Showing 253–264 of 279 results

Sveigsýrena ‘Agnes Smith’ – Syringa x josiflexa ‘Agnes Smith’ (hvít)

All harðgerður, hægvaxta meðalhár - hávaxinn runni (2 - 3 m). Laufið ljósgrænt, gagnstætt. Gulir haustlitir. Blómin snjóhvít í uppréttum, keilulaga klasa, ilmandi. Blómgast miðsumars (júní - júlí). Falleg stakstæð eða í bland með öðrum runnum og blómum með um 1 m millibili. Kettir sækja mjög í sveigsýrenu 'Agnes Smith'. Því verður að verja hana fyrstu árin gegn ágangi katta með t.d. hænsnaneti eða einhverju þess háttar. Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold.

Sýrena ‘Bríet’ – Syringa ‘Bríet’

Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré. Hæð 4 - 5 m. Laufgast seinna en aðrar sýrenur og verður því ekki fyrir "vor-kvefi". Laufið er einnig smærra en á flestum öðrum sýrenum sem hér eru í ræktun. Blómin eru mörg saman í klasa, laxableik og ilmandi. Blómgast í júlí. Þolir vel hálfskugga. Móðurplantan stendur við hús nr. 69 í Bergstaðastræti í Reykjavík. Ekki er vitað hvaða tegund eða tegundarblendingur er hér á ferðinni. Stórvaxnasta sýrenan sem hér er í ræktun. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Sýrena 'Bríet' hentar stakstæð, í raðir, þyrpingar og blönduð runna- og blómabeð. Gæti jafnvel hentað í skjólbelti. Millibil að minnsta kosti 1,5 m. Yrkið er kennt við Bríet Bjarnhéðinsdóttur (1856 - 1940).

Sýrena ‘Hallveig’ – Syringa ‘Hallveig’

Harðgerður, fremur stórvaxinn, sumargrænn runni. Hæð 2 - 3 m. Laufin sitja gagnstætt á greinunum. Þau eru oddbaugótt - lensulaga. Ung lauf áberandi rauðbrún. Ungir sprotar eru áberandi dökkir. Óútsprungnir blómklasar dökk-fjólubláir. Útsprungin eru blómin lillableik og ilma. Byrjar að blómstra fyrr en aðrar sýrenur hérlendis eða seinni part júní eða í byrjun júlí. Blómviljug. Upprunanlega móðurplantan var gróðursett í Hallargarðinn við Lækjargötu í Rvk í kringum árið 1985. Hún hafði komið upp af fræi frá Milde grasagarðinum í Bergen, Noregi árið 1981. 'Hallveig' líkast helst gljásýrenu (S. josikaea) og er trúlega blendingur hennar. 'Hallveig' er því íslenskt úrvalsyrki valin af yrkisnefnd Yndisgróðurs árið 2013 og skýrð í höfuðið á Hallveigu Fróðadóttur eiginkonu landnámsmannsins Ingólfs Arnarsonar. Þrífst í allri sæmilega frjórri garðmold. Sólelsk en þolir hálfskugga.  'Hallveig' hentar stakstæð, aftarlega í beðum í bland með öðrum gróðri, í þyrpingar og raðir og í skjólbelti með um 1,5 - 2 m millibili. Þolir ágætlega klippingu. Smjörviðarætt (Oleaceae).

Sýrena ‘Villa Nova’ – Syringa ‘Villa Nova’

Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Blómin fjólubleik, mörg saman í stórum klasa, ilmandi. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Ein allra besta sýrenan. Fer vel stakstæð, aftarlega í blönduðum runna- og blómabeðum eða fleiri saman í þyrpingum eða röðum. Millibil 2 m. Ekki er nákvæmlega vitað um uppruna þessa yrkis. Sýrenan mun vera kennd við Vilhjálm Sigtryggsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Tindalyngrós ‘Colibri’ – Rhododendron yakushimanum ‘Colibri’

Lágvaxinn, sígrænn, þéttur, hægvaxta, hálfkúlulega runni. Hæð 50 - 100 sm. Blómin rauðbleik í knúpp en fagurbleik útsprungin. Blómgast í lok maí og fram í júní. Skjólþurfi. Þolir hálfskugga. Gróðursetjið í mómold blandaðri gömlu hrossataði og furunálum. Vökvið vel eftir gróðursetningu og næstu daga á eftir. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Gott er að þekja lyngrósabeð með trjákurli. Berið á um eina teskeið af blönduðum garðáburði í kringum plöntuna í maí en ekki meira það árið. Hentar framarlega í beði með öðrum lyngrósum, lyngi og öðrum sígrænum runnum. Tindalyngrósir (R. degronianum ssp. yakushimanum) eru almennt talið harðgerðari en flestar aðrar lyngrósir. Heimkynni þeirra eru á japönsku eyjunni Yakushima.

Tindalyngrós ‘Koichiro Wada’ – Rhododendron yakushimanum ‘Koichiro Wada’

Þéttur, hægvaxta, sígrænn, þéttur runni. Hæð og breidd um 60 - 70 sm. Blómin eru bleik í knúpp en hvít, bjöllulaga, mörg saman í júní. Laufið áberandi kúpt, heilrennt, öfuglensulaga, hvítloðið í fyrstu síðan dökkgræn. Laufblöð hvítloðin að neðan í fyrstu en síðan brúnloðin að neðanverðu. Skjólþurfi. Þolir hálfskugga. Gróðursetjið í mómold, blandaðri gömlu hrossataði og furunálum. Varist að planta tindalyngrós of djúpt. Gott er að setja moltu yfir lyngrósabeðin árlega eða bera á tilbúinn blandaðan áburð sem nemur um einni sléttfullri matskeið á hverja plöntu í maí. Hentar saman með öðrum lyngrósum, lyngi og sígrænum runnum á skjólsælum stað. Tegundin er ættuð frá japönsku eyjunni Yakushima. Þetta úrvalsyrki er kennt við japanskan garðyrkjumann, Koichiro Wada, sem sendi úrvalsefnivið af tindalyngrós til Rothchild frá Exbury í Cornwall, Englandi á fjórða áratug síðustu aldar. Rothchild var á þessum tíma frægasti lyngrósasérfræðingurinn.

Týrólareynir / Doppureynir – Sorbus austriaca

Harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð: 6 - 10 m hérlendis. Stundum runni. Líkist alpareyni (Sorbus mougeotii). Talinn blendingur seljureynis (Sorbus aria) og reyniviðar (Sorbus aucuparia). Laufblöð breið-sporöskjulaga með kíllaga grunn. Lauf sagtennt en neðarlega á laufinu eru flipar sem skerast upp í blöðkuna sem nemur um 1/6 af breitt hennar. Flipar skarast ögn. Ofar eru laufblöðin tvísagtennt. Laufblöð ekki eins slétt og laufblöð alpareynis enda blaðjaðrar bylgjaðir. Lauf týrólareynis hafa þykkari hár en lauf annara reynitegunda í Sorbus aria deildinni. Gulir - brúnir haustlitir í október. Frýs stundum grænn. Blómin hvít í sveipum í júní. Rauðir berjaklasar þroskast í október. Trúlega verið hér í ræktun í einhverja áratugi og yfirleitt ranglega nefndur alpareynir. Finnst sjálfsáinn í nágrenni byggðar. Týrólareynir virðist beinvaxnari og jafnvel hávaxnari að jafnaði samanborið við alpareyni. Týrólareynir sómir sér vel stakur eða fleiri saman með um 3 m millibili eða meir. Hentar jafnvel í limgerði með um 2 plöntum/m. Þrífst í allri venjulegri, vel framræstri garðmold. Þrífst ekki í súrum jarðvegi. Heimkynni: Fjalllendi í Austurríki og á Balkanskaganum.

Úlfareynir – Sorbus x hostii

Harðgert lágvaxið tré - hávaxinn runni (2,5 - 5 m, stundum hærri). Blöðin gljáandi á efra borði, gráloðin á því neðra. Blómin bleik í sveipum fyrri part sumars. Rauð reyniber í klösum þroskast á haustin. Fljótlega étin upp af fuglum. Gulir - rauðir haustlitir. Vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Fer vel stakstæður eða í bland með öðrum gróðri. Má einnig nota í limgerði. Í limgerði er hæfilegt bil 50 - 70 sm. Annars er 1,5 - 2 m bil hæfilegt. Klippið helst á sumrin til að forðast reyniátu. Úlfareynir er algengur í íslenskum görðum. Berin eru ekki römm og stundum notuð til manneldis. Úlfareynir er talinn vera náttúrulegur tegundablendingur á milli blikreynis (S. chamaemespilus) og alpareynis (S. mougeotii) og finnst eins og móðurtegundirnar í fjalllendi M-Evrópu.

Úlfarunni – Viburnum opulus

Sæmilega harðgerður, meðalstór runni (1, 5 - 2,5 m). Laufblöðin sitja gagnstætt. Þau eru þríflipótt, 5 - 10 sm löng og breið, grófsagtennt. Blómin hvít í sveipum síðsumars. Yst í sveipnum sitja stærri og skrautlegri ófrjó blóm en frjó nær miðju. Stundum þroskast rauð, óæt ber (steinaldin) í kjölfarið. Rauðir og gulir haustlitir. Þolir hálfskugga. Fer vel í blönduðum runnabeðum. Þolir vel klippingu. Millibil um 1 m. Heimkynni úlfarunna eru í Evrópu en þó ekki Íslandi, N-Afríku og M-Asíu.

Ulleungreynir / Pálmareynir ‘Dodong’ – Sorbus ulleungensis ‘Dodong’

All harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð 4 - 6 m hérlendis. Getur ef til vill orðið hærri á góðum stöðum. Laufin allt að 25 sm löng, stakfjöðruð. Smáblöð 15 - 17 talsins og hvassydd. Áberandi rauðir og rauðgulir haustlitir. Blómin hvít í sveipum fyrri part sumars. Berin sitja mörg saman í klösum, perulaga, rauðgul fullþroska. Klippið og snyrtið 'Dodong' eingöngu yfir sumartímann til að forðast reyniátu. Yrkið 'Dodong' er vaxið upp af fræi sem safnað var í sænsk-dönskum leiðangri til kóreönsku eyjarinnar Ullungdo árið 1976. Yrkið er kennt við hafnarbæinn á umræddri eyju. 'Dodong' fer vel sem stakstæður í litlum sem stórum görðum. Einnig fellegur í röðum og þyrpingum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Heimkynni: Eyjan Ulleungdo, S-Kóreu. Rósaætt (Rosaceae).

Vaxlífviður – Thujopsis dolabrata

Sérkennilegt sígrænt tré/runni ættaður frá Japan. Minnir í útliti á grófan sýprus (Chamacyparis spp.) eða lífvið (Thuja spp.). Barrið er hreisturkennt og með áberandi hvítum varaopsröndum að neðanverðu. Hægvaxta. Þarf skjól en þolir vel hálfskugga. Þollir illa þurrk og næðing. Sjaldgæfur hérlendis.

Vesturbæjarvíðir – Salix x smithiana

Lágvaxið - meðalhátt tré eða stórvaxinn runni. Laufið grágrænt. Sprotar gulgrænir. Börkur grár og sprunginn á eldri trjám. Kvk. Sólelskur. Þarf frjóan jarðveg og hlýjan vaxtarstað til að þrífast. Hætt við haustkali flest ár enda grænn fram í október. Stundum ber á vörtum í laufi af völdum sagvespu (Euura bridgmanii). Hentar stakstæður, í raðir og þyrpingar. Bindið upp eftir gróðursetningu ef vesturbæjarvíðirinn á að verða einstofna. Þolir vel klippingu / stífingu. Upphaflega barst vesturbæjarvíðir til landsins í byrjun síðustu aldar sem lifandi sproti í tágakörfu frá Þýskalandi sem Jón Eyvindsson kaupmaður flutti inn. Ísleifur sonur hans kom sprotanum til og gróðursetti í garð þeirra að Stýrimannstíg 9, Rvk. Víðirinn dafnaði vel og dreifðist um Vesturbæinn í Rvk og víðar enda auðvel að fjölga honum með græðlingum. Líklega er allur vesturbæjarvíðir hérlendis upprunninn af þessu tré. Vesturbæjarvíðir er talinn náttúrulegur blendingur körfuvíðis (Salix viminalis), selju (Salix caprea) og gráselju (Salix cinerea) og finnst víða í Evrópu. Okkar vesturbæjarvíðir er ræktaður af græðlingum teknum af tré sem stendur við Hábæ við Skúlaskeið, Hfj. Einnig höfum við verið með vesturbæjarvíði frá Ytri Skógum sem að öllum líkindum er sami klónn. Vesturbæjarvíðir er sjaldgæfur hérlendis nema helst í eldri hverfum Rvk (Vesturbæ og miðbæ). Yfirleitt áberandi kræklóttur sökum kals.