Showing 265–276 of 283 results

Úlfarunni – Viburnum opulus

Sæmilega harðgerður, meðalstór runni (1, 5 - 2,5 m). Laufblöðin sitja gagnstætt. Þau eru þríflipótt, 5 - 10 sm löng og breið, grófsagtennt. Blómin hvít í sveipum síðsumars. Yst í sveipnum sitja stærri og skrautlegri ófrjó blóm en frjó nær miðju. Stundum þroskast rauð, óæt ber (steinaldin) í kjölfarið. Rauðir og gulir haustlitir. Þolir hálfskugga. Fer vel í blönduðum runnabeðum. Þolir vel klippingu. Millibil um 1 m. Heimkynni úlfarunna eru í Evrópu en þó ekki Íslandi, N-Afríku og M-Asíu.

Ulleungreynir / Pálmareynir ‘Dodong’ – Sorbus ulleungensis ‘Dodong’

All harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð 4 - 6 m hérlendis. Getur ef til vill orðið hærri á góðum stöðum. Laufin allt að 25 sm löng, stakfjöðruð. Smáblöð 15 - 17 talsins og hvassydd. Áberandi rauðir og rauðgulir haustlitir. Blómin hvít í sveipum fyrri part sumars. Berin sitja mörg saman í klösum, perulaga, rauðgul fullþroska. Klippið og snyrtið 'Dodong' eingöngu yfir sumartímann til að forðast reyniátu. Yrkið 'Dodong' er vaxið upp af fræi sem safnað var í sænsk-dönskum leiðangri til kóreönsku eyjarinnar Ullungdo árið 1976. Yrkið er kennt við hafnarbæinn á umræddri eyju. 'Dodong' fer vel sem stakstæður í litlum sem stórum görðum. Einnig fellegur í röðum og þyrpingum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Heimkynni: Eyjan Ulleungdo, S-Kóreu. Rósaætt (Rosaceae).

Vaxlífviður – Thujopsis dolabrata

Sérkennilegt sígrænt tré/runni ættaður frá Japan. Minnir í útliti á grófan sýprus (Chamacyparis spp.) eða lífvið (Thuja spp.). Barrið er hreisturkennt og með áberandi hvítum varaopsröndum að neðanverðu. Hægvaxta. Þarf skjól en þolir vel hálfskugga. Þollir illa þurrk og næðing. Sjaldgæfur hérlendis.

Vesturbæjarvíðir – Salix x smithiana

Lágvaxið - meðalhátt tré eða stórvaxinn runni. Laufið grágrænt. Sprotar gulgrænir. Börkur grár og sprunginn á eldri trjám. Kvk. Sólelskur. Þarf frjóan jarðveg og hlýjan vaxtarstað til að þrífast. Hætt við haustkali flest ár enda grænn fram í október. Stundum ber á vörtum í laufi af völdum sagvespu (Euura bridgmanii). Hentar stakstæður, í raðir og þyrpingar. Bindið upp eftir gróðursetningu ef vesturbæjarvíðirinn á að verða einstofna. Þolir vel klippingu / stífingu. Upphaflega barst vesturbæjarvíðir til landsins í byrjun síðustu aldar sem lifandi sproti í tágakörfu frá Þýskalandi sem Jón Eyvindsson kaupmaður flutti inn. Ísleifur sonur hans kom sprotanum til og gróðursetti í garð þeirra að Stýrimannstíg 9, Rvk. Víðirinn dafnaði vel og dreifðist um Vesturbæinn í Rvk og víðar enda auðvel að fjölga honum með græðlingum. Líklega er allur vesturbæjarvíðir hérlendis upprunninn af þessu tré. Vesturbæjarvíðir er talinn náttúrulegur blendingur körfuvíðis (Salix viminalis), selju (Salix caprea) og gráselju (Salix cinerea) og finnst víða í Evrópu. Okkar vesturbæjarvíðir er ræktaður af græðlingum teknum af tré sem stendur við Hábæ við Skúlaskeið, Hfj. Einnig höfum við verið með vesturbæjarvíði frá Ytri Skógum sem að öllum líkindum er sami klónn. Vesturbæjarvíðir er sjaldgæfur hérlendis nema helst í eldri hverfum Rvk (Vesturbæ og miðbæ). Yfirleitt áberandi kræklóttur sökum kals.

Vesturbæjarvíðir – Salix x smithiana – Ytri Skógum

Vesturbæjarvíðir er all hraðvaxið tré eða runni. Kelur þó yfirleitt (haustkal). Verður því mjög gjarnan kræklóttur. Hentar því einungis í þokkalega hlýjum sveitum og skjólgóðum görðum. Gjarnan álíka breiður og hann er hár. Hæð: 6 - 8 m. Laufið er lensulaga, grágrænt. Sólelskur. Grænn fram á haust. Þolir vel klippingu. Stundum ber á vörtum í laufi af völdum sagvespu (Euura bridgmanii). Um er að ræða klónaðar plöntur af tréi ársins 2018 sem stendur að Ytri Skógum undir Eyjafjöllum. Notaður stakstæður, í raðir, þyrpingar og jafnvel í limgerði. Vesturbæjarvíðir https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/vesturbaejarvidir-er-tre-arsins

Vetrartoppur – Lonicera pileata

Lágvaxinn (50 sm), sígrænn runni. Laufið smátt, gljándi og heilrennt. Blóm og aldin lítið áberandi. Vex meira og minna lágrétt. Skuggþolinn. Þrífst í venjulegri, framræstri garðmold á skjólsælum stöðum. Þekjandi. Skýlið fyrsta veturinn eftir gróðursetningu nema að skjólið sé þeim mun meira. Hentar framarlega í beð, sem undirgróður undir trjám og þess háttar. Millibil um 50 - 70 sm. Erlendis gjarnan gróðursettur í lágvaxin limgerði.

Virginíuheggur ‘Canada Red’ – Prunus virginiana ‘Canada Red’

Lítið til meðalstórt (5- 7,5 m), all harðgert tré eða stórvaxinn runni. Gjarnan margstofna enda hefur virginíuheggur tilhneigingu til að skjóta upp stofnskotum. Hægt að forma með klippingu í einstofna tré. Fremur harðgerður. Grænt lauf fyrri part sumars. Dökk-purpurarautt lauf upp úr miðju sumri (júlí). Skærrautt lauf á haustin. Ljósir blómklasar, svört ber. Hefur þó lítið blómstrað hérlendis hingað til. Þolir hálfskugga en litsterkastur í fullri sól. Fallegur stakstæður eða innan um og framan við grænan og ljósari gróður. Virðist þola klippingu vel. Millibil 2,5/3 m eða meir. Heimkynni: Stór svæði í N-Ameríku. Aðallega S-Kanada og norðanverð Bandaríkin. Dæmigerður villtur virginíuheggur hefur ekki purpurarauð laufblöð yfir sumartímann. Yrkið 'Canada Red' er upprunið frá Minnesota í Bandaríkjunum frá því fyrir árið 1985.

Vorbroddur ‘Kristinn’ – Berberis vernae ‘Kristinn’

Harðgerður, þéttur, sumargrænn, þyrnóttur runni. Hæð 1,5 - 2 m. Getur jafnvel orðið enn hærri á góðum stöðum með tímanum. Vöxturinn er nokkuð uppréttur framan af en síðan vaxa greinarnar út á við og drjúpa nokkuð í endana. Þyrnar hvassir og einfaldir utarlega á greinum en þrískiptir til sexskiptir neðar á greinunum. Laufblöðin sitja nokkur saman í búntum á greinunum, gjarnan átta talsins. Þau eru öfuglensulaga til spaðalaga, ávöl í endann eða snöggydd. Laufblöð eru því sem næst stilklaus. Blómin gul, smá, all mörg saman í drjúpandi, allt að 4,5 sm löngum klösum í júní og fram í júlí. Blómsæll. Aldinið smátt laxableikt, hnöttótt ber. Áberandi skærrauðgulir haustlitir. Vorbroddur er sólelskur. Hann virðist vera sæmilega vind- og saltþolinn. Kelur stundum en nær sér fljótt aftur. Þrífst í allri venjulegri garðmold sem ekki er blaut. Vorbroddur 'Kristinn' hentar stakstæður, í raðir og þyrpingar eða í blönduð beð með um 80 - 100 sm millibili. Þolir vel klippingu en sé hann klipptur mikið blómstrar hann minna fyrir vikið. Klæðist skinnhönskum þegar þið meðhöndlið vorbrodd. Yrkið er kennt við Kristinn Guðsteinsson sem bjó ásamt konu sinni við Hrísateig 6, Rvk. Móðurplöntuna hafði hann pantað og fengið senda frá gróðrarstöðinni Keeper's Hill Nursery í Wimborne, Englandi árið 1959. Heimkynni: NV-Kína. Mítursætt (Berberidaceae).

Vorlyng ‘Rosalie – Erica carnea ‘Rosalie’

All harðgerður, sígrænn dvergrunni. Laufblöð smá og nállaga. Græn - bronslit. Hæð: 15 sm. Blómin smá, klukkulaga, bleik snemma á vorin. Sólelskt. Vorlyng gerir ekki sérstakar kröfur til þess að jarðvegur sé súr. Íslensk mómold hentar því vel. Blandið saman við moldina gömlum furunálum. Millibil 30 - 40 sm. Hentar framarlega í beð með sígrænum gróðri sem gerir svipaðar kröfur til jarðvegs eins og barrviðir og lyngrósir. Gjarnan fer vel á því að gróðursetja nokkur vorlyng saman í þyrpingar. Þarf vetrarskýli á skjóllausum svæðum. Þýskt yrki. Náttúruleg heimkynni vorlyngs eru í fjalllendi Suður-, Mið- og A-Evrópu.

Vorsópur ‘Allgold’ – Cytisus x praecox ‘Allgold’

Sæmilega harðgerður skrautrunni. Hæð um 1 m. Greinar sígrænar. Laufblöðin smá, silkihærð í fyrstu en lítt áberandi. Blómin eru dæmigerð ertublóm, ljósgul, ilmandi og þekja gjarnan runnann í júní og fram í júlí. Blómin eru ljósari samanborið við blóm geislasóps (C. purgans). Sólelskur. Niturbindandi. Þrífst best í vel framræstum jarðvegi sem má vera blandaður sandi og möl. Þurrkþolinn. Vorsópur 'Allgold' kelur gjarnan í greinaendana. Klippið kalið í burt á vorin (maí). Best er að klippa sópa með góðum skærum þar sem greinarnar eru svo þunnar. Vorsópur 'Allgold' fer vel í hleðslum, köntum og í blönduðum beðum í sæmulegu skjóli og á móti sól. Millibil: 80 sm. Vorsópur er blendingur Cytisus multiflorus og geislasóps. Vorsópur er ekki eins harðgerður og geislasópur. Ertublómaætt (Fabaceae).

Weymouthfura / Sandfura – Pinus strobus – Nýfundnaland

Stórvaxið tré erlendis. Sígræn. Ljóselsk. Nálar grágrænar, 5 saman í knippi. Vissara er að planta weymouthfuru í nokkru skjóli. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Nýleg í ræktun en lofar nokkuð góðu. Minni á lindifuru (Pinus sibirica) en sprotarnir eru hárlausir á weymoutfuru en þakktir rauðbrúnum hárum á lindifuru. Einnig eru nálarnir styttri samanborið við lindifuru. Könglar stórir og aflangir en hafa ekki þroskast hérlendis enn svo vitað sé. Vex best í sendnum vel framræstum jarðvegi eins og nafnið gefur til kynna. Kennd við skipstjórann George Weymouth úr Konunglega breska hernum sem kom með fræ af furunni til Englands frá Maine árið 1605.  

Ýviður ‘David’ – Taxus baccata ‘David’

Súlulaga smátré, gulleitt barr. Hæð allt að 2 m. Þolir nokkurn skugga. Þarf skjól. Hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri. Hægvaxta. Eitraður sé hans neytt.