Showing 25–36 of 75 results

Glæsiþinur – Abies fraseri

Sígrænt, keilulaga barrtré, frekar lágvaxið tré (5-8 m). Óvíst er þó hversu hátt það verður hérlendis í framtíðinni. Nálar mjúkar, fagurgrænar að ofan en ljósar að neðan. Könglar uppréttir. Ilmar. Þarf nokkurt skjól í uppvextinum. Nokkuð skuggþolinn. Vinsælt jólatré í N-Ameríku. Nýlegur í ræktun hérlendis en lofar góðu. Hentar í skjólgóða garða og inn í skóga/undir skermi. Ættaður frá Appalasíufjöllum í SA-Bandaríkjunum.

Gljáhlynur – Acer glabrum var. douglasii

Fremur harðgert lágvaxið tré eða stór runni (3 - 6 m). Blöðin sepótt eða jafnvel fingruð. Gulir - rauðgulir haustlitir. Sprotar áberandi rauðir. Þolir hálfskugga. Gljáhlynur sómir sér vel stakstæður, í bland með öðrum trjágróðri eða blómgróðri. Gljáhlynur er með harðgerðustu hlyntegundum (Acer spp.) sem völ er á. Sprotarnir vilja þó trosna í vetrarstormum. Miklu fínlegri og nettari samanborði við garðahlyn (A. pseudoplatanus) en garðahlynur er algengasti hlynurinn hérlendis. Gljáhlynurinn okkar er allur vaxinn upp af íslensku fræi.

Gljákastanía – Aesculus glabra

Viðkvæmt tré. Reynsla af ræktun gljákastaníu hérlendis er lítil sem engin. Laufblöðin eru fingruð. Heimkynni austanverð Bandaríkin.

Gráelri / Gráölur – Alnus incana

Harðgert, hraðvaxta, sumargrænt, venjulega einstofna tré. Hæð 7 - 15 m. Getur sjálfsagt orðið enn hærra á góðum stöðum hérlendis. Stundum runni við erfiðar aðstæður. Börkur grár og sléttur. Brum stilkuð. Laufið egglaga, mattgrænt og tennt. Nýtt lauf á vorin og fyrri part sumars gjarnan rauðbrúnleitt. Haustlitir ekki áberandi en laufið verður gjarnan brúnleitt áður en það fellur. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur sem gera elrinu kleift að lifa og vaxa í ófrjóum jarðvegi. Þolir að vaxa í deiglendi. Sólelskt. Vindþolið en ekki talið sérlega saltþolið. Karlreklar birtast strax á haustin og vaxa fram síðvetrar eða snemma vors. Drjúpandi, 5 - 7 sm, gulbrúnir. Kvenreklar eru fullþroska að hausti. Líkjast litlum könglum. Dökkbrúnir. Stundum ber talsvert á rótarskotum hjá gráelri. Hentar stakstætt, í raðir, þyrpingar og til skógræktar og uppgræðslu. Einnig stundum gróðursett sem götutré hérlendis. Millibil að minnsta kosti 3 m. Gráelrið okkar er mest megnis ættað frá Hallormsstað og Egilsstöðum. Heimkynni gráelris (A. incana subsp. incana) er Evrópa og NV-Asía. Elrivendill (Taphrina alni) er gjarnan áberandi á kvenreklum gráelris. Bjarkarætt (Betulaceae).

Gráösp ‘Venus’ – Populus x canescens ‘Venus’

Meðalhátt tré. Krónan gjarnan breið. Börkur á eldri trjám hrjúfur og sprunginn. Laufið gljáandi að ofanverðu en hvítloðið að neðanverðu. Laufgast fremur seint en stendur græn fram í október. Hætt við haustkali og að losna í hauststormum. Aðeins ræktanleg á hlýjum svæðum með langan vaxtartíma. Sjaldgæf hérlendis en stór og gömul eintök finnast á Akureyri, í Hafnarfirði og Reykjavík. Þarf frjóan jarðveg. Stundum ber eitthvað á rótarskotum. Tréin okkar eru klón af trénu sem stendur við "Venusarhúsið", Austurgötu, Hfj. sem útnefnt var tré ársins árið 2006.

Gráreynir – Sorbus hybrida

Harðgert meðalstórt tré (5-12m). Stundum runni. Laufin með minnst tveimur smáblaða-pörum neðst. Hvítgráloðin á neðra borði. Blómin hvít í sveip í júní. Berin rauð í klösum í október. All vind- og saltþolinn. Ekki viðkvæmur fyrir reyniátu (Cytospora rubescens). Þrífst vel í venjulegri, vel framræstri garðmold. Gráreynir hentar sem stakstætt tré, í raðir/þyrpingar, í sumarhúsalóðir og jafnvel sem götutré. Millibil um 3-4 m. Gráreynirinn okkar er allur af íslensku fræi sem við tínum af fallegum móðurtrjám. Þar sem gráreynir er "apomictic" eru fræplönturnar með sama erfðamengi og móðurtréið.

Heggur – Prunus padus

Harðgert, lágvaxið - meðalhátt tré (5 - 10 m). Ein- eða margstofna. Stundum runni. Blómin hvít, ilmandi í klösum í maí - júní. Stundum þroskast svört ber (steinaldin)í gisnum klösum að hausti. Gulir - rauðgulir haustlitir. Heggur þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Heggur sómir sér vel stakur eða fleiri saman í þyrpingum og röðum. Tilvalinn í sumarhúsalandið. Þolir vel hálfskugga. Lágmarks-millibil: 2 m. Þolir vel klippingu en blómgast þá minna. Heggurinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Norður og M-Evrópu, Norður og NA-Asía.

Heggur ‘Laila’ – Prunus padus ssp. borealis ‘Laila’

Harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð 5 - 8 m. Blómin hvít, ilmandi í uppréttum klösum fyrri part sumars. Stundum sjást svört steinaldin/ber á haustin. Gulir haustlitir. Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Heggur 'Laila' hentar stakstæður, í trjá- og runnaþyrpingar og í sumarhúsalóðina. Millibil: 2 - 3 m. 'Laila' er sænskt, blómsælt úrvalsyrki ættað frá Kukkola við Torne-ánna í N-Svíþjóð.

Hengibaunatré ‘Pendula’ – Caragana arborescens ‘Pendula’

Harðgert, ágrætt, sumargrænt, einstofna smátré. Hæð: 1,5 - 2,0 m yfirleitt en það fer eftir hæð ágræðslunnar. Laufið fínlegt, fjaðrað. Nánast hvítt þegar það springur út á vorin, síðar ljósgrænt. Gul baunablóm birtast miðsumars. Baunabelgir þroskast að hausti. Sólelskt. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur. Gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hentar stakstætt, innan um lægri gróður, framan við hús og í ker/potta. Hengibaunatré er ágrætt efst á stofn af venjulegu baunatré sem vaxið er upp af fræi. Fjarlægið því rótarskot, stofnskot og sprota upp eftir stofninum að ágræðslunni um leið og þeir myndast annars munu þeir yfirtaka hangandi hlutann.

Hengibjörk / Vörtubirki – Betula pendula

All stórvaxið, sumargrænt tré. Sprotar vörtóttir og hárlausir. Laufblöðin nær tígullaga, tvísagtennt. Enginn sérstakur ilmur er af brumum né laufum eins og hjá ilmbjörk (B. pubescens) Smágreinar yfirleitt meira og minna slútandi. Börkur á eldri trjám áberandi hvítur með svörtum skellum við greinafestingar. Sólelsk. Þrífst best í sæmilega frjóum, vel framræstum, steinefna-ríkum jarðvegi. Hengibjörk hefur talsvert mikið verið reynd hérlendis enda með fegurstu trjám sem völ er á. Þrífst almennt illa. Kelur yfirleitt mikið og drepst að því er virðist upp úr þurru. Aftur á móti þrífst hengibjörk víða vel inn til landsins sérstaklega austur á Héraði og inn í Eyjafirði. Eigum til eitthvað af hengibjörk af finnskum uppruna. Heimkynni hengibjarkar eru í Evrópu og austur eftir Asíu. Þó ekki nyrst og syðst. Bjarkarætt (Betulaceae).

Hengigullregn ‘Pendula’ – Laburnum alpinum ‘Pendula’

Ágrætt, lágvaxið skrautré. Hæð um 2 m. Gulir blómklasar miðsumars. Greinum fjölgar með tímanum sem allar vaxa niður á við og niður á jörð. Gjarnan eru greinar snyrtar þegar þær eru komnar niður að jörð. Klippið einungis að sumri til. Ef greinar vaxa upp eða út frá stofni neðan við ágræðsluna sem er efst þarf að klippa þær í burt annars er hætt við að þær taki yfir og hengiútlitið hverfi. Sólelskt. Gerir litlar kröfur til jarðvegs en hentar ekki í blautan jarðveg. Niturbindandi. Hengigullregn fer vel stakstætt, innan um lægri gróður, framan við hús og í ker.

Hjartatré – Cercidiphyllum japonicum

Fremur lítið tré hérlendis (3 - 6 m). Stundum runni. Þarf skjólgóðan og sólríkan stað til að þrífast. Þrífst í venjulegri garðmold. Laufið hjartalaga og rauðleitt fyrst á vorin og á vaxandi sprotum. Haustlitir bleikir. Karamelluilm leggur af laufinu á haustin. Blóm ekki áberandi og sjást sjaldan hérlendis. Sérbýlt. Þolir hálfskugga. Heppilegt og fallegt garðtré í skjólgóðum hverfum. Hætt við haustkali. Heimkynni: Kína og Japan.