Showing 37–48 of 278 results

Broddhlynur rauður /“Purpurahlynur“ – Acer platanoides f. purpurea

Sæmilega harðgert tré. Hæð 5 - 6 m eða meira hérlendis. Hætt við haustkali. Blöðin eru dökkpurpurarauð og þunn. Laufgast í byrjun júní. Haustlitur skærrauður - rauðgulur. Blómgast stundum fyrri part sumars ljósgulum blómum í sveipum. Stundum myndast aldin sem eru vængjaðar hnotir tvær og tvær saman nánast í beinni línu en mynda ekki horn eins og aldin garðahlyns (A. pseudoplatanus). Þarf frjóan, vel framræstan, ekki súran jarðveg. Sólelskur en getur staðið í hálfskugga. Hentar í grónar lóðir þar sem vaxtartími er ekki of stuttur. Millibil alla vega 2 m. Broddhlynirnir okkar eru af fræi og því ekki sérstök yrki.

Degli – Pseudotsuga menziesii

Meðalhátt - hávaxið, sígrænt tré hérlendis. Barrið mjúkt. Minnir á þin (Abies spp.). Brum deglis eru lang- og hvassydd en sljóydd eða alveg rúnuð á þin. Krónan er venjulega keilulaga. Stundum afmynduð sökum kals. Barrið grænt - gulgrænt. Könglar meðalstórir með mjög áberandi langri hreisturblöðku. Degli þarf nokkuð skjól til að þrífast. Þolir hálfskugga. Þarf þokkalega frjóan, rakaheldinn jarðveg. All hraðvaxið á góðum stöðum.  Degli hentar stakstætt eða í þyrpingar með alla vega 3 m millibili. Einnig til skógræktar í skjóli af öðrum trjám. Degli hefur einnig gengið undir nöfnunum "döglingsviður" og "douglasgreni". Í timburiðnaði nefnist degli "Oregon pine". Fremur sjaldgæft hérlendis. Hefur þroskað spírunarhæft fræ hérlendis.

Demantsvíðir ‘Flesja’ – S. pulchra ‘Flesja’

Harðgerður, alveg jarðlægur runni. Litlir gráloðnir reklar birtast jafnvel á miðjum vetri. Laufið ljósgrænt, heilrennt og gljáandi. Axlarblöð áberandi. Gulir haustlitir í september - október. Visin lauf sitja gjarnan á greinunum fram á vetur. Hentar í hleðslur, kanta, ker o.þ.h. Sólelskur. Hentar því ekki sem undirgróður. Nægjusamur hvað varðar jarðveg. Úrvalsyrki úr Alaskaferð Óla Vals og félaga 1985. Heimkynni tegundarinnar eru auk Alaska í Kanada og Rússlandi.

Demantsvíðir ‘Kodiak’ – Salix pulchra ‘Kodiak’

All harðgerður, þéttur runni. Hæð um 1,5 m. Greinar og sprotar áberandi rauðbrúnar. Laufin eru sporöskjulaga - lensulaga, hárlaus, ydd og gljáandi á efra borði. Blágræn á því neðra. Stöku lauf sitja á runnanum allan veturinn. Það á sama á við um axlarblöðin sem eru mjó og nokkrir millimetrar á lengd. Silfur-loðnir reklar birtast seinni part vetrar (feb/mars). Sólelskur. Demantsvíðir þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Hentar í runnaþyrpingar einn og sér eða í bland með öðrum tegundum. Hentar sjálfsagt í lægri limgerði. Millibil 50 - 100 sm. Yrkinu 'Kodiak' var safnað á Kodiakeyju við Alaska í leiðangri Ólafar S. Njálssonar, Nátthaga og Pers í Mörk árið 1994. Heimkynni demantsvíðis eru auk Alaska, NV-Kanada og NA-Rússland. Víðisætt (Salicaceae).

Döglingskvistur – Spiraea douglasii

Harðgerður, þéttur runni. Hæð rúmlega 1 m. Blómin fjólubleik í uppréttum klösum síðsumars (ágúst - september). Virðast loðin þar sem fræflarnir standa út fyrir blómskipunina. Greinar uppréttar, rauðbrúnar. Visnar blómskipanir standa fram á vetur. Döglingskvistur hefur talsvert skriðullt rótarkerfi. Laus við meindýr og sjúkdóma. Þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa döglingskvist niður í svona 50 - 60 sm seinni part vetrar. Það hefur ekki áhrif á blómgun þar sem döglingskvistur blómgast á árssprotann. Þrífst í allri venjulegri rakaheldinni garðmold. Döglingskvist er gjarnan plantað í raðir / limgerði. Einnig í ker og þess háttar þar sem hann getur alveg fyllt út í rýmið. Hentar síður með öðrum gróðri nema tegundum sem eru sjálfar duglegar í samkeppni. Tilvalinn í villigarða þar sem hann má breiðast út. Líklegt er að stór hluti af því sem í daglegu tali kallast "döglingskvistur" sé í raun úlfakvistur (S. x billardii). Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Úlfakvistur er blendingur döglings- og víðikvists (S. salicifolia). Víðikvistur er frá Evrasíu.

Döglingsþyrnir – Crataegus douglasii

Lítið tré eða runni (2-6 m). Þéttur. All harðgerður. Fremur hægvaxta. Laufið tvísagtennt, gljáandi. Rauðir haustlitir. Greinar þyrnóttar. Blómin hvít í sveip. Aldinið svart, ætt ber (kjarnaldin). Sólelskur en þolir hálfskugga. Döglingsþyrnir hentar sem stakstætt lítið tré, í þyrpingar með 2 m millibili eða í bland með öðrum runnum og jurtum. Hentar í klippt eða óklippt limgerði með um 0,7 - 1 m millibili. Hentar einnig í yndisskóga. Framleiðum eingöngu döglingsþyrni af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka, allt norður til Alaska.

Dröfnulyngrós ‘Grandiflorum’ – Rhododendron catawbiense ‘Grandiflorum’

Lágvaxinn - meðalstór runni (1,5 m). Laufið all stórt, sígrænt. Blómin trektlaga, fjólubleik með rauðbrúnum dröfnum í krönsum í júní. Þarf nokkurt skjól. Þolir hálfskugga. Þrífst best í grónum görðum og skógarskjóli. Gróðursetjið í blöndu af mómold, furunálum og veðruðu hrossataði. Ein algengasta lyngrósin hérlendis.

Dröfnulyngrós ‘Roseum Elegans’ – Rhododendron catawbiense ‘Roseum Elegans’

Sígrænn runni. Hæð um 1,5 m. Þarf skjól. Þolir vel hálfskugga. Þrífst best í mómold sem blönduð er gömlu hrossataði

Dúnheggur – Prunus maximowiczii

All harðgert, fremur lágvaxið tré eða runni (5 - 7 m). Blómin hvít, nokkur saman snemmsumars (júní). Aldinið lítið rautt - svart ætt, ber (steinaldin). Rauðir - gulir haustlitir. Takmörkuð reynsla enda sárasjaldgæfur hérlendis. Hentar stakstæður eða í þyrpingar með um 3 m millibili. Þolir hálfskugga. Heimkynni dúnheggs eru í NA-Asíu (Kína, Kórea, Rússland og Japan). Vex þar til fjalla í leirkenndum jarðvegi. Plönturnar okkar eru vaxnar upp af fræi sem safnað var hérlendis.

Dúntoppur – Lonicera xylosteum

Harðgerður, þéttur, meðalhár - hávaxinn runni (1,5 - 3,0 m). Blómin smá, fölgul, tvö og tvö saman. Rauð, óæt, samvaxin ber þroskast á haustin. Laufið dúnhært. Gulir haustlitir. Skuggþolinn. Heilbrigður. Dúntoppur hentar sérlega vel sem undirgróður undir stærri trjám. Einnig tilvalinn í skuggsæl horn. Þolir vel klippingu og hentar því í limgerði. Millibil 50 - 100 sm. Sæmilega vind- og saltþolinn. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Berin eru eitruð en ekki hættuleg. Heimkynni: Víða í Evrópu, N-Tyrkland og V-Síbería.

Einir – Juniperus communis – Undirhlíðar-Hfj

Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (30 - 120 sm). Ýmist jarðlægur eða hálfuppréttur. Sérbýll. Kvenplöntur þroska einiber á tveimur árum. Þau má nýta í matargerð. Sólelskur. Hægvaxta. Einir hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Einnig í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum. Jarðlæg yrki nokkuð þekjandi. Vex villtur víða um land.

Einir ‘Holger’ – Juniperus ‘Holger’

All harðgerður, sígrænn, lágvaxinn, hægvaxta, þekjandi runni (50 sm á hæð). Barrið á nýjum sprotum ljósgult síðan gráblátt. Sólelskur. Hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Ekki eins harðgerður og himalajaeinir 'Meyeri'. Yrkið 'Holger' mun vera blendingur garðaeinis (J. media 'Pfitzeriana Aurea') og himalajaeinis (J. squamata 'Meyeri'). Úr smiðju Holger Jensen, Svíþjóð frá árinu 1946.