Evrópuþinur -Abies alba
Sæmilega harðgert, sígrænt barrtré. Óvíst er hversu hávaxinn evrópuþinur getur orðið hérlendis en reikna má með afmarkað 10 – 15 m hæð á góðum stöðum. Nálarnar eru flatar, 1,8 – 3 sm á lengd og 2 mm á breidd. Dökkgrænar og gljáandi á efra borði en að neðan með tvær ljósar loftaugarákir. Nálarendinn aðeins sýldur. Nálarnar liggja meira og minna láréttar út frá greinum/sprotum. Það er þó ekki algillt og fer eftir kvæmum/undirtegundum. Könglarnir eru 9 – 17 sm langir og 3 – 4 sm breiðir með 150 – 200 hreisturblöð. Hreisturblaðka sýnileg. Könglarnir molna í sundur þegar þeir eru fullþroska. Fræið er vængjað. Viðurinn er hvítur og er fræðiheiti tegundarinnar „alba“ dregið af því.
Evrópuþinur hentar stakstæður í skjóli. Einnig fleiri saman með um 3 m millibili. Þrífst í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Evrópuþinur er sjaldgæfur hérlendis og reynsla því takmörkuð. Virðist þrífast vel í skógarskjóli. Erlendis m.a. nýttur sem jólatré en einnig sem timburtré. Í sínum heimkynnum vex hann til fjalla aðallega í norðurhlíðum með meðalársúrkomu yfir 1.500 mm.
Náttúruleg heimkynni eru fjalllendi í Mið- og S-Evrópu. Víða hálfvilltur norðar í álfunni. Þallarætt (Pinaceae).