Bergflétta – Hedera helix
Sígrænn klifurrunni. Fetar sig upp veggi og trjástofna með heftirótum. Þrífst víða vel nálægt sjávarsíðunni en helst í einhverju skjóli. Skuggþolin. Getur einnig vaxið sem þekjandi runni á jörðu niðri á skjólsömum og mildum stöðum. Á áveðursömum stöðum t.d. þar sem gætir salts af hafi sviðnar laufið gjarnan mikið yfir veturinn en nær sér svo aftur sumarið á eftir.
Breiðumispill ‘Skogholm’ – Cotoneaster dammeri ‘Skogholm’
All harðgerður, sígrænn, jarðlægur, þekjandi runni. Laufið dökkgrænt, heilrennt. Stundum vill laufið sviðna að vetri til en það lagast fljótlega
Dílatvítönn – Lamium maculatum
Jarðlæg, þekjandi jurt. Lauf gjarnan meira og minna silfurgrátt. Blómkollar fjólubláir, bleikir eða hvítir eftir yrkjum. Skuggþolin. Þrífst best í venjulegri garðmold sem ekki er of þurr.
Einir – Juniperus communis – Undirhlíðar-Hfj
Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (30 - 120 sm). Ýmist jarðlægur eða hálfuppréttur. Sérbýll. Kvenplöntur þroska einiber á tveimur árum. Þau má nýta í matargerð. Sólelskur. Hægvaxta. Einir hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Einnig í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum. Jarðlæg yrki nokkuð þekjandi. Vex villtur víða um land.
Eyjarifs / Svarðrifs – Ribes sachalinense
All harðgerður jarðlægur, þekjandi runni. Blóm gulgræn í klösum. Þroskar rauð, æt ber, í klösum í ágúst. Gulir - rauðgulir haustlitir. Skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Hentar í kanta, ker og hleðslur. Líkist mjög hélurifs (Ribes laxiflorum).
Flatópur – Cytisus decumbens
Sæmilega harðgerður, jarðlægur runni. Laufblöð smá. Greinar sígrænar. Blómin dökkgul. Blómgast miðsumars. Sólelskur. Hentar í steinhæðir, hleðslur og þess háttar. Jarðvegur þarf að vera vel framræstur og gjarnan blandaður sandi/möl. Þurrkþolinn. Niturbindandi. Ættaður úr fjalllendi S-Evrópu.
Garðamaríustakkur – Alchemilla mollis
Mjög harðgerð fjölær jurt. Hæð: 30 - 50 sm. Stór hærð lauf. Stórir drjúpandi blómklasar með fjölda smárra gulgrænna blóma miðsumars. Þekjandi. Þolir hálfskugga. Sáir sér talsvert mikið út.
Grænlandsmura – Sibbaldiopsis tridentata
Harðgerð, lágvaxin, sígræn jurt. Hæð 15 sm. Blöðin þrífingruð. Blómin hvít. Blómgast mest allt sumarið. Þrífst best í þurrum, malarbornum jarðvegi á sólríkum stöðum. Hentar í steinhæðir, hleðslur og þess háttar en einnig sem þekjuplanta þar sem jarðvegur er ekki of frjór. Laufið verður gjarnan rauðleitt á veturna. Millibil í breiðuplöntunum: 30 sm. Heimkynni: N-Ameríka þ.m.t. Grænland. Eldra fræðiheiti er Potentilla tridentata.
Hélurifs ‘Lukka’ – Ribes laxiflorum ‘Lukka’
Harðgerður, lágvaxinn (30 - 50 sm), jarðlægur runni. Laufið handsepótt. Laufgast í apríl. Rauðir haustlitir birtast strax í ágúst. Rauðbrún blóm í klasa í maí. Blá, héluð, æt ber þroskast í ágúst. Skuggþolið en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Hentar sem undirgróður undir trjám, í kanta, jaðra og þess háttar. Nóg er að planta 1 - 2 plöntum á fermetra. 'Lukka' er úrvalsyrki úr Lystigarði Akureyrar.
Hélurifs ‘Rökkva’ – Ribes laxiflorum ‘Rökkva’
Harðgerður, mjög kröftugur, jarðlægur þekjandi runni. Blöðin eru stærri samaborið við lauf kirtilrifs (R. glandulosum). Laufgast í apríl. Rauðir, áberandi haustlitir sem birtast strax í ágúst. Rauð brum áberandi á veturna. Skuggþolið. Sérlega öflug þekjuplanta. Hentar vel sem þekjuplanta undir trjám og stærri runnum. Getur klifrað upp veggi, tré o.þ.h. 'Rökkva' þroskar yfirleitt ekki ber. Blómin eru rauðbrún en ekki sérlega áberandi. Ein planta þekur 1 fermeter á fáum árum. Þrífst illa í þurrum og ófrjóum jarðvegi.
Himalajaeinir ‘Holger’ – Juniperus squamata ´Holger’
All harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (50 sm). Barrið á nýjum sprotum ljósgult síðan gráblátt. Sólelskur. Hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar.
Himalajaeinir / Keilubláeinir – Juniperus squamata ‘Blue Swede’
Lágvaxinn, þéttur, sígrænn runni. Hæð um 50 - 70 sm. Barrið ljósblá-grænt. Stundum aðeins brúnleitt á veturna. Sólelskur en þolir hálfskugga. 'Blue Swede' einirinn hentar í ker, blönduð beð með sígrænum gróðri, steinabeð, hleðslur, kanta og þess háttar.