• Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
Gróðrarstöð Gróðrarstöð
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
Search
Menu
Gróðrarstöð Gróðrarstöð
Stækka mynd
Heim Tré Bergfura – Pinus uncinata
Skrautreynir - Sorbus decora
Back to products
Bjarmasýrena 'Valkyrja' - Syringa wolfii 'Valkyrja'

Bergfura – Pinus uncinata

Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar – blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Könglar eru tvílitir, dekkri á jöðrum köngulhreisturs og minna á köngla fjallafuru en eru enn ljósari (sjá mynd). Bergfurukönglar eru kúptir að neðan en ekki sléttir eins og könglar fjallafuru. Könglar stafafuru eru aftur á móti einlitir, kanelbrúnir. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta. Heimkynni: Pýreneafjöll og V-Alparnir. Háfjallategund sem vex þar aðallega í 1000 – 2300 m.h.y.s. Finnst einnig lægra í frostpollum og barnamosamýrum. Þar sem útbreiðslusvæði berg- og fjallafuru skarast myndast gjarnan blendingar (Pinus x rotundata). Þessi blendingur virðist algengur hérlendis sem lýsir sér í fremur lágvöxnum, margstofna trjám eða stórum runnum upp á 4 – 7 m. Bergfura er stundum skilgreind sem undirtegund fjallafuru, Pinus mugo subsp. uncinata.

Vörunr. ab189c2c3131 Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Share:

Tengdar plöntur

Heggur – Prunus padus

Harðgert, lágvaxið - meðalhátt tré (5 - 10 m). Ein- eða margstofna. Stundum runni. Blómin hvít, ilmandi í klösum í maí - júní. Stundum þroskast svört ber (steinaldin)í gisnum klösum að hausti. Gulir - rauðgulir haustlitir. Heggur þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Heggur sómir sér vel stakur eða fleiri saman í þyrpingum og röðum. Tilvalinn í sumarhúsalandið. Þolir vel hálfskugga. Lágmarks-millibil: 2 m. Þolir vel klippingu en blómgast þá minna. Heggurinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Norður og M-Evrópu, Norður og NA-Asía.

Blágreni – Picea engelmannii

Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Gömul tré hérlendis þroska stundum köngla. Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 3 m millibili. Úrvals jólatré enda barrheldið. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands. Blágreni þykir all gott timburtré og viðurinn sagður léttur en fremur sterkur. M.a. nýtt í ýmis hljóðfæri. Blágreni er fyrst og fremst háfjallatré. Heimkynni blágrenis eru aðallega í Klettafjöllum og Fossafjöllum (Cascade Range) N-Ameríku. Vex þar víða upp að skógarmörkum. Myndar blendinga með hvít- (P. glauca) og sitkagreni (P. sitchensis) í heimkynnum sínum þar sem útbreiðslusvæði þessara tegunda skarast.

Gráelri / Gráölur – Alnus incana

Harðgert, hraðvaxta, sumargrænt, venjulega einstofna tré. Hæð 7 - 15 m. Getur sjálfsagt orðið enn hærra á góðum stöðum hérlendis. Stundum runni við erfiðar aðstæður. Börkur grár og sléttur. Brum stilkuð. Laufið egglaga, mattgrænt og tennt. Nýtt lauf á vorin og fyrri part sumars gjarnan rauðbrúnleitt. Haustlitir ekki áberandi en laufið verður gjarnan brúnleitt áður en það fellur. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur sem gera elrinu kleift að lifa og vaxa í ófrjóum jarðvegi. Þolir að vaxa í deiglendi. Sólelskt. Vindþolið en ekki talið sérlega saltþolið. Karlreklar birtast strax á haustin og vaxa fram síðvetrar eða snemma vors. Drjúpandi, 5 - 7 sm, gulbrúnir. Kvenreklar eru fullþroska að hausti. Líkjast litlum könglum. Dökkbrúnir. Stundum ber talsvert á rótarskotum hjá gráelri. Hentar stakstætt, í raðir, þyrpingar og til skógræktar og uppgræðslu. Einnig stundum gróðursett sem götutré hérlendis. Millibil að minnsta kosti 3 m. Gráelrið okkar er mest megnis ættað frá Hallormsstað og Egilsstöðum. Heimkynni gráelris (A. incana subsp. incana) er Evrópa og NV-Asía. Elrivendill (Taphrina alni) er gjarnan áberandi á kvenreklum gráelris. Bjarkarætt (Betulaceae).

Bolvíðir – Salix udensis – Ivashka, Kamsjatka

Harðgert, hraðvaxta tré / runni. Laufið er mjólensulaga. Gulir haustlitir. Virðist stöðugri og beinvaxnari en flestur annar víðir að selju (Salix caprea) undanskilinni. Sólelskur. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Um er að ræða klón frá Ivashka, Kamtsjatka, Rússlandi sem safnað var í Kamtsjatka-leiðangri Óla Vals Hanssonar og Brynjólfs Jónssonar árið 1993. Bolvíðir hentar sem stakstætt tré en einnig í raðir og þyrpingar með um 2 m millibili hið minnsta. Sjaldgæfur hérlendis. Kvenkyns klón.

Alaskaepli – Malus fusca

Harðgert, fremur hægvaxta, lágvaxið tré eða runni (3 - 6 m). Laufin eru 5 - 8 sm á lengd egglaga eða sporöskjulaga. Óreglulega flipótt og sagtennt. Blómin hvít, ilmandi í sveipum fyrri part sumars. Aldinið lítið gulgrænt - rauðleitt, ætt epli á stærð við vínber. Þroskar yfirleitt aldin á hverju ári. Rauðir haustlitir. Þolir vel klippingu. Stundum ber á rótarskotum. Þrífst í allri venjulegri, rakaheldinni garðmold. Blandið moltu eða gömlum búfjáráburði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Alaskaepli fer vel stakstætt eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Alaskaepli hentar vel í klippt limgerði. Í limgerði er hæfilegt millibil um 70 sm. Greinar alaskaeplis eru harðar/stífar og dvergsprotar áberandi hvassir. Alaskaepli er harðgerðasta skrauteplið fyrir íslenskar aðstæður sem völ er á. Við framleiðum eingöngu alaskaepli af íslensku fræi. Aldin alaskaeplis má nýta í sultu- og hlaupgerð en þau eru rík af pektíni. Ekki er ósennilegt að alaskaepli nýtist sem frjógjafi fyrir matarepli (M. domestica) en erlendis er það þekkt að þar sem þessar tegundir vaxa saman mynda þær stundum blendinga (M. x dawsoniana).     Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex það gjarnan í deiglendi og nálægt ströndinni.

Garðagullregn – Laburnum x watereri ‘Vossii’

All harðgert, fremur lágvaxið tré eða runni (3 - 7 m). Getur orðið nokkuð breitt. Börkur grænn á ungum greinum. Verður síðan gulbrúnn - brúnn með tímanum. Brum stakstæð og silfurhærð. Blöð þrífingruð. Smáblöðin eru sporöskjulaga 2,5 - 7 sm á lengd og allt að 3 sm breið. Blöð eru hærðari að neðanverðu til að byrja með samanborið við fjallagullregn. Blóm dæmigerð ertublóm, gul, ilmandi og um 2 sm löng. Hvert blóm er að jafnaði ívið stærra en blóm fjallagullregns. Þau sitja mörg saman í allt að 50 sm löngum klösum í júní og fram í júlí. Byrjar að blómgast ögn fyrr á sumrin samanborið við fjallagullregn. Aldinið er um 6 sm langur belgur. Þroskar yfirleitt lítið af fræi sem er almennt talið vera kostur þar sem fræið er eitraðasti hluti trésins. Fræið er annars dekkra samanborið við fræ fjallagullregns. Annars er garðagullregn eitrað sé þess neytt. Sólelskt. Niturbindandi og gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hann má þó ekki vera blautur. Bindið upp eftir gróðursetningu. Hafið uppbindingar á að minnsta kosti fyrsta árið eftir gróðursetningu. Garðagullregni hættir til að losna. Til að létta á trjánum má stytta greinar í júlí/ágúst. Ekki klippa gullregn á öðrum árstíma. þar sem greinar hafa tilhneigingu til að vaxa meira á þverveginn en hæðina getur verið ráð að binda upp leiðandi toppsprota strax í upphafi. Garðagullregn er ágrætt tré sem blómstrar strax á unga aldri. Garðagullregn er nettara tré samanborið við fjallagullregn. Sómir sér vel stakstætt eða innan um fjölæringa og runna. Hafið minnsta kosti 2-3 m á milli að næsta tré. Erlendis er garðagullregn gjarnan gróðursett við grindur og boga og bundið þar við og t.d. látið mynda bogagöng og þess háttar. Þannig notkun á garðagullregni ætti ekki síður að henta hérlendis. Ekki er óalgengt að garðagullregn blómstri mikið annað hvert ár og hvíli sig með minni eða engri blómgun þar á milli. Garðagullregn er tegundablendingur milli fjallagullregns og strandgullregns (Laburnum anagyroides). Foreldrategundirnar vaxa í fjalllendi Mið-Evrópu. Yrkið 'Vossii' er upprunið í Hollandi í kringum árið 1875. Garðagullregn er vinsælt og útbreitt garðtré hérlendis og klárlega það gullregn sem mest er gróðursett í dag. Ertublómaætt (Fabaceae)

Degli – Pseudotsuga menziesii

Meðalhátt - hávaxið, sígrænt tré hérlendis. Barrið mjúkt. Minnir á þin (Abies spp.). Brum deglis eru lang- og hvassydd en sljóydd eða alveg rúnuð á þin. Krónan er venjulega keilulaga. Stundum afmynduð sökum kals. Barrið grænt - gulgrænt. Könglar meðalstórir með mjög áberandi langri hreisturblöðku. Degli þarf nokkuð skjól til að þrífast. Þolir hálfskugga. Þarf þokkalega frjóan, rakaheldinn jarðveg. All hraðvaxið á góðum stöðum.  Degli hentar stakstætt eða í þyrpingar með alla vega 3 m millibili. Einnig til skógræktar í skjóli af öðrum trjám. Degli hefur einnig gengið undir nöfnunum "döglingsviður" og "douglasgreni". Í timburiðnaði nefnist degli "Oregon pine". Fremur sjaldgæft hérlendis. Hefur þroskað spírunarhæft fræ hérlendis.

Alpareynir – Sorbus mougeotii

Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Ýmist ein- eða margstofna. Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Blóm hvít í hálfsveipum fyrri part sumars. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Berin endast gjarnan á trjánum langt fram á vetur ólíkt berjum flestra annarra reynitegunda. Gulir haustlitir. Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (S. austriaca) og silfurreyni (S. intermedia). Á það til að sá sér út. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og V-Evrópu, þ.e.a.s. Pýreneafjöll, Alparnir og norður til Vosges-fjalla. Rósaætt (Rosaceae).
Kaldárselsvegi. Hafnarfirði
555 6455
skoghf@simnet.is
Tenglar
  • Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
  • Plöntuleit
  • Skógræktarfélag Íslands
  • Yndisgróður
  • Lystigarður Akureyrar
  • Sumarhúsið og garðurinn
  • Grasagarður Reykjavíkur
  • Garðaflóra
  • Garðyrkjufélag Íslands
Plöntuleit
  • Tré
  • Runnar
  • Skógarplöntur
  • Ávaxtatré og berjarunnar
  • Tré og runnar í pottum
  • Klifurrunnar
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar 2021
Hönnun: Veftorg vefþjónusta
  • Menu
  • Categories
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
Start typing to see products you are looking for.