• Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
Gróðrarstöð Gróðrarstöð
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
Search
Menu
Gróðrarstöð Gróðrarstöð
Stækka mynd
Heim Tré Stafafura – Pinus contorta
Placeholder
Sóltoppur 'Tumi' - Lonicera chrysantha 'Tumi'
Back to products
Virginíuheggur 'Canada Red' - Prunus virginiana 'Canada Red'

Stafafura – Pinus contorta

Mjög harðgert, hraðvaxta, meðalstórt – stórvaxið sígrænt tré. Hæð 7 – 15 m. Getur orðið enn hærri á góðum stöðum. Sérstaklega á það við um undirtegundina P. contorta ssp. latifolia (meginlandsundirtegundin). Stafafura getur orðið talsvert breið hafi hún nóg pláss. Börkurinn er fremur þunnur og grábrúnn á litinn. Brumin eru rauðbrún og frekar mjó samanborið við berg- (P. uncinata) og fjallafuru (P. mugo). Nálarnar eru fagurgrænar, venjulega tvær saman í knippi. Þær eru 4 – 8 sm á lengd og 0,9 – 2 mm á breidd. Þroskar 3 – sm langa, kanelbrúna köngla strax á unga aldri. Könglarnir eru á annað ár að ná fullum þroska. Karlblómin birtast á vorin eða fyrri part sumars. Þau raða sér þétt á sprotana og eru í fyrst rauðbleik en síðan ryðbrún og falla síðan af þegar líður á sumarið.

Þrífst víðast hvar á landinu. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelsk. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Algengasta furan hérlendis. Vinsælasta íslenska jólatréið. Myndar svepprót með furusvepp (Suillus luteus) sem er ágætis matsveppur.

Stafafura hentar stakstæð en einnig í raðir, þyrpingar og til skógræktar sérstaklega á rýru landi. Varpar ekki eins miklum skugga og greni. Millibil ekki minna en 3 m. Gjarnan 2 m í skógrækt til að forðast miklar hliðargreinar. Tré sem hafa rými verða gjarnan mjög greinamikil og breið. Skýlið alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög berangurslegum stöðum. Barr roðnar gjarnan eftir mikla saltákomu af hafi.

Öll stafafuran okkar er vaxin upp af íslensku fræi. Við framleiðum aðallega stafafuru af Skagway (Alaska) uppruna. Sú fura er fagurgræn allan veturinn en gulnar ekki eins og stafafura af meginlandsundirtegundinni, latifolia, gerir gjarnan. Stafafura er ágætis timburtré. Talsvert nýtt sem eldiviður og í kurl í stíga og beð. Stafafura er vinsælasta íslenska jólatréið. Einnig eru greinar hennar nýttar til skreytinga enda er stafafura barrheldin og ilmar talsvert.

Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Þallarætt (Pinaceae).

Vörunr. fe30bac7f771 Vöruflokkar: Hnausplöntur, Skógarplöntu-bakkar, Tré, Tré og runnar í pottum
Share:

Tengdar plöntur

Heggur ‘Laila’ – Prunus padus ssp. borealis ‘Laila’

Harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð 5 - 8 m. Blómin hvít, ilmandi í uppréttum klösum fyrri part sumars. Stundum sjást svört steinaldin/ber á haustin. Gulir haustlitir. Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Heggur 'Laila' hentar stakstæður, í trjá- og runnaþyrpingar og í sumarhúsalóðina. Millibil: 2 - 3 m. 'Laila' er sænskt, blómsælt úrvalsyrki ættað frá Kukkola við Torne-ánna í N-Svíþjóð.

Degli – Pseudotsuga menziesii

Meðalhátt - hávaxið, sígrænt tré hérlendis. Barrið mjúkt. Minnir á þin (Abies spp.). Brum deglis eru lang- og hvassydd en sljóydd eða alveg rúnuð á þin. Krónan er venjulega keilulaga. Stundum afmynduð sökum kals. Barrið grænt - gulgrænt. Könglar meðalstórir með mjög áberandi langri hreisturblöðku. Degli þarf nokkuð skjól til að þrífast. Þolir hálfskugga. Þarf þokkalega frjóan, rakaheldinn jarðveg. All hraðvaxið á góðum stöðum.  Degli hentar stakstætt eða í þyrpingar með alla vega 3 m millibili. Einnig til skógræktar í skjóli af öðrum trjám. Degli hefur einnig gengið undir nöfnunum "döglingsviður" og "douglasgreni". Í timburiðnaði nefnist degli "Oregon pine". Fremur sjaldgæft hérlendis. Hefur þroskað spírunarhæft fræ hérlendis.

Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’, ‘Haukur’ og ‘Súla’

Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk. 'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd). Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.

Beyki – Fagus sylvatica

Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.

Alpareynir – Sorbus mougeotii

Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Ýmist ein- eða margstofna. Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Blóm hvít í hálfsveipum fyrri part sumars. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Berin endast gjarnan á trjánum langt fram á vetur ólíkt berjum flestra annarra reynitegunda. Gulir haustlitir. Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (S. austriaca) og silfurreyni (S. intermedia). Á það til að sá sér út. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og V-Evrópu, þ.e.a.s. Pýreneafjöll, Alparnir og norður til Vosges-fjalla. Rósaætt (Rosaceae).

Evrópulerki – Larix decidua

Alla jafna harðgert, hávaxið sumargrænt, einstofna barrtré. Hæð 10 - 20 m hérlendis. Getur sjálfsagt orðið enn hærra á góðum stöðum með tímanum. Krónan breiðkeilulaga eða óregluleg. Greinar gjarnan uppsveigðar í endann með hangandi smágreinum. Árssprotar eru gulbrúnir og hárlausir. Börkur á yngri trjám grábrúnleitur. Eftir því sem tréin eldast ber gjarnan á stálbláum lit á berki neðst á trjánum. Á eldri trjám er börkurinn rauðbrúnn, sprunginn og flögóttur. Nálar eru 2 - 4 sm á lengd. Stakar og skrúfstæðar á langsprotum. Á dvergsprotum sitja þær 30 - 40 talsins saman í knippi. Þær eru stinnari samanborið við nálar síberíulerkis/rússalerkis (Larix sibirica).  Gulir haustlitir í október. Kvenblóm rauð um 1,5 sm á lengd. Könglar egglaga - keilulaga, 2 - 6 sm á lengd og 2 - 2,5 sm á breidd fullþroska. Köngulhreistrið er beint og ávallt í endann. Stundum er það aðeins innsveigt. Könglarnir verða síðan dökkgráir og sitja áfram á trjánum í einhver ár. Lítið ber á hæringu á köngulhreistrinu nema kannski neðst á könglunum ólíkt hærðu köngulhreistri síberíulerkis. Hreisturblöðkurnar sjást neðst á könglunum. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Þrífst þó ekki í blautum jarðvegi. Sólelskt. All vindþolið. Laufgast seinna samanborið við síberíulerki og verður því sjaldnast fyrir skemmdum á vorin. Getur orðið fyrir haustkali og þess vegna orðið kræklótt. Varpar ekki miklum skugga. Reynist almennt betur í lágsveitum sunnan- og vestanlands samanborið við síberíulerki. Evrópulerki hentar sem stakstætt tré eða í raðir/þyrpingar með 3-4 m millibili. Hentar einnig til skógræktar. Evrópulerkið okkar er gjarnan vaxið upp af íslensku fræi. Heimkynni: Alpafjöll og Karpatafjöll í Evrópu. Afbrigðið L. decidua var. polonica vex á nokkrum aðgreindum svæðum í N- og Mið-Póllandi. Þallarætt (Pinaceae).

Bergfura – Pinus uncinata

Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Könglar eru tvílitir, dekkri á jöðrum köngulhreisturs og minna á köngla fjallafuru en eru enn ljósari (sjá mynd). Bergfurukönglar eru kúptir að neðan en ekki sléttir eins og könglar fjallafuru. Könglar stafafuru eru aftur á móti einlitir, kanelbrúnir. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta. Heimkynni: Pýreneafjöll og V-Alparnir. Háfjallategund sem vex þar aðallega í 1000 - 2300 m.h.y.s. Finnst einnig lægra í frostpollum og barnamosamýrum. Þar sem útbreiðslusvæði berg- og fjallafuru skarast myndast gjarnan blendingar (Pinus x rotundata). Þessi blendingur virðist algengur hérlendis sem lýsir sér í fremur lágvöxnum, margstofna trjám eða stórum runnum upp á 4 - 7 m. Bergfura er stundum skilgreind sem undirtegund fjallafuru, Pinus mugo subsp. uncinata.

Askur – Fraxinus excelsior

Í meðallagi hávaxið tré hérlendis. Blöðin stór, stakfjöðruð. Laufgast í júní. Gulir haustlitir. Svört, fremur stór, gagnstæð brum. Börkur ljósgrár. Hefur blómgast og þroskað fræ hérlendis. Þarf þokkalegt skjól í uppvextinum og frjósaman jarðveg. Þolir hálfskugga. Fer vel stakstæður eða fleiri saman þar sem pláss er nóg. Bil þarf að lágmarki að vera 4 m. Í skógrækt borgar sig að gróðursetja ask undir skerm en lauf asks þola alls ekki að frjósa. Fremur skuggþolinn í æsku. Þarf frjósaman, framræstan jarðveg sem er ekki súr. Hentar eingöngu til gróðursetningar í skógarskjóli eða grónum hverfum. Heimkynni: Stór hluti Evrópu, þó ekki allra nyrst, austur til Kákasus og Alborz fjalla.
Kaldárselsvegi. Hafnarfirði
555 6455
skoghf@simnet.is
Tenglar
  • Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
  • Plöntuleit
  • Skógræktarfélag Íslands
  • Yndisgróður
  • Lystigarður Akureyrar
  • Sumarhúsið og garðurinn
  • Grasagarður Reykjavíkur
  • Garðaflóra
  • Garðyrkjufélag Íslands
Plöntuleit
  • Tré
  • Runnar
  • Skógarplöntur
  • Ávaxtatré og berjarunnar
  • Tré og runnar í pottum
  • Klifurrunnar
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar 2021
Hönnun: Veftorg vefþjónusta
  • Menu
  • Categories
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
Start typing to see products you are looking for.