Showing 61–72 of 75 results

Silfurreynir – Sorbus intermedia

Harðgert, meðalhátt, krónumikið tré. Hæð: 10 - 14 m á bestu stöðum. Laufið gljáandi að ofan, gráloðið að neðanverðu. Laufgast í júníbyrjun. Blómgast seinna á sumrin samanborið við ilmreyni (S. aucuparia). Blómin hvít - kremuð í sveip í júní. Rauðbrún ber þroskast að hausti. Berin eru þó yfirleitt ekki í miklu magni og sum árin alls ekki.  All vind- og saltþolinn. Silfurreynir er glæsilegur sem stakstætt tré eða fleiri saman í röðum og þyrpingum með alla vega 3 - 4 m millibili. Hann þarf frjóan og framræstan jarðveg til að ná góðum þroska. Silfurreynir er nokkuð algengur í gömlum görðum í Reykjavík (Kvosinni og víðar) og Hafnarfirði. Alpareynir (S. mougeotii) og týrólareynir (Sorbus austriaca) sem líkjast mjög silfurreyni eru algengari en silfurreynir í görðum frá u.þ.b. árinu 1980 og þaðan af yngri. Hæringin á neðra borði blaða silfurreynis er ekki eins hvít/silfruð samanborið við alpa- og týrólareyni. Silfurreynir er að því er virðist ónæmur fyrir reyniátu (Valsaria insitiva) sem er mikið vandamál í ilmreyni. Silfurreynir verður því eldra tré samanborið við ilmreyni. Við framleiðum silfurreyni af innlendu fræi en silfurreynir er ásamt mörgum öðrum reynitegundum geldæxlandi (apomixis) það er að segja fræekta þar sem fræið myndast ekki að undangenginni kynæxlun. Elsta tré Reykjavíkur og líklega elsta tré landsins er silfurreynir í Fógetagarðinum við Miðbæjarmarkaðinn, Aðalstræti, Rvk. Hann er gróðursettur af Schierbeck landlækni seint á 19. öld (1884).  Silfurreynir er talinn tilkominn sem bastarður ilmreynis, flipareynis (S. torminalis) og  seljureynis (S. aria). Heimkynni: S-Svíþjóð, Borgundarhólmur, SV-Finnland, Eistland, Lettland og N-Pólland.

Sitkagreni – Picea sitchensis

Mjög harðgert, stórvaxið, langlíft, sígrænt barrtré. Hraðvaxta. Vind- og saltþolið. Þolir vel klippingu. Þrífst best í brekkum þar sem er að finna ferskan jarðraka og jarðvegur er nokkuð frjór. Nálar dökkgrænar að ofanverðu en ljós-bláleitar að neðanverðu. Mjög stingandi. Könglar í fyrstu rauðleitir, seinna ljósbrúnir, pappírskenndir og meðalstórir. Þroskar köngla á nokkurra ára fresti eftir að 30 - 40 ára aldri er náð. Sum tré mynda þó köngla fyrr á æviskeiðinu. Börkur er fremur þunnur og er því sitkagreni ekki sérlega eldþolið tré. Viðurinn er léttur og hlutfallslega sterkur. Hann er m.a. notaður í hljóðfæri, flugvélar og báta. Útsprungin brum ná nota í greni-bjór og sýróp. Forðist að planta í frostpolla. Sumt af því sem kallað er sitkagreni kann að vera sitkabastarður / hvítsitkagreni (Picea x lutzii). Sitkagreni / sitkabastarður er lang algengasta grenið hérlendis. Sitkagreni er glæsilegt stakstætt, fer vel í röðum og þyrpingum. Einnig kjörið í skjólbelti og jafnvel klippt limgerði. Þó eru ekki öll sveitarfélög sem leyfa gróðursetningu sitkagrenis á lóðarmörkum (sjá byggingareglugerð) enda verður sitkagreni mjög stórvaxið með tímanum.  Eitt mest notaða tré í skógrækt hérlendis enda harðgert og gott timburtré. Stundum nýtt sem jólatré enda ágætlega barrheldið. Lang besta sígræna tréið til ræktunar við sjávarsíðuna eins og t.d. á Reykjanesi. Sitkagreni gerir kröfur um frjósemi jarðvegs svo setjið vel af moltu eða búfjáráburði við gróðursetningu. Þegar skógarplöntur eru gróðursettar skal setja nokkur korn af tilbúnum áburði með. Hæstu tré hérlendis eru sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri, um 30 m á hæð (2022). Millibil við gróðursetningu að lágmarki 3 m. Stundum 2 m í skógrækt. Til frambúðar að lágmarki 4 - 5 m. Við framleiðum eingöngu sitkagreni af íslensku fræi. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Vex yfirleitt ekki langt frá ströndinni í heimkynnum sínum.

Skógarfura – Pinus sylvestris – Af íslensku fræi

Fremur harðgert, Hægvaxta, sígrænt tré. Getur orðið stórvaxin með tímanum. Oftast einstofna en stundum kræklótt. Nálar fremur stuttar, blágrænar. Gulna gjarnan yfir vetrartímann. Könglar fremur smáir. Sólelsk. Varpar fremur litlum skugga. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Börkur á eldri trjám áberandi rauðbrúnn. Furulús (Pineus pini) getur verið vandamál. Hentar stakstæð eða fleiri saman með góðu millibili (3 - 4 m). Má einnig nota í ker enda þurrkþolin. Er hér og þar í eldri skógræktarreitum en sjaldgæf í görðum. Plöntur af íslensku fræi lofa góðu. Hefur sáð sér út hérlendis en þó ekki í miklu mæli. Millibil 3 - 4 m eða meir. Heimkynni: Stór hluti Evrópu og austur eftir M-Asíu.

Skrautepli ‘Rudolph’ – Malus ‘Rudolph’

Lítið tré. Hæð 3 - 5 m. Laufið rauðbrúnt - purpurarautt en dökkgræn þegar líður á sumarið. Laufin eru egglaga - sporöskjulaga og tennt. Gulir haustlitir. Blómin rauðbleik í júní. Stundum þroskast lítil rauð epli á haustin. Þarf aðfrjóvgun. Þrífst í skjólgóðum görðum á sólríkum stöðum. Þolir þó hálfskugga. Gróðursetjið í sæmilega frjóan, ekki of blautan jarðveg. Blandið vel af moltu eða gömlum búfjáráburði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Skrauteplið 'Rudolph' hentar í litla garða, stakstætt eða í beði með jurtum og runnum. Hefur reynst nokkuð vel í grónum görðum hérlendis. 'Rudolph' er úr smiðju F.L. Skinner, Manitoba, Kanada frá árinu 1954. Rósaætt (Rosaceae).

Skrautreynir – Sorbus decora

Lítið - meðalstórt, fremur harðgert tré. Stundum runni. Hæð: 4 - 10 m. Brum eru dökkrauðbrún og klístruð. Ekki gráloðin eins og brum ilmreynis/reyniviðar (S. aucuparia). Laufblöð stór, stakfjöðruð. Rauðir og gulir haustlitir. Hvítir blómsveipir í júní. Rauðir, stórir berjaklasar í september. Fuglar sækja í berin. Þolir hálfskugga. Í meðallagi vindþolinn. Þrífst best í þokkalega frjóum, meðalrökum jarðvegi. Millibil að minnsta kosti 3 m. Fallegt og hæfilega stórt garðtré. Notkun skrautreynis hefur aukist mikið síðastliðna tvo áratugi. Virðist ekki eins næmur fyrir reyniátu (Valsaria insitiva) samanborið við reynivið. Skrautreynir myndar fræ með geldæxlun og er því einsleitur samanborið við ilmreyni. Heimkynni: Norðaustanverð N-Ameríka, aðallega í A-Kanada. Á Grænlandi vex náskyld tegund (S. groenlandica) sem stundum er talin vera undirtegund skrautreynis. Rósaætt (Rosaceae).

Stafafura – Pinus contorta

Mjög harðgert, meðalstórt, sígrænt tré (7 - 15 m). Lægra á vindasömum stöðum. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelsk. Nálarnar fagurgrænar, 2 - 3 saman í knippi. Þroskar meðalstóra, kanelbrúna köngla strax á unga aldri. Algengasta furan hérlendis. Vinsælasta íslenska jólatréið. Þrífst víðast hvar á landinu. Hraðvaxnasta furan hérlendis. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Stafafura hentar stakstæð en einnig í raðir, þyrpingar og til skógræktar sérstaklega í rýru landi. Varpar ekki eins miklum skugga og greni. Millibil ekki minna en 3 m. Gjarnan 2 m í skógrækt til að forðast miklar hliðargreinar. Tré sem hafa rými verða gjarnan mjög greinamikil og breið. Skýlið alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög berangurslegum stöðum. Barr roðnar gjarnan eftir mikla saltákomu af hafi. Öll stafafuran okkar er vaxin upp af íslensku fræi. Við framleiðum aðallega stafafuru af Skagway (Alaska) uppruna. Sú fura er fagurgræn allan veturinn en gulnar ekki eins og stafafura af innlandskvæmum gerir gjarnan. Stafafura er ágætis timburtré. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka.

Súlueik – Quercus robur ‘Fastigiata’

Fremur viðkvæmt tré hérlendis. Krónan mjóslegin. Laufgast upp úr miðjum júní. Frýs yfirleitt græn en stundum sjást gulir/gulbrúnir haustlitir. Fremur hægvaxta. Þrífst eingöngu í grónum görðum þar sem er skjólsælt. Sólelsk en þolir hálfskugga. Jarðvegurinn þarf að vera frjór og rakaheldinn. Óvíst er hversu hávaxin súleikin getur orðið hérlendis en reikna má með 6 - 7 m á allra bestu stöðum á löngum tíma.

Sumareik – Quercus robur

Sumargrænt tré. Óvíst er hversu há sumareikin getur orðið hérlendis en sjálfsagt mun hún vaxa upp fyrir 12 m hæð með tímanum á góðum vaxtarstöðum. Gulir haustlitir. Visin lauf sitja gjarnan á ungum trjám fram á vor. Þarf nokkurt skjól í uppvextinum. Þolir hálfskugga. Þrífst best í þokkalega frjóum jarðvegi. Má vera grýttur. Gott er að stýra vexti með klippingu annars vilja sumar eikur verða runnavaxnar. Almennt talið harðgerðasta eikin hérlendis og sú sem mesta hefur verið gróðursett. Samt er sumareik ennþá fremur sjaldgæf í ræktun. Sumareik hentar helst stakstæð í grónum görðum og í rjóður í skógarreitum og sumarhúsalóðum. Þrífst ekki á köldum og vindasömum stöðum. Sumareik laufgast seint eða ekki fyrr en um miðjan júní.

Týrólareynir / Doppureynir – Sorbus austriaca

Harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð: 6 - 10 m hérlendis. Stundum runni. Líkist alpareyni (Sorbus mougeotii). Talinn blendingur seljureynis (Sorbus aria) og reyniviðar (Sorbus aucuparia). Laufblöð breið-sporöskjulaga með kíllaga grunn. Lauf sagtennt en neðarlega á laufinu eru flipar sem skerast upp í blöðkuna sem nemur um 1/6 af breitt hennar. Flipar skarast ögn. Ofar eru laufblöðin tvísagtennt. Laufblöð ekki eins slétt og laufblöð alpareynis enda blaðjaðrar bylgjaðir. Lauf týrólareynis hafa þykkari hár en lauf annara reynitegunda í Sorbus aria deildinni. Gulir - brúnir haustlitir í október. Frýs stundum grænn. Blómin hvít í sveipum í júní. Rauðir berjaklasar þroskast í október. Trúlega verið hér í ræktun í einhverja áratugi og yfirleitt ranglega nefndur alpareynir. Finnst sjálfsáinn í nágrenni byggðar. Týrólareynir virðist beinvaxnari og jafnvel hávaxnari að jafnaði samanborið við alpareyni. Týrólareynir sómir sér vel stakur eða fleiri saman með um 3 m millibili eða meir. Hentar jafnvel í limgerði með um 2 plöntum/m. Þrífst í allri venjulegri, vel framræstri garðmold. Þrífst ekki í súrum jarðvegi. Heimkynni: Fjalllendi í Austurríki og á Balkanskaganum.

Úlfareynir – Sorbus x hostii

Harðgert lágvaxið tré - hávaxinn runni (2,5 - 5 m, stundum hærri). Blöðin gljáandi á efra borði, gráloðin á því neðra. Blómin bleik í sveipum fyrri part sumars. Rauð reyniber í klösum þroskast á haustin. Fljótlega étin upp af fuglum. Gulir - rauðir haustlitir. Vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Fer vel stakstæður eða í bland með öðrum gróðri. Má einnig nota í limgerði. Í limgerði er hæfilegt bil 50 - 70 sm. Annars er 1,5 - 2 m bil hæfilegt. Klippið helst á sumrin til að forðast reyniátu. Úlfareynir er algengur í íslenskum görðum. Berin eru ekki römm og stundum notuð til manneldis. Úlfareynir er talinn vera náttúrulegur tegundablendingur á milli blikreynis (S. chamaemespilus) og alpareynis (S. mougeotii) og finnst eins og móðurtegundirnar í fjalllendi M-Evrópu.

Ulleungreynir / Pálmareynir ‘Dodong’ – Sorbus ulleungensis ‘Dodong’

All harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð 4 - 6 m hérlendis. Getur ef til vill orðið hærri á góðum stöðum. Laufin allt að 25 sm löng, stakfjöðruð. Smáblöð 15 - 17 talsins og hvassydd. Áberandi rauðir og rauðgulir haustlitir. Blómin hvít í sveipum fyrri part sumars. Berin sitja mörg saman í klösum, perulaga, rauðgul fullþroska. Klippið og snyrtið 'Dodong' eingöngu yfir sumartímann til að forðast reyniátu. Yrkið 'Dodong' er vaxið upp af fræi sem safnað var í sænsk-dönskum leiðangri til kóreönsku eyjarinnar Ullungdo árið 1976. Yrkið er kennt við hafnarbæinn á umræddri eyju. 'Dodong' fer vel sem stakstæður í litlum sem stórum görðum. Einnig fellegur í röðum og þyrpingum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Heimkynni: Eyjan Ulleungdo, S-Kóreu. Rósaætt (Rosaceae).

Vesturbæjarvíðir – Salix x smithiana

Lágvaxið - meðalhátt tré eða stórvaxinn runni. Laufið grágrænt. Sprotar gulgrænir. Börkur grár og sprunginn á eldri trjám. Kvk. Sólelskur. Þarf frjóan jarðveg og hlýjan vaxtarstað til að þrífast. Hætt við haustkali flest ár enda grænn fram í október. Stundum ber á vörtum í laufi af völdum sagvespu (Euura bridgmanii). Hentar stakstæður, í raðir og þyrpingar. Bindið upp eftir gróðursetningu ef vesturbæjarvíðirinn á að verða einstofna. Þolir vel klippingu / stífingu. Upphaflega barst vesturbæjarvíðir til landsins í byrjun síðustu aldar sem lifandi sproti í tágakörfu frá Þýskalandi sem Jón Eyvindsson kaupmaður flutti inn. Ísleifur sonur hans kom sprotanum til og gróðursetti í garð þeirra að Stýrimannstíg 9, Rvk. Víðirinn dafnaði vel og dreifðist um Vesturbæinn í Rvk og víðar enda auðvel að fjölga honum með græðlingum. Líklega er allur vesturbæjarvíðir hérlendis upprunninn af þessu tré. Vesturbæjarvíðir er talinn náttúrulegur blendingur körfuvíðis (Salix viminalis), selju (Salix caprea) og gráselju (Salix cinerea) og finnst víða í Evrópu. Okkar vesturbæjarvíðir er ræktaður af græðlingum teknum af tré sem stendur við Hábæ við Skúlaskeið, Hfj. Einnig höfum við verið með vesturbæjarvíði frá Ytri Skógum sem að öllum líkindum er sami klónn. Vesturbæjarvíðir er sjaldgæfur hérlendis nema helst í eldri hverfum Rvk (Vesturbæ og miðbæ). Yfirleitt áberandi kræklóttur sökum kals.