Showing 37–48 of 76 results

Hjartatré – Cercidiphyllum japonicum

Fremur lítið tré hérlendis (3 - 6 m). Stundum runni. Þarf skjólgóðan og sólríkan stað til að þrífast. Þrífst í venjulegri garðmold. Laufið hjartalaga og rauðleitt fyrst á vorin og á vaxandi sprotum. Haustlitir bleikir. Karamelluilm leggur af laufinu á haustin. Blóm ekki áberandi og sjást sjaldan hérlendis. Sérbýlt. Þolir hálfskugga. Heppilegt og fallegt garðtré í skjólgóðum hverfum. Hætt við haustkali. Heimkynni: Kína og Japan.

Hrossakastanía – Aesculus hippocastanum

Fremur viðkvæmt tré. Laufblöðin eru sérlega stór, samsett. Brum stór. Blómin eru hvít í uppréttum klösum. Aldinið þyrnótt kúla með stórri "hnetu" innan í. Hrossakastanía er tiltölulega sjaldgæf hérlendis. Í Reykjavík er til yfir 10 m hátt eintak. Hrossakastanía hefur blómstrað hérlendis en ekki þroskað aldin svo vitað sé. Hrossakastanía þrífs eingöngu á hlýjum og skjólgóðum stöðum í djúpum og frjóum jarðvegi. Ættuð úr fjalllendi á Balkanskaga en algeng í ræktun í Evrópu og víðar.

Hvítgreni – Picea glauca – Nýfundnaland

All hávaxið, sígrænt, keilulaga tré. Barrið grágrænt - blágrænt. Fínlegra og ekki eins stingandi samanborið við sitkageni (Picea sitchensis). Hægvaxnara og mjóslegnara samanborið við sitkagreni. Hentar frekar inn til landsins en við sjávarsíðuna. Lyktar. Hvítgreni og sitkagreni mynda gjarnan kynblendinga sem kallast sitkabastarður eða hvítsitkagreni (Picea x lutzii). Blendingur þessi er algengur hérlendis. Hvítgrenið okkar er af fræi frá Nýfundnalandi.

Kákasusþinur / Nordmannsþinur – Abies nordmanniana

All hávaxið, sígrænt, hægvaxta, breið-keilulaga tré. Barrið fremur mjúkt viðkomu, dökkgrænt og gljáandi á efra borði. Áberandi ljóst á neðra borði. Könglar meðalstórir og sitja uppréttir á greinunum. Sjást sjaldan hérlendis. Nordmannsþinur er skjólþurfi en skuggþolinn. Hentar aðeins í skógarskjól og í grónum görðum. Viðkvæmur fyrir haustkali. Nordmannsþinur er vinsælt jólatré hér og erlendis. Öll nordmannsþin-jólatré sem seld eru hérlendis eru innflutt frá Danmörku en Danir framleiða yfir 10.000.000 nordmanns-jólatrjáa á ári hverju. Nordmannsþinur er kenndur við finnska líffræðinginn Alexander von Nordmann (1803 - 1866). Heimkynni nordmannsþins eru fjalllendi suður og austur af Svartahafi í Georgíu, Tyrklandi og Rússlandi í 900 - 2.200 m.h.y.s. þar sem ársúrkoman er meiri en 1000 mm.

Kínareynir ‘Bjartur’ – Sorbus vilmorinii ‘Bjartur’

Lítið tré eða stór runni (3 - 5 m). Virðist harðgerður. Vaxinn upp af fræi sem Ólafur Njálsson í Nátthaga, Ölfusi safnaði af reynirunna í N-Wales haustið 1989. 'Bjartur' var valinn til áframhaldandi ræktunar af þeim 5 plöntum sem komu upp. Virðist fræekta (apomixis). Hvítir blómsveipir birtast snemmsumars. Bleik ber þroskast á haustin. Rauðir haustlitir. Berin hanga á trjánum fram á vetur þar sem fuglar eru ekki sólgnir í þau. Þolir hálfskugga. Óvíst er hvort að um ekta kínareyni sé að ræða. 'Bjartur' hentar sem garðtré í t.d. litla garða. Þrífst í venjulegri, vel framræstri garðmold sem gjarnan má vera sand- og/eða malarborin.

Lensuvíðir ‘Ljómi’ – Salix lasiandra ‘Ljómi’

All harðgerður stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 6 m). Árssprotar rauðbrúnir og gljáandi. Laufið lensulaga - egglaga, bogtennt og langydd. Meira og minna hárlaus. áberandi glansandi. Gulir haustlitir. Reklarnir birtast á sama tíma og laufgun á sér stað í maí. Þeir eru smáir og ekki sérstaklega áberandi. Minnir í útliti nokkuð á bambus. Lensuvíðir þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Í meðallagi hraðvaxta. sólelskur. Hentar stakstæður, í raðir, þyrpingar, í bland með öðrum gróðri og í klippt limgerði. Fremur hraðvaxta. Getur orðið fyrir kali við erfiðar aðstæður. Stundum ber aðeins á skemmdum af völdum asparglyttu en þær eru yfirleitt ekki miklar. Annars heilbrigður. Karlkyns yrki valið úr efnivið úr Alaska-leiðangi Óla Vals Hanssonar og félaga árið 1985. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Víðisætt (Salicaceae).

Lindifura – Pinus sibirica – Mörkin, Hallormsstað

Harðgert, sígrænt, hægvaxta, meðalstórt - stórvaxið tré. Hefur náð um 15 m hæð hérlendis á 80 árum. Nálar 5 saman í knippi, grágrænar, mjúkar. Sprotar þétt hærðir af mjúkum rauðgulum hárum. Stórir könglar sem eru í fyrstu dökk-fjólubláir. Sólelsk en þolir hálfskugga. Þarf nokkurt skjól. Þroskar stóra köngla með ætum fræjum þegar hún hefur aldur til. Lindifura þrífst best inn til landsins og inn til dala en síður nálægt ströndinni. Þrífst best í sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Virðist annars ekki gera sérstakar kröfur til jarðvegs. Finnst aðallega hérlendis í skógarreitum og trjálundum. Eftirsótt sem jólatré og jólagreinar en framboð er takmarkað enn sem komið er. Lindifura er fallegust stakstæð eða nokkrar saman með að minnsta kosti 3 m millibili. Ungar plöntur má setja mun þéttar t.d. saman með öðrum sígrænum gróðri í blönduð beð og færa svo seinna meir eða brjóta brumin í júní og rækta áfram sem runna eða smátré. Lindifuran okkar er öll vaxin upp af fræi af gömlu lindifurunum í Mörkinni á Hallormsstað. Sáir sér þar út af sjálfsdáðum. Líkist mjög sembrafuru (Pinus cembra) sem vex í Ölpunum og Karpatafjöllum. Heimkynni lindifura eru í Síberíu og Mongólíu.

Marþöll – Tsuga heterophylla – Íslensk kvæmi

All harðgert, þokkafullt, meðalstórt, sígrænt tré. Barrið smágert, frekar mjúkt, grænt að ofanverðu en ljósara að neðan. Könglar mjög smáir. Toppur og greinaendar gjarnan drjúpandi. Skuggþolin en þarf nokkurt skjól í uppvextinum. All plássfrek með tímanum en þolir ágætlega klippingu. Hentar til ræktunar í grónum görðum t.d. undir stærri trjám. Einnig til gróðursetningar undir skerm í skóglendi. Hægvaxta framan af en getur vaxið all hratt seinna meir á ævinni. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka.

Næfurheggur – Prunus maackii – Mustila, Finnlandi

Þokkalega harðgert, lágvaxið - meðalhátt tré (allt að 10 m). Aðallega rækað vegna barkarlitarins sem er fallega gulbrúnn. Blómin hvít í klösum. Aldinið svart ber. Gulir haustlitir. Þolir hálfskugga. Fer vel stakstæður eða fleiri saman. Lágmarks-millibil um 3 m.

Rauðeik – Quercus rubra

Viðkvæmt tré hérlendis. Sérlega blaðfalleg. Gulir - rauðir haustlitir. Rauðeik er aðeins hægt að rækta í skjóli og þar sem sólar nýtur í frjóum jarðvegi. Sumareik (Quercus robur) er harðgerðari.

Rauðelri / Svartelri – Alnus glutinosa

All harðgert, einstofna eða margstofna meðalhátt tré. Hæð 6 - 10 m. Stundum runni. Laufið innydd. Frýs yfirleitt grænt á haustin. Hangandi karlreklar birtast fyrir laufgun á vorin. Kvenreklar þroskast að hausti. Minna á litla köngla. Sóelskt. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur. Getur lifað í fremur rýrum og blautum jarðvegi. Nær þó bestum þroska í frjóum, rökum jarðvegi. Einnig nefnt rauðölur eða svartölur. Hitakærari samanborið við gráelri (Alnus incana). Getur verið fyrirtaks stakstætt garðtré. Skurðflöturinn verður fljótlega rauður sé rauðelrið höggvið niður.

Rauðgreni – Picea abies

Sígrænt, frekar hægvaxta, með tímanum hávaxið tré. Krónan frekar mjóslegin samanborið við sitkagreni (P. sitchensis). Smágreinar gjarnan drjúpandi. Nálar fremur stuttar og ekki eins stingandi og á sitkagreni. Nálar eru ferhyrndar í þversniðinu og fagurgrænar - gulgrænar á öllum hliðum. Skuggþolið. Þarf nokkuð gott skjól. Könglar aflangir, all stórir. Rauðir í fyrstu. Myndar yfirleitt ekki köngla fyrr en eftir nokkra áratugi. Þarf sæmilega frjóan jarðveg. Vex mjög lítið og verður gult á litin í ófrjóu landi. Rauðgreni sómir sér vel stakstætt en einnig í þyrpingum fleiri saman. Þolir klippingu. Bil þarf að lágmarki að vera 3 m þegar fram í sækir. Má þó gróðursetja þéttar í upphafi og í görðum. Ekki algengt í görðum en víða í eldri skógræktar-reitum um land allt. Rauðgrenið sem við framleiðum er aðallega af fræi sem safnað hefur verið hérlendis þ.e.a.s. af íslenskum kvæmum. Rauðgreni er nýtt til timbur- og pappírsframleiðslu víða í heiminum. Prýðis jólatré. Heimkynni: Norður-, Mið- og A-Evrópa. Þallarætt (Pinaceae).