Sveighyrnir ‘Roði’ – Cornus sericea ‘Roði’
Fremur harðgerður, meðalhár runni (1,5 - 2,2 m). Blöð gagnstæð, egglaga. Rauður haustlitir. Litlir hvítir blómsveipir snemmsumars. Hvít - ljósblá ber þroskast í kjölfarið. Sprotar og ungar greinar rauðar. Sólelskur en þolir hálfskugga. Þrífst best í sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Í sínum heimkynnum vex sveighyrnir gjarnan í deigu eða jafnvel blautu landi. Sé runninn óklipptur sveigjast greinarnar með tímanum niður og slá rótum. Til að örva myndun nýrra rauðra sprota er tilvalið að klippa í burt eldri greinar alveg niður við jörð seinni part vetrar. Eldri greinar eiga það til að sveigjast niður og slá rótum. Sveighyrnir fer vel í blönduðum runna- og blómabeðum en einnig í nokkrir saman í röðum og þyrpingum með um 80 - 100 sm millibili. Hentar einnig í hefðbundin limgerði með um 50 sm millibili. Ekki síður skrautlegur á veturna vegna rauða barkarlitarins samanborið við á sumrin. Yrkið 'Roði' er úrvalsyrki sem barst hingað með efnivið frá Alaska þegar Óli Valur Hansson og félagar fóru þangað í söfnunarferð haustið 1985. Náttúruleg heimkynni sveighyrnis eru auk Alaska, Kanada og norðanverð Bandaríkin þvert yfir meginland N-Ameríku.
Sveigsýrena ‘Agnes Smith’ – Syringa x josiflexa ‘Agnes Smith’ (hvít)
All harðgerður, hægvaxta meðalhár - hávaxinn runni (2 - 3 m). Laufið ljósgrænt, gagnstætt. Gulir haustlitir. Blómin snjóhvít í uppréttum, keilulaga klasa, ilmandi. Blómgast miðsumars (júní - júlí). Falleg stakstæð eða í bland með öðrum runnum og blómum með um 1 m millibili. Kettir sækja mjög í sveigsýrenu 'Agnes Smith'. Því verður að verja hana fyrstu árin gegn ágangi katta með t.d. hænsnaneti eða einhverju þess háttar. Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold.
Sýrena ‘Bríet’ – Syringa ‘Bríet’
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré. Hæð 4 - 5 m. Laufgast seinna en aðrar sýrenur og verður því ekki fyrir "vor-kvefi". Laufið er einnig smærra en á flestum öðrum sýrenum sem hér eru í ræktun. Blómin eru mörg saman í klasa, laxableik og ilmandi. Blómgast í júlí. Þolir vel hálfskugga. Móðurplantan stendur við hús nr. 69 í Bergstaðastræti í Reykjavík. Ekki er vitað hvaða tegund eða tegundarblendingur er hér á ferðinni. Stórvaxnasta sýrenan sem hér er í ræktun. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Sýrena 'Bríet' hentar stakstæð, í raðir, þyrpingar og blönduð runna- og blómabeð. Gæti jafnvel hentað í skjólbelti. Millibil að minnsta kosti 1,5 m. Yrkið er kennt við Bríet Bjarnhéðinsdóttur (1856 - 1940).
Sýrena ‘Hallveig’ – Syringa ‘Hallveig’
Harðgerður, fremur stórvaxinn, sumargrænn runni. Hæð 2 - 3 m. Laufin sitja gagnstætt á greinunum. Þau eru oddbaugótt - lensulaga. Ung lauf áberandi rauðbrún. Ungir sprotar eru áberandi dökkir. Óútsprungnir blómklasar dökk-fjólubláir. Útsprungin eru blómin lillableik og ilma. Byrjar að blómstra fyrr en aðrar sýrenur hérlendis eða seinni part júní eða í byrjun júlí. Blómviljug.
Upprunanlega móðurplantan var gróðursett í Hallargarðinn við Lækjargötu í Rvk í kringum árið 1985. Hún hafði komið upp af fræi frá Milde grasagarðinum í Bergen, Noregi árið 1981. 'Hallveig' líkast helst gljásýrenu (S. josikaea) og er trúlega blendingur hennar. 'Hallveig' er því íslenskt úrvalsyrki valin af yrkisnefnd Yndisgróðurs árið 2013 og skýrð í höfuðið á Hallveigu Fróðadóttur eiginkonu landnámsmannsins Ingólfs Arnarsonar.
Þrífst í allri sæmilega frjórri garðmold. Sólelsk en þolir hálfskugga. 'Hallveig' hentar stakstæð, aftarlega í beðum í bland með öðrum gróðri, í þyrpingar og raðir og í skjólbelti með um 1,5 - 2 m millibili. Þolir ágætlega klippingu. Smjörviðarætt (Oleaceae).
Sýrena ‘Villa Nova’ – Syringa ‘Villa Nova’
Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Blómin fjólubleik, mörg saman í stórum klasa, ilmandi. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Ein allra besta sýrenan. Fer vel stakstæð, aftarlega í blönduðum runna- og blómabeðum eða fleiri saman í þyrpingum eða röðum. Millibil 2 m. Ekki er nákvæmlega vitað um uppruna þessa yrkis. Sýrenan mun vera kennd við Vilhjálm Sigtryggsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Tindalyngrós ‘Colibri’ – Rhododendron yakushimanum ‘Colibri’
Lágvaxinn, sígrænn, þéttur, hægvaxta, hálfkúlulega runni. Hæð 50 - 100 sm. Blómin rauðbleik í knúpp en fagurbleik útsprungin. Blómgast í lok maí og fram í júní. Skjólþurfi. Þolir hálfskugga.
Gróðursetjið í mómold blandaðri gömlu hrossataði og furunálum. Vökvið vel eftir gróðursetningu og næstu daga á eftir. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Gott er að þekja lyngrósabeð með trjákurli. Berið á um eina teskeið af blönduðum garðáburði í kringum plöntuna í maí en ekki meira það árið.
Hentar framarlega í beði með öðrum lyngrósum, lyngi og öðrum sígrænum runnum. Tindalyngrósir (R. degronianum ssp. yakushimanum) eru almennt talið harðgerðari en flestar aðrar lyngrósir. Heimkynni þeirra eru á japönsku eyjunni Yakushima.
Tindalyngrós ‘Koichiro Wada’ – Rhododendron yakushimanum ‘Koichiro Wada’
Þéttur, hægvaxta, sígrænn, þéttur runni. Hæð og breidd um 60 - 70 sm. Blómin eru bleik í knúpp en hvít, bjöllulaga, mörg saman í júní. Laufið áberandi kúpt, heilrennt, öfuglensulaga, hvítloðið í fyrstu síðan dökkgræn. Laufblöð hvítloðin að neðan í fyrstu en síðan brúnloðin að neðanverðu.
Skjólþurfi. Þolir hálfskugga. Gróðursetjið í mómold, blandaðri gömlu hrossataði og furunálum. Varist að planta tindalyngrós of djúpt. Gott er að setja moltu yfir lyngrósabeðin árlega eða bera á tilbúinn blandaðan áburð sem nemur um einni sléttfullri matskeið á hverja plöntu í maí.
Hentar saman með öðrum lyngrósum, lyngi og sígrænum runnum á skjólsælum stað. Tegundin er ættuð frá japönsku eyjunni Yakushima. Þetta úrvalsyrki er kennt við japanskan garðyrkjumann, Koichiro Wada, sem sendi úrvalsefnivið af tindalyngrós til Rothchild frá Exbury í Cornwall, Englandi á fjórða áratug síðustu aldar. Rothchild var á þessum tíma frægasti lyngrósasérfræðingurinn.
Týrólareynir / Doppureynir – Sorbus austriaca
Harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð: 6 - 10 m hérlendis. Stundum runni. Líkist alpareyni (Sorbus mougeotii). Talinn blendingur seljureynis (Sorbus aria) og reyniviðar (Sorbus aucuparia). Laufblöð breið-sporöskjulaga með kíllaga grunn. Lauf sagtennt en neðarlega á laufinu eru flipar sem skerast upp í blöðkuna sem nemur um 1/6 af breitt hennar. Flipar skarast ögn. Ofar eru laufblöðin tvísagtennt. Laufblöð ekki eins slétt og laufblöð alpareynis enda blaðjaðrar bylgjaðir. Lauf týrólareynis hafa þykkari hár en lauf annara reynitegunda í Sorbus aria deildinni. Gulir - brúnir haustlitir í október. Frýs stundum grænn. Blómin hvít í sveipum í júní. Rauðir berjaklasar þroskast í október. Trúlega verið hér í ræktun í einhverja áratugi og yfirleitt ranglega nefndur alpareynir. Finnst sjálfsáinn í nágrenni byggðar. Týrólareynir virðist beinvaxnari og jafnvel hávaxnari að jafnaði samanborið við alpareyni. Týrólareynir sómir sér vel stakur eða fleiri saman með um 3 m millibili eða meir. Hentar jafnvel í limgerði með um 2 plöntum/m. Þrífst í allri venjulegri, vel framræstri garðmold. Þrífst ekki í súrum jarðvegi. Heimkynni: Fjalllendi í Austurríki og á Balkanskaganum.
Úlfareynir – Sorbus x hostii
Harðgert lágvaxið tré - hávaxinn runni (2,5 - 5 m, stundum hærri). Blöðin gljáandi á efra borði, gráloðin á því neðra. Blómin bleik í sveipum fyrri part sumars. Rauð reyniber í klösum þroskast á haustin. Fljótlega étin upp af fuglum. Gulir - rauðir haustlitir. Vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Fer vel stakstæður eða í bland með öðrum gróðri. Má einnig nota í limgerði. Í limgerði er hæfilegt bil 50 - 70 sm. Annars er 1,5 - 2 m bil hæfilegt. Klippið helst á sumrin til að forðast reyniátu. Úlfareynir er algengur í íslenskum görðum. Berin eru ekki römm og stundum notuð til manneldis. Úlfareynir er talinn vera náttúrulegur tegundablendingur á milli blikreynis (S. chamaemespilus) og alpareynis (S. mougeotii) og finnst eins og móðurtegundirnar í fjalllendi M-Evrópu.
Úlfarunni – Viburnum opulus
Sæmilega harðgerður, meðalstór runni (1, 5 - 2,5 m). Laufblöðin sitja gagnstætt. Þau eru þríflipótt, 5 - 10 sm löng og breið, grófsagtennt. Blómin hvít í sveipum síðsumars. Yst í sveipnum sitja stærri og skrautlegri ófrjó blóm en frjó nær miðju. Stundum þroskast rauð, óæt ber (steinaldin) í kjölfarið. Rauðir og gulir haustlitir. Þolir hálfskugga. Fer vel í blönduðum runnabeðum. Þolir vel klippingu. Millibil um 1 m. Heimkynni úlfarunna eru í Evrópu en þó ekki Íslandi, N-Afríku og M-Asíu.
Ulleungreynir / Pálmareynir ‘Dodong’ – Sorbus ulleungensis ‘Dodong’
All harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð 4 - 6 m hérlendis. Getur ef til vill orðið hærri á góðum stöðum. Laufin allt að 25 sm löng, stakfjöðruð. Smáblöð 15 - 17 talsins og hvassydd. Áberandi rauðir og rauðgulir haustlitir. Blómin hvít í sveipum fyrri part sumars. Berin sitja mörg saman í klösum, perulaga, rauðgul fullþroska.
Klippið og snyrtið 'Dodong' eingöngu yfir sumartímann til að forðast reyniátu. Yrkið 'Dodong' er vaxið upp af fræi sem safnað var í sænsk-dönskum leiðangri til kóreönsku eyjarinnar Ullungdo árið 1976. Yrkið er kennt við hafnarbæinn á umræddri eyju.
'Dodong' fer vel sem stakstæður í litlum sem stórum görðum. Einnig fellegur í röðum og þyrpingum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Heimkynni: Eyjan Ulleungdo, S-Kóreu. Rósaætt (Rosaceae).