Sviðjuvíðir ‘Svartiklettur’ – Salix scouleriana ‘Svartiklettur’
All harðgerður runni eða tré. Hæð 6 - 10 m. Laufin eru öfuglensulaga til sporöskjulaga. Laufið er dökkgrænt og nær hárlaust á efra borði en hærð að neðan. Laufin eru að mestu heilrennd. Nýtt lauf gjarnan rauðleitt, 5 - 12 sm löng. Sólelskur. Sjaldgæfur hérlendis.
Sagður geta vaxið í blautum og frekar þurrum jarðvegi. Í heimkynnum sínum nemur hann gjarnan land eftir skógarelda og annað rask. Sviðjuvíðirinn okkar er af græðlingum sem teknir voru af trjám sem standa við Svartaklett í Skorradal, alveg niður við Skorradalsvatn. Um er að ræða nokkur tré allt að 10 m há með all svera boli. Gústi í Hvammi kom með víði þennan frá Alaska. Heimkynni sviðjuvíðis eru í vestanverðri N-Ameríku allt frá Alaska suður til N-Kaliforníu. Víðisætt (Salicaceae).