Balsamþinur ‘Cook’s Blue’ – Abies balsamea ‘Cook’s Blue’
Sæmilega harðgert, keilulaga, hægvaxta, sígrænt barrtré. Krónan fremur mjóslegin. Óvíst er hve hávaxinn hann getur orðið hérlendis en reikna má með 10 m á bestu vaxtarstöðum. Annars er yrkið ‘Cook’s Blue’ sagt lágvaxnara en balsamþinur almennt. Börkur á ungum trjám er sléttur, grár með trjákvoðublöðrum (harpeis) en sprunginn og flögóttur á eldri trjám. Nálar flatar, grænar – blágrænar, 1,5 – 3 sm á lengd og ilmandi. Á neðra borði nála eru tvær ljósar loftaugarákir og gjarnan er blettur með loftaugum við nálarendann. Barrnálar aðeins sýldar í endann. Nálarnar liggja meira og minna lárétt út frá greinum/sprotum. Nálarnar hafa tilhneigingu til að verða styttri og þykkari ofar í krónunni. Könglar sívalir, uppréttir á greinunum, purpurabrúnir, 2,5 – 5 sm á lengd. Gjarnan með trjákvoðuútfellingum. Karlblóm rauðbrún, í litlum blómhnoðum á greinarendum fyrri part sumars.
Reynsla hérlendis er takmörkuð en lofar góðu. Þarf nokkurt skjól. Þrífst vel í hálfskugga eða fullri sól í grónum görðum eða skógarskjóli og sæmilega frjóum, rakaheldnum, framræstum jarðvegi sem gjarnan má vera ögn súr. Balsamþinur ‘Cook’s Blue’ fer vel stakstæður eða fleiri saman með 2,5 – 3 m millibili.
þar sem balsamþinur ‘Cook’s Blue’ er fræyrki er nokkur breytileiki meðal plantna undir þessu nafni. Barrið er þó almennt blágrænna en gengur og gerist með balsamþin almennt. Köfnunarefnisáburður (N) ýtir undir bláa litinn. Bláminn stafar af vaxhúð sem myndast á barrinu. Erlendis er þetta yrki m.a. ræktað og nýtt sem jólatré.
Náttúruleg heimkynni balsamþins eru Mið- og A-Kanada og norðaustanverð Bandaríkin. Þallarætt (Pinaceae).