Showing 241–252 of 284 results

Stafafura – Pinus contorta

Mjög harðgert, hraðvaxta, meðalstórt - stórvaxið sígrænt tré. Hæð 7 - 15 m. Getur orðið enn hærri á góðum stöðum. Sérstaklega á það við um undirtegundina P. contorta ssp. latifolia (meginlandsundirtegundin). Stafafura getur orðið talsvert breið hafi hún nóg pláss. Börkurinn er fremur þunnur og grábrúnn á litinn. Brumin eru rauðbrún og frekar mjó samanborið við berg- (P. uncinata) og fjallafuru (P. mugo). Nálarnar eru fagurgrænar, venjulega tvær saman í knippi. Þær eru 4 - 8 sm á lengd og 0,9 - 2 mm á breidd. Þroskar 3 - sm langa, kanelbrúna köngla strax á unga aldri. Könglarnir eru á annað ár að ná fullum þroska. Karlblómin birtast á vorin eða fyrri part sumars. Þau raða sér þétt á sprotana og eru í fyrst rauðbleik en síðan ryðbrún og falla síðan af þegar líður á sumarið. Þrífst víðast hvar á landinu. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelsk. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Algengasta furan hérlendis. Vinsælasta íslenska jólatréið. Myndar svepprót með furusvepp (Suillus luteus) sem er ágætis matsveppur. Stafafura hentar stakstæð en einnig í raðir, þyrpingar og til skógræktar sérstaklega á rýru landi. Varpar ekki eins miklum skugga og greni. Millibil ekki minna en 3 m. Gjarnan 2 m í skógrækt til að forðast miklar hliðargreinar. Tré sem hafa rými verða gjarnan mjög greinamikil og breið. Skýlið alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög berangurslegum stöðum. Barr roðnar gjarnan eftir mikla saltákomu af hafi. Öll stafafuran okkar er vaxin upp af íslensku fræi. Við framleiðum aðallega stafafuru af Skagway (Alaska) uppruna. Sú fura er fagurgræn allan veturinn en gulnar ekki eins og stafafura af meginlandsundirtegundinni, latifolia, gerir gjarnan. Stafafura er ágætis timburtré. Talsvert nýtt sem eldiviður og í kurl í stíga og beð. Stafafura er vinsælasta íslenska jólatréið. Einnig eru greinar hennar nýttar til skreytinga enda er stafafura barrheldin og ilmar talsvert. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Þallarætt (Pinaceae).

Stjörnubláeinir – Juniperus squamata ‘Blue Star’

Harðgerður, dvergvaxinn, sígrænn, þéttur, þúfulaga runni. Hægvaxta. Barrið áberandi stál-gráblátt. Sólelskur. Hentar í hleðslur, steinhæðir, kanta, ker og á leiði ástvina. Forðist blautan jarðveg. Þarf tæplega vetrarskýlingu nema á áveðursömustu stöðum

Stjörnutoppur / stjörnuhrjúfur ‘Mont Rose’ – Deutzia x hybrida ‘Mont Rose’

Sæmilega harðgerður, meðalstór skrautrunni. Hæð 0,5 - 1,5 m. Blómin ljós-bleik, stjörnulaga. Blómgast síðsumars. Laufið bursthært og hrjúft viðkomu. Þolir hálfskugga. Fer vel í blönduðum runna- og blómabeðum með um 80 sm millibili.

Stórkvistur – Spiraea henryi

Harðgerður meðalstór - stórvaxinn runni (1,5 - 2,5 m). Greinar rauðbrúnar. Laufblöðin sporbaugótt - öfugegglaga. Yfirleitt tennt ofan við miðju. Gulir haustlitir. Blómin hvít í sveipum miðsumars (júlí og fram í ágúst). Bogsveigðar greinar. Gulir - gulrauðir haustlitir. Þrífst í allri sæmilega frjórri garðmold. Þolir hálfskugga. Sómir sér vel stakstæður en einnig í bland með öðrum gróðri. Hentar einnig í raðir og þyrpingar þar sem er nægt rými. Millibil um eða yfir 1 m. Líkist bogkvist (S. veitchii) en stórkvistur virðist vera harðgerðari og kala síður. Bogkvistur blómgast seinna samanborið við stórkvist eða ekki fyrr en í ágúst. Einn stórkvistur tekur um 1,5 fermeter af plássi þegar fram í sækir. Heimkynni: Fjalllendi V- og M-Kína. Rósaætt (Rosaceae).

Strandavíðir / Gulvíðir – Salix phylicifolia ‘Strandir’ (Tröllatunga)

Mjög harðgerður, íslenskur, meðalhár runni (1,5 - 2,0 m). Laufið smágert, dökkgrænt og gljáandi. Gulir haustlitir. Sólelskur. Strandavíðir er mikið notaður í limgerði og skjólbelti. Venjulega eru gróðursett 3 stk/m í limgerði. Strandavíðir er þokkalega heilbrigður þó að stundum séu fiðrildalirfur fyrri part sumars til vandræða. Strandavíðir er í raun klón af gulvíði (S. phylicifolia) ættað frá Selárdal á Ströndum. Strandavíðir var gróðursettur á sínum tíma í garðinum að Tröllatungu við Steingrímsfjörð. Þaðan dreifðist svo strandavíðirinn áfram um landið. Strandavíðir er karlkyns og því er óþrifnaður af völdum fræullar ekki vandamál samanborið við t.d. brekkuvíði (S. phylicifolia 'Brekka'). Seldur berróta, 10 stk. í búnti og stakar plöntur í pottum. Fæst einnig í fjölpotta-bökkum.

Súdetareynir – Sorbus sudetica

Harðgerður, lágvaxinn - meðalhár (1 - 3 m), fremur grófgreinóttur runni. Laufið fremur smátt miðað við aðrar reynitegundir (Sorbus spp.), gljáandi að ofan en gráloðið að neðanverðu. Blómin rauðbleik í sveipum fyrri part sumars. Rauð ber í klösum þroskast að hausti. Gulir - brúnir haustlitir. Þolir hálfskugga. Fer best í hleðslum, köntum og framanlega í blönduðum runna- og blómabeðum. Sjaldgæfur en virðist öruggur í ræktun. Uppruninn í Súdetafjöllunum á landamærum Þýskalands, Póllands og Tékklands.

Súlueik – Quercus robur ‘Fastigiata’

Fremur viðkvæmt tré hérlendis. Krónan mjóslegin. Laufgast upp úr miðjum júní. Frýs yfirleitt græn en stundum sjást gulir/gulbrúnir haustlitir. Fremur hægvaxta. Þrífst eingöngu í grónum görðum þar sem er skjólsælt. Sólelsk en þolir hálfskugga. Jarðvegurinn þarf að vera frjór og rakaheldinn. Óvíst er hversu hávaxin súleikin getur orðið hérlendis en reikna má með 6 - 7 m á allra bestu stöðum á löngum tíma.

Sumareik – Quercus robur

Sumargrænt tré. Óvíst er hversu há sumareikin getur orðið hérlendis en sjálfsagt mun hún vaxa upp fyrir 12 m hæð með tímanum á góðum vaxtarstöðum. Gulir haustlitir. Visin lauf sitja gjarnan á ungum trjám fram á vor. Þarf nokkurt skjól í uppvextinum. Þolir hálfskugga. Þrífst best í þokkalega frjóum jarðvegi. Má vera grýttur. Gott er að stýra vexti með klippingu annars vilja sumar eikur verða runnavaxnar. Almennt talið harðgerðasta eikin hérlendis og sú sem mesta hefur verið gróðursett. Samt er sumareik ennþá fremur sjaldgæf í ræktun. Sumareik hentar helst stakstæð í grónum görðum og í rjóður í skógarreitum og sumarhúsalóðum. Þrífst ekki á köldum og vindasömum stöðum. Sumareik laufgast seint eða ekki fyrr en um miðjan júní.

Sunnukvistur – Spiraea nipponica

Harðgerður, í meðallagi hávaxinn runni (1, 5 m, stundum hærri). Greinar bogsveigðar. Blómin hvít í sveipum sem sitja eftir endilöngum greinunum. Gulir - rauðir haustlitir. Sunnukvistur fer vel stakstæður en einnig í röðum og þyrpingum eða í bland með öðrum gróðri. Millibil um 80 sm. Til að eyðileggja ekki vaxtarlagið er best að grisja gamla runna með því að klippa gamlar greinar alveg niður við jörð. Með því móti skapast rými fyrir nýjar greinar að vaxa upp sem seinna meir munu svo blómgast. Sunnukvistur þolir hálfskugga. Vinsæll og algengur um land allt. Virðist vind- og saltþolinn. Laus við meindýr og sjúkdóma.

Surtartoppur ‘Árni’ – Lonicera nigra ‘Árni’

Harðgerður, meðalstór runni. Hæð um 1,5 - 2,0 m. Laufgast snemma í maí. Laufið áberandi rauðbrúnt við laufgun og fram eftir sumri. Hvít - ljósbleik blóm snemma sumars tvö og tvö saman. Svört, óæt ber þroskast í ágúst. Skuggþolinn. Þolir vel klippingu. Hentar í blönduð beð, raðir og þyrpingar með 80 - 100 sm millibili. Góður í ker / potta einnig t.d. klipptur í kúlur. Úrvals-yrki sem valið var í Þöll úr hópi fræplantna. Blöðin eru rauðari en gengur og gerist hjá surtartoppi. Yrkið er kennt við Árna Þórólfsson starfsmann Skógræktarfélags Hfj. Aðeins fáanlegur í Þöll.

Surtartoppur / Svarttoppur – Lonicera nigra

Harðgerður, þéttur, meðalstór runni (1,5 - 2 m). Laufin eru mött og sitja gagnstætt á greinunum. Laufið gjarnan rauðbrúnleitt fyrst á vorin. Laufgast fremur snemma á vorin. Blómin smá, hvít - ljósbleik. Aldinið svart, óætt ber sem þroskast í ágúst. Blómin og berin sitja tvö og tvö saman. Skuggþolinn. Heilbrigður. Haustlitir ekki áberandi. Surtartoppur hentar í raðir, þyrpingar og limgerði. Þolir vel klippingu. Vex best í frjórri garðmold. Millibil í limgerði um 50 sm. Millibil í blandað runnabeð um 80 - 100 sm. Heimkynni: Fjallendi Mið- og Suður-Evrópu.

Svartyllir – Sambucus nigra

All harðgerður runni. Hæð: 2 - 4 m. Grófgreinóttur. Brum gagnstæð. Blöðin stakfjöðruð, græn. Blómin hvít, mörg saman í stórum sveipum síðsumars (ágúst). Berin svört fullþroskuð en svartyllir dregur nafn sitt af liti berjanna. Svartyllir nær ekki að þroska ber utandyra hérlendis. Blómin má nýta í svaladrykk. Skuggþolinn en blómgast betur í sól. Þrífst vel í venjulegri, ekki of þurri garðmold. Þrífst vel í grónum görðum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Millibil: 1 m eða meir. Í seinni tíð hafa komið fram yrki af svartylli með rauðbrúnum/purpurarauðum laufum og bleikum blómum eins og 'Black Lace' og 'Black Tower'. Okkur í Þöll hefur tekist að láta íslenskt fræ spíra þrátt fyrir að berin séu ekki fullþroska. Fræið er að runnum við íþróttahúsið Strandgötu, Hfj og úr garði á Flötunum, Gbæ. Tvö yrki hafa verið valin úr fræplöntunum. Annað er 'Amma Dóra' og hitt 'Afi Tóti'. Yrkin eru kennd við hjónin Halldóru Halldórsdóttur og Þórólf Þorgrímsson sem eru fædd árið 1928 og hafa verið dyggir styrktaraðilar Skógræktarfélags Hfj í gegnum tíðina ásamt því að vera foreldrar Árna, Gunnars og Halldórs sem allir hafa unnið mikið fyrir félagið og Þöll. Heimkynni svartyllis eru í Evrópu þó ekki allra nyrst.