• Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
Gróðrarstöð Gróðrarstöð
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
Search
Menu
Gróðrarstöð Gróðrarstöð
Stækka mynd
Heim Tré Evrópulerki – Larix decidua
Döglingsþyrnir - Crataegus douglasii
Back to products
Garðakvistill 'Diabolo' - Physocarpus opulifolius 'Diabolo'

Evrópulerki – Larix decidua

Alla jafna harðgert, hávaxið sumargrænt, einstofna barrtré. Hæð 10 – 20 m hérlendis. Getur sjálfsagt orðið enn hærra á góðum stöðum með tímanum. Krónan breiðkeilulaga eða óregluleg. Greinar gjarnan uppsveigðar í endann með hangandi smágreinum. Árssprotar eru gulbrúnir og hárlausir. Börkur á yngri trjám grábrúnleitur. Eftir því sem tréin eldast ber gjarnan á stálbláum lit á berki neðst á trjánum. Á eldri trjám er börkurinn rauðbrúnn, sprunginn og flögóttur. Nálar eru 2 – 4 sm á lengd. Stakar og skrúfstæðar á langsprotum. Á dvergsprotum sitja þær 30 – 40 talsins saman í knippi. Þær eru stinnari samanborið við nálar síberíulerkis/rússalerkis (Larix sibirica).  Gulir haustlitir í október.

Kvenblóm rauð um 1,5 sm á lengd. Könglar egglaga – keilulaga, 2 – 6 sm á lengd og 2 – 2,5 sm á breidd fullþroska. Köngulhreistrið er beint og ávallt í endann. Stundum er það aðeins innsveigt. Könglarnir verða síðan dökkgráir og sitja áfram á trjánum í einhver ár. Lítið ber á hæringu á köngulhreistrinu nema kannski neðst á könglunum ólíkt hærðu köngulhreistri síberíulerkis. Hreisturblöðkurnar sjást neðst á könglunum.

Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Þrífst þó ekki í blautum jarðvegi. Sólelskt. All vindþolið. Laufgast seinna samanborið við síberíulerki og verður því sjaldnast fyrir skemmdum á vorin. Getur orðið fyrir haustkali og þess vegna orðið kræklótt. Varpar ekki miklum skugga. Reynist almennt betur í lágsveitum sunnan- og vestanlands samanborið við síberíulerki. Evrópulerki hentar sem stakstætt tré eða í raðir/þyrpingar með 3-4 m millibili. Hentar einnig til skógræktar.

Evrópulerkið okkar er gjarnan vaxið upp af íslensku fræi. Heimkynni: Alpafjöll og Karpatafjöll í Evrópu. Afbrigðið L. decidua var. polonica vex á nokkrum aðgreindum svæðum í N- og Mið-Póllandi. Þallarætt (Pinaceae).

Vörunr. d4f6528c482b Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Share:

Tengdar plöntur

Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’, ‘Haukur’ og ‘Súla’

Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk. 'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd). Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.

Alaskaepli – Malus fusca

Harðgert, fremur hægvaxta, lágvaxið tré eða runni (3 - 6 m). Laufin eru 5 - 8 sm á lengd egglaga eða sporöskjulaga. Óreglulega flipótt og sagtennt. Blómin hvít, ilmandi í sveipum fyrri part sumars. Aldinið lítið gulgrænt - rauðleitt, ætt epli á stærð við vínber. Þroskar yfirleitt aldin á hverju ári. Rauðir haustlitir. Þolir vel klippingu. Stundum ber á rótarskotum. Þrífst í allri venjulegri, rakaheldinni garðmold. Blandið moltu eða gömlum búfjáráburði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Alaskaepli fer vel stakstætt eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Alaskaepli hentar vel í klippt limgerði. Í limgerði er hæfilegt millibil um 70 sm. Greinar alaskaeplis eru harðar/stífar og dvergsprotar áberandi hvassir. Alaskaepli er harðgerðasta skrauteplið fyrir íslenskar aðstæður sem völ er á. Við framleiðum eingöngu alaskaepli af íslensku fræi. Aldin alaskaeplis má nýta í sultu- og hlaupgerð en þau eru rík af pektíni. Ekki er ósennilegt að alaskaepli nýtist sem frjógjafi fyrir matarepli (M. domestica) en erlendis er það þekkt að þar sem þessar tegundir vaxa saman mynda þær stundum blendinga (M. x dawsoniana).     Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex það gjarnan í deiglendi og nálægt ströndinni.

Degli – Pseudotsuga menziesii

Meðalhátt - hávaxið, sígrænt tré hérlendis. Barrið mjúkt. Minnir á þin (Abies spp.). Brum deglis eru lang- og hvassydd en sljóydd eða alveg rúnuð á þin. Krónan er venjulega keilulaga. Stundum afmynduð sökum kals. Barrið grænt - gulgrænt. Könglar meðalstórir með mjög áberandi langri hreisturblöðku. Degli þarf nokkuð skjól til að þrífast. Þolir hálfskugga. Þarf þokkalega frjóan, rakaheldinn jarðveg. All hraðvaxið á góðum stöðum.  Degli hentar stakstætt eða í þyrpingar með alla vega 3 m millibili. Einnig til skógræktar í skjóli af öðrum trjám. Degli hefur einnig gengið undir nöfnunum "döglingsviður" og "douglasgreni". Í timburiðnaði nefnist degli "Oregon pine". Fremur sjaldgæft hérlendis. Hefur þroskað spírunarhæft fræ hérlendis.

Gráreynir – Sorbus hybrida

Harðgert meðalstórt tré (5-12m). Stundum runni. Laufin með minnst tveimur smáblaða-pörum neðst. Hvítgráloðin á neðra borði. Blómin hvít í sveip í júní. Berin rauð í klösum í október. All vind- og saltþolinn. Ekki viðkvæmur fyrir reyniátu (Cytospora rubescens). Þrífst vel í venjulegri, vel framræstri garðmold. Gráreynir hentar sem stakstætt tré, í raðir/þyrpingar, í sumarhúsalóðir og jafnvel sem götutré. Millibil um 3-4 m. Gráreynirinn okkar er allur af íslensku fræi sem við tínum af fallegum móðurtrjám. Þar sem gráreynir er "apomictic" eru fræplönturnar með sama erfðamengi og móðurtréið.

Garðagullregn – Laburnum x watereri ‘Vossii’

All harðgert, fremur lágvaxið tré eða runni (3 - 7 m). Getur orðið nokkuð breitt. Börkur grænn á ungum greinum. Verður síðan gulbrúnn - brúnn með tímanum. Brum stakstæð og silfurhærð. Blöð þrífingruð. Smáblöðin eru sporöskjulaga 2,5 - 7 sm á lengd og allt að 3 sm breið. Blöð eru hærðari að neðanverðu til að byrja með samanborið við fjallagullregn. Blóm dæmigerð ertublóm, gul, ilmandi og um 2 sm löng. Hvert blóm er að jafnaði ívið stærra en blóm fjallagullregns. Þau sitja mörg saman í allt að 50 sm löngum klösum í júní og fram í júlí. Byrjar að blómgast ögn fyrr á sumrin samanborið við fjallagullregn. Aldinið er um 6 sm langur belgur. Þroskar yfirleitt lítið af fræi sem er almennt talið vera kostur þar sem fræið er eitraðasti hluti trésins. Fræið er annars dekkra samanborið við fræ fjallagullregns. Annars er garðagullregn eitrað sé þess neytt. Sólelskt. Niturbindandi og gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hann má þó ekki vera blautur. Bindið upp eftir gróðursetningu. Hafið uppbindingar á að minnsta kosti fyrsta árið eftir gróðursetningu. Garðagullregni hættir til að losna. Til að létta á trjánum má stytta greinar í júlí/ágúst. Ekki klippa gullregn á öðrum árstíma. þar sem greinar hafa tilhneigingu til að vaxa meira á þverveginn en hæðina getur verið ráð að binda upp leiðandi toppsprota strax í upphafi. Garðagullregn er ágrætt tré sem blómstrar strax á unga aldri. Garðagullregn er nettara tré samanborið við fjallagullregn. Sómir sér vel stakstætt eða innan um fjölæringa og runna. Hafið minnsta kosti 2-3 m á milli að næsta tré. Erlendis er garðagullregn gjarnan gróðursett við grindur og boga og bundið þar við og t.d. látið mynda bogagöng og þess háttar. Þannig notkun á garðagullregni ætti ekki síður að henta hérlendis. Ekki er óalgengt að garðagullregn blómstri mikið annað hvert ár og hvíli sig með minni eða engri blómgun þar á milli. Garðagullregn er tegundablendingur milli fjallagullregns og strandgullregns (Laburnum anagyroides). Foreldrategundirnar vaxa í fjalllendi Mið-Evrópu. Yrkið 'Vossii' er upprunið í Hollandi í kringum árið 1875. Garðagullregn er vinsælt og útbreitt garðtré hérlendis og klárlega það gullregn sem mest er gróðursett í dag. Ertublómaætt (Fabaceae)

Fjallareynir – Sorbus commixta

Harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré (3 - 6 m). Laufin stakfjöðruð. Smáblöðin 11 - 17 talsins, hvassydd. Áberandi eldrauðir haustlitir. Brum rauð og hárlaus. Hvítir blómsveipir fyrri part sumars. Rauðgul, fremur smá reyniber í klösum þroskast að hausti. Fjallareynir er glæsilegur stakur eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Kjörinn í sumarhúsalóðir. Fjallareynir er talsvert breytilegur enda fjölgar hann sér með kynæxlun og getur t.d. myndað kynblendinga með ilmreyni (S. aucuparia). Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst einnig vel í lúpínubreiðum. Allur fjallareynirinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Japan, Kína, Kórea og Sakalín.

Fjallaþinur – Abies lasiocarpa

Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga. Heimkynni: Fjalllendi í vestanverðri N-Ameríku.

Alpareynir – Sorbus mougeotii

Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Ýmist ein- eða margstofna. Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Blóm hvít í hálfsveipum fyrri part sumars. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Berin endast gjarnan á trjánum langt fram á vetur ólíkt berjum flestra annarra reynitegunda. Gulir haustlitir. Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (S. austriaca) og silfurreyni (S. intermedia). Á það til að sá sér út. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og V-Evrópu, þ.e.a.s. Pýreneafjöll, Alparnir og norður til Vosges-fjalla. Rósaætt (Rosaceae).
Kaldárselsvegi. Hafnarfirði
555 6455
skoghf@simnet.is
Tenglar
  • Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
  • Plöntuleit
  • Skógræktarfélag Íslands
  • Yndisgróður
  • Lystigarður Akureyrar
  • Sumarhúsið og garðurinn
  • Grasagarður Reykjavíkur
  • Garðaflóra
  • Garðyrkjufélag Íslands
Plöntuleit
  • Tré
  • Runnar
  • Skógarplöntur
  • Ávaxtatré og berjarunnar
  • Tré og runnar í pottum
  • Klifurrunnar
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar 2021
Hönnun: Veftorg vefþjónusta
  • Menu
  • Categories
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
Start typing to see products you are looking for.