og þyrpingum. Millibil um 80 sm. Þolir vel klippingu. Yrkið er kennt við Þórhall Jónsson kaupmann en hann var m.a. mikilvirkur í Dalíuklúbbnum. Rjúpuvíðir 'Þórhalla' mun upphaflega hafa komið hingað til lands frá Grænlandi en þar vex rjúpuvíðir villtur. Auk Grænlands er rjúpuvíðir villtur víða í N-Ameríku, N-Evrópu og í N-Asíu. Mjög breytileg tegund.
Ryðelri / Ryðölur – Alnus rubra
Harðgert, hraðvaxta, einstofna, meðalstór - stórvaxið tré (10 m). Lágvaxnara og runnkendara við erfið skilyrði. Laufin eru egglaga, 7 - 15 sm á lengd, sagtennt og langydd. Blaðjaðarinn verpist aðeins niður á við. Ung lauf gjarnan rauðmenguð. Haustlitur brúnn eða frýs grænn. Rauðleitir karlreklar vaxa fram snemma vors (mars / apríl). Kvenreklar brúnir fullþroska. Minna á litla köngla. Börkur grár með ljósum þverrákum. Gjarnan ber á uppblásnum trjákvoðu-bólum á berki. Sólelskt en gerir litlar kröfur til jarðvegs. Vex eins og annað elri í sambýli við niturbindandi bakteríur. Rótarskot engin eða lítið áberandi. Ryðelri hentar stakstætt, í raðir / þyrpingar með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Hentar einnig til skógræktar. Nýlegur í ræktun en lofar mjög góðu. Hugsanlega hentugt sem götutré. Ryðölurinn okkar er allur vaxinn upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá Alaska suður til Kaliforníu.
Sitkaelri / Sitkaölur – A. viridis ssp. sinuata
Harðgerður, stórvaxinn, sólelskur og fremur hraðvaxta runni eða lítið tré (2,5 - 6,5 m). Laufið all stórt, tvísagtennt, gljáandi og bylgjað. Langir, hangandi karlreklar áberandi á vorin rétt fyrir laufgun í maí. Kvenreklarnir sitja nokkrir saman. Í fyrstu ljósir en síðan brúnir. Þeir minna á smágerða köngla og endast fram á vetur á greinunum. Henta til skreytinga. Sitkaelri lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur og getur þar af leiðandi vaxið vel í ófrjóum jarðvegi. Vindþolið og fremur saltþolið einnig. Plássfrekt. Þolir klippingu/snyrtingu en ekki stýfingu. Hentar stakstætt, í raðir og þyrpingar og sólarmegin í skjólbeltum. Millibil 2 - 3 m. Má vera þéttar í runnaröð/limgerði. Einnig til uppgræðslu á melum, söndum og skriðum. Forðist að planta sitkaelri í lægðir í landslaginu þar sem hætt er við því að kalt loft safnist fyrir. Á þannig stöðum hættir sitkaelri við vorkali. Sáir sér út þar sem aðstæður leyfa en sitkaelri er frumherji og sáir sér helst út í raskað og lítt gróið land. Allt sitkaelrið okkar er ræktað upp af íslensku fræi. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Íslenski stofninn er líklega allur frá Alaska.
Sitkagreni – Picea sitchensis
Mjög harðgert, stórvaxið, langlíft, sígrænt barrtré. Hraðvaxta. Vind- og saltþolið. Þolir vel klippingu. Þrífst best í brekkum þar sem er að finna ferskan jarðraka og jarðvegur er nokkuð frjór. Nálar dökkgrænar að ofanverðu en ljós-bláleitar að neðanverðu. Mjög stingandi. Könglar í fyrstu rauðleitir, seinna ljósbrúnir, pappírskenndir og meðalstórir. Þroskar köngla á nokkurra ára fresti eftir að 30 - 40 ára aldri er náð. Sum tré mynda þó köngla fyrr á æviskeiðinu. Börkur er fremur þunnur og er því sitkagreni ekki sérlega eldþolið tré. Viðurinn er léttur og hlutfallslega sterkur. Hann er m.a. notaður í hljóðfæri, flugvélar og báta. Útsprungin brum ná nota í greni-bjór og sýróp. Forðist að planta í frostpolla. Sumt af því sem kallað er sitkagreni kann að vera sitkabastarður / hvítsitkagreni (Picea x lutzii). Sitkagreni / sitkabastarður er lang algengasta grenið hérlendis. Sitkagreni er glæsilegt stakstætt, fer vel í röðum og þyrpingum. Einnig kjörið í skjólbelti og jafnvel klippt limgerði. Þó eru ekki öll sveitarfélög sem leyfa gróðursetningu sitkagrenis á lóðarmörkum (sjá byggingareglugerð) enda verður sitkagreni mjög stórvaxið með tímanum. Eitt mest notaða tré í skógrækt hérlendis enda harðgert og gott timburtré. Stundum nýtt sem jólatré enda ágætlega barrheldið. Lang besta sígræna tréið til ræktunar við sjávarsíðuna eins og t.d. á Reykjanesi. Sitkagreni gerir kröfur um frjósemi jarðvegs svo setjið vel af moltu eða búfjáráburði við gróðursetningu. Þegar skógarplöntur eru gróðursettar skal setja nokkur korn af tilbúnum áburði með. Hæstu tré hérlendis eru sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri, um 30 m á hæð (2022). Millibil við gróðursetningu að lágmarki 3 m. Stundum 2 m í skógrækt. Til frambúðar að lágmarki 4 - 5 m. Við framleiðum eingöngu sitkagreni af íslensku fræi. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Vex yfirleitt ekki langt frá ströndinni í heimkynnum sínum.
Sitkavíðir / „Ólavíðir“ – Salix sitchensis
Harðgerður stórvaxinn runni/lágvaxið tré. Laufin breiðust framan við miðju. Silfurhærð á neðra borði. Brum útstæð. Er með fremur smá axlarblöð. Vindþolinn. Sólelskur. Minnir á viðju (Salix myrsinifolia) í útliti en heilbrigðari og almennt laus við asparglittu. Þrífst vel í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Sitkavíðir hentar í limgerði og skjólbelti 2 - 3 plöntur/m. Erum með yrkið 'Óli' sem almennt gengur undir nafninu "Ólavíðir". Yrkið er kennt við Óla Val Hansson (1922 - 2015) garðyrkjuráðanaut. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til N-Kaliforníu og austur til Montana.
Stafafura – Pinus contorta
Mjög harðgert, meðalstórt, sígrænt tré (7 - 15 m). Lægra á vindasömum stöðum. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelsk. Nálarnar fagurgrænar, 2 - 3 saman í knippi. Þroskar meðalstóra, kanelbrúna köngla strax á unga aldri. Algengasta furan hérlendis. Vinsælasta íslenska jólatréið. Þrífst víðast hvar á landinu. Hraðvaxnasta furan hérlendis. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Stafafura hentar stakstæð en einnig í raðir, þyrpingar og til skógræktar sérstaklega í rýru landi. Varpar ekki eins miklum skugga og greni. Millibil ekki minna en 3 m. Gjarnan 2 m í skógrækt til að forðast miklar hliðargreinar. Tré sem hafa rými verða gjarnan mjög greinamikil og breið. Skýlið alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög berangurslegum stöðum. Barr roðnar gjarnan eftir mikla saltákomu af hafi. Öll stafafuran okkar er vaxin upp af íslensku fræi. Við framleiðum aðallega stafafuru af Skagway (Alaska) uppruna. Sú fura er fagurgræn allan veturinn en gulnar ekki eins og stafafura af innlandskvæmum gerir gjarnan. Stafafura er ágætis timburtré. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka.
Strandavíðir / Gulvíðir – Salix phylicifolia ‘Strandir’ (Tröllatunga)
Mjög harðgerður, íslenskur, meðalhár runni (1,5 - 2,0 m). Laufið smágert, dökkgrænt og gljáandi. Gulir haustlitir. Sólelskur. Strandavíðir er mikið notaður í limgerði og skjólbelti. Venjulega eru gróðursett 3 stk/m í limgerði. Strandavíðir er þokkalega heilbrigður þó að stundum séu fiðrildalirfur fyrri part sumars til vandræða. Strandavíðir er í raun klón af gulvíði (S. phylicifolia) ættað frá Selárdal á Ströndum. Strandavíðir var gróðursettur á sínum tíma í garðinum að Tröllatungu við Steingrímsfjörð. Þaðan dreifðist svo strandavíðirinn áfram um landið. Strandavíðir er karlkyns og því er óþrifnaður af völdum fræullar ekki vandamál samanborið við t.d. brekkuvíði (S. phylicifolia 'Brekka'). Seldur berróta, 10 stk. í búnti og stakar plöntur í pottum. Fæst einnig í fjölpotta-bökkum.
Þingvíðir – Salix viminalis ‘Þingvíðir’
All harðgerður stórvaxinn, hraðvaxta runni eða lítið tré. Hæð: 3 - 8 m. Greinar ólívugrænar. Sprotar rauðbrúnir. Blöð 10 - 15 sm og 2 - 3 sm á breidd og íbjúg. Silkihærð á neðra borði. Gulir haustlitir. Sólelskur. Reklar fremur smáir. Birtast snemma (feb. - mars). Þingvíðir þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Þingvíðir hentar stakstæður og í raðir og þyrpingar. Millibil 1 - 2 m. Þolir vel klippingu. Sagt er að um aldamótin 1900 hafi Tryggvi Gunnarsson (1835 - 1917) plantað þingvíði í garðinn við Alþingishúsið en Tryggvi bjó þann garð til og sinnti honum einkar vel á efri árum. Ekki er vitað hvaðan eða hvernig þingvíðirinn barst til landsins. Í páskahretinu 1963 dó mikið af þingvíði á sunnan og vestanverðu landinu en á þeim tíma var hann algengur í ræktun. Í dag finnast stöku runnar hér og þar í görðum og skógarreitum um mest allt land. Jóhann Pálsson grasafræðingur telur þennan körfuvíðiklón ættaðan frá norðanverðum Úralfjöllum eða N-Síberíu.