Showing 13–24 of 75 results

Bolvíðir – Salix udensis – Ivashka, Kamsjatka

Harðgert, hraðvaxta tré / runni. Laufið er mjólensulaga. Gulir haustlitir. Virðist stöðugri og beinvaxnari en flestur annar víðir að selju (Salix caprea) undanskilinni. Sólelskur. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Um er að ræða klón frá Ivashka, Kamtsjatka, Rússlandi sem safnað var í Kamtsjatka-leiðangri Óla Vals Hanssonar og Brynjólfs Jónssonar árið 1993. Bolvíðir hentar sem stakstætt tré en einnig í raðir og þyrpingar með um 2 m millibili hið minnsta. Sjaldgæfur hérlendis. Kvenkyns klón.

Broddhlynur – Acer platanoides

Sæmilega harðgert, meðalhátt - hávaxið tré. Blöðin stór, þunn, með löngum blaðstilk, gagnstæð, handsepótt. Skuggþolinn en skjólþurfi. Hentar eingöngu til ræktunar í grónum hverfum eða í skógarskjóli. Sómir sér best stakstæður. Gulir - rauður haustlitir. Verður gjarnan fyrir haustkali. Ekki eins harðgerður og garðahlynur (Acer pseudoplatanus). Blómin eru smá, gulleit í klösum. Blómstar fyrir laufgun. Horn á milli hnotvængja um 180 gráður. Bjóðum einnig upp broddhlyn með purpuralitum/bronslituðum laufum (sjá myndir).

Broddhlynur rauður /“Purpurahlynur“ – Acer platanoides f. purpurea

Sæmilega harðgert tré. Hæð 5 - 6 m eða meira hérlendis. Hætt við haustkali. Blöðin eru dökkpurpurarauð og þunn. Laufgast í byrjun júní. Haustlitur skærrauður - rauðgulur. Blómgast stundum fyrri part sumars ljósgulum blómum í sveipum. Stundum myndast aldin sem eru vængjaðar hnotir tvær og tvær saman nánast í beinni línu en mynda ekki horn eins og aldin garðahlyns (A. pseudoplatanus). Þarf frjóan, vel framræstan, ekki súran jarðveg. Sólelskur en getur staðið í hálfskugga. Hentar í grónar lóðir þar sem vaxtartími er ekki of stuttur. Millibil alla vega 2 m. Broddhlynirnir okkar eru af fræi og því ekki sérstök yrki.

Degli – Pseudotsuga menziesii

Meðalhátt - hávaxið, sígrænt tré hérlendis. Barrið mjúkt. Minnir á þin (Abies spp.). Brum deglis eru lang- og hvassydd en sljóydd eða alveg rúnuð á þin. Krónan er venjulega keilulaga. Stundum afmynduð sökum kals. Barrið grænt - gulgrænt. Könglar meðalstórir með mjög áberandi langri hreisturblöðku. Degli þarf nokkuð skjól til að þrífast. Þolir hálfskugga. Þarf þokkalega frjóan, rakaheldinn jarðveg. All hraðvaxið á góðum stöðum.  Degli hentar stakstætt eða í þyrpingar með alla vega 3 m millibili. Einnig til skógræktar í skjóli af öðrum trjám. Degli hefur einnig gengið undir nöfnunum "döglingsviður" og "douglasgreni". Í timburiðnaði nefnist degli "Oregon pine". Fremur sjaldgæft hérlendis. Hefur þroskað spírunarhæft fræ hérlendis.

Döglingsþyrnir – Crataegus douglasii

Lítið tré eða runni (2-6 m). Þéttur. All harðgerður. Fremur hægvaxta. Laufið tvísagtennt, gljáandi. Rauðir haustlitir. Greinar þyrnóttar. Blómin hvít í sveip. Aldinið svart, ætt ber (kjarnaldin). Sólelskur en þolir hálfskugga. Döglingsþyrnir hentar sem stakstætt lítið tré, í þyrpingar með 2 m millibili eða í bland með öðrum runnum og jurtum. Hentar í klippt eða óklippt limgerði með um 0,7 - 1 m millibili. Hentar einnig í yndisskóga. Framleiðum eingöngu döglingsþyrni af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka, allt norður til Alaska.

Dúnheggur – Prunus maximowiczii

All harðgert, fremur lágvaxið tré eða runni (5 - 7 m). Blómin hvít, nokkur saman snemmsumars (júní). Aldinið lítið rautt - svart ætt, ber (steinaldin). Rauðir - gulir haustlitir. Takmörkuð reynsla enda sárasjaldgæfur hérlendis. Hentar stakstæður eða í þyrpingar með um 3 m millibili. Þolir hálfskugga. Heimkynni dúnheggs eru í NA-Asíu (Kína, Kórea, Rússland og Japan). Vex þar til fjalla í leirkenndum jarðvegi. Plönturnar okkar eru vaxnar upp af fræi sem safnað var hérlendis.

Evrópulerki – Larix decidua

Alla jafna harðgert, einstofna barrtré. Barrfellir. Gulir haustlitir í október. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelskt. Getur orðið fyrir haustkali og þess vegna orðið kræklótt. Varpar ekki miklum skugga. Reynist almennt betur í lágsveitum sunnan- og vestanlands samanborið við síberíulerki/rússalerki (L. sibirica). Evrópulerki hentar sem stakstætt tré eða í raðir/þyrpingar með 3-4 m millibili. Hentar einnig til skógræktar.

Fjallagullregn – Laburnum alpinum

Harðgert lágvaxið - meðalhátt tré (6 - 12 m). Þrífingrað lauf. Gulir haustlitir. Langir, gulir, ilmandi, drjúpandi blómklasar. "Baunabelgir" þroskast á haustin. Hver með nokkrum, dökkbrúnum fræum sem eru eitraðasti hluti trésins. Gjarnan margstofna og krónan breið. Sólelskt en þolir hálfskugga. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur. Klippið og snyrtið gullregn á sumrin til að minnka líkur á átu. Með allra glæsilegustu trjám sem völ er á. Sáir sér gjarnan eitthvað út en ekki til ama. Eitrað sé þess neytt.

Fjallareynir – Sorbus commixta

Harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré (3 - 6 m). Laufin stakfjöðruð. Smáblöðin 11 - 17 talsins, hvassydd. Áberandi eldrauðir haustlitir. Brum rauð og hárlaus. Hvítir blómsveipir fyrri part sumars. Rauðgul, fremur smá reyniber í klösum þroskast að hausti. Fjallareynir er glæsilegur stakur eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Kjörinn í sumarhúsalóðir. Fjallareynir er talsvert breytilegur enda fjölgar hann sér með kynæxlun og getur t.d. myndað kynblendinga með ilmreyni (S. aucuparia). Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst einnig vel í lúpínubreiðum. Allur fjallareynirinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Japan, Kína, Kórea og Sakalín.

Fjallaþinur – Abies lasiocarpa

Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga. Heimkynni: Fjalllendi í vestanverðri N-Ameríku.

Garðagullregn – Laburnum x watereri ‘Vossii’

All harðgert, lágvaxið tré (3 – 7 m). Blöð þrífingruð. Blóm gul í löngum klösum í júní og fram í

Garðahlynur – Acer pseudoplatanus

Harðgert, meðalhátt - hávaxið tré. Á erfiðum stöðum lægri. Krónumikill. Blöðin fremur stór, handsepótt, með löngum, rauðum blaðstilk. Laufgast í lok maí eða júníbyrjun. Gulir - brúnir haustlitir í október. Gulgræn blóm í klösum birtast í júní. Aldinin vængjuð, tvö og tvö saman. Mynda 90 gráðu horn eða minna. Varpar fremur miklum skugga yfir sumarið. Þarf frjóan jarðveg. Plássfrekur með tímanum. Engin rótarskot. Þokkalega vind- og saltþolinn. Nær þó ekki að vaxa eðlilega upp á mjög vindasömum stöðum. Hætt við haustkali sérstaklega inn til landsins. Forðist að gróðursetja of litlar plöntur og að gróðursetja í frostpolla. Garðahlynur er fyrst og fremst notaður stakstæður í stórum görðum. Einnig gróðursettur í lundi á skógræktarsvæðum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti hlynurinn hérlendis. Gott timburtré. Blómin eru rík af frjói og blómasafa og því eftirsótt af hunangsflugum. Okkar garðahlynur er allur ræktaður upp af íslensku fræi. Þarf frjóan og vel framræstan jarðveg. Setjið vel af lífrænu efni (búfjáráburður/molta) við gróðursetningu. Þarf gjarnan stuðning til að byrja með. Sáir sér stundum út í görðum. Heimkynni: Mið-Evrópa og V-Asía. Ílendur í V-Evrópu, norður eftir Noregi, víða í N-Ameríku og á fleiri stöðum. Sápuberjaætt (Sapindaceae).