• Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
Gróðrarstöð Gróðrarstöð
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
Search
Menu
Gróðrarstöð Gróðrarstöð
Awaiting product image
Stækka mynd
Heim Tré og runnar í pottum Balsamþinur ‘Cook’s Blue’ – Abies balsamea ‘Cook’s Blue’
Placeholder
Evrópuþinur -Abies alba
Back to products
Hesli - Corylus avellana - kvæmi: frönsku Alparnir

Balsamþinur ‘Cook’s Blue’ – Abies balsamea ‘Cook’s Blue’

Sæmilega harðgert, keilulaga, hægvaxta, sígrænt barrtré. Krónan fremur mjóslegin. Óvíst er hve hávaxinn hann getur orðið hérlendis en reikna má með 10 m á bestu vaxtarstöðum. Annars er yrkið ‘Cook’s Blue’ sagt lágvaxnara en balsamþinur almennt. Börkur á ungum trjám er sléttur, grár með trjákvoðublöðrum (harpeis) en sprunginn og flögóttur á eldri trjám. Nálar flatar, grænar – blágrænar, 1,5 – 3 sm á lengd og ilmandi. Á neðra borði nála eru tvær ljósar loftaugarákir og gjarnan er blettur með loftaugum við nálarendann. Barrnálar aðeins sýldar í endann. Nálarnar liggja meira og minna lárétt út frá greinum/sprotum. Nálarnar hafa tilhneigingu til að verða styttri og þykkari ofar í krónunni. Könglar sívalir, uppréttir á greinunum, purpurabrúnir, 2,5 – 5 sm á lengd. Gjarnan með trjákvoðuútfellingum. Karlblóm rauðbrún, í litlum blómhnoðum á greinarendum fyrri part sumars.

Reynsla hérlendis er takmörkuð en lofar góðu. Þarf nokkurt skjól. Þrífst vel í hálfskugga eða fullri sól í grónum görðum eða skógarskjóli og sæmilega frjóum, rakaheldnum, framræstum jarðvegi sem gjarnan má vera ögn súr. Balsamþinur ‘Cook’s Blue’ fer vel stakstæður eða fleiri saman með 2,5 – 3 m millibili.

þar sem balsamþinur ‘Cook’s Blue’ er fræyrki er nokkur breytileiki meðal plantna undir þessu nafni. Barrið er þó almennt blágrænna en gengur og gerist með balsamþin almennt. Köfnunarefnisáburður (N) ýtir undir bláa litinn. Bláminn stafar af vaxhúð sem myndast á barrinu. Erlendis er þetta yrki m.a. ræktað og nýtt sem jólatré.

Náttúruleg heimkynni balsamþins eru Mið- og A-Kanada og norðaustanverð Bandaríkin. Þallarætt (Pinaceae).

 

 

 

 

Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Share:

Tengdar plöntur

Beyki – Fagus sylvatica

Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.

Garðagullregn – Laburnum x watereri ‘Vossii’

All harðgert, fremur lágvaxið tré eða runni (3 - 7 m). Getur orðið nokkuð breitt. Börkur grænn á ungum greinum. Verður síðan gulbrúnn - brúnn með tímanum. Brum stakstæð og silfurhærð. Blöð þrífingruð. Smáblöðin eru sporöskjulaga 2,5 - 7 sm á lengd og allt að 3 sm breið. Blöð eru hærðari að neðanverðu til að byrja með samanborið við fjallagullregn. Blóm dæmigerð ertublóm, gul, ilmandi og um 2 sm löng. Hvert blóm er að jafnaði ívið stærra en blóm fjallagullregns. Þau sitja mörg saman í allt að 50 sm löngum klösum í júní og fram í júlí. Byrjar að blómgast ögn fyrr á sumrin samanborið við fjallagullregn. Aldinið er um 6 sm langur belgur. Þroskar yfirleitt lítið af fræi sem er almennt talið vera kostur þar sem fræið er eitraðasti hluti trésins. Fræið er annars dekkra samanborið við fræ fjallagullregns. Annars er garðagullregn eitrað sé þess neytt. Sólelskt. Niturbindandi og gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hann má þó ekki vera blautur. Bindið upp eftir gróðursetningu. Hafið uppbindingar á að minnsta kosti fyrsta árið eftir gróðursetningu. Garðagullregni hættir til að losna. Til að létta á trjánum má stytta greinar í júlí/ágúst. Ekki klippa gullregn á öðrum árstíma. þar sem greinar hafa tilhneigingu til að vaxa meira á þverveginn en hæðina getur verið ráð að binda upp leiðandi toppsprota strax í upphafi. Garðagullregn er ágrætt tré sem blómstrar strax á unga aldri. Garðagullregn er nettara tré samanborið við fjallagullregn. Sómir sér vel stakstætt eða innan um fjölæringa og runna. Hafið minnsta kosti 2-3 m á milli að næsta tré. Erlendis er garðagullregn gjarnan gróðursett við grindur og boga og bundið þar við og t.d. látið mynda bogagöng og þess háttar. Þannig notkun á garðagullregni ætti ekki síður að henta hérlendis. Ekki er óalgengt að garðagullregn blómstri mikið annað hvert ár og hvíli sig með minni eða engri blómgun þar á milli. Garðagullregn er tegundablendingur milli fjallagullregns og strandgullregns (Laburnum anagyroides). Foreldrategundirnar vaxa í fjalllendi Mið-Evrópu. Yrkið 'Vossii' er upprunið í Hollandi í kringum árið 1875. Garðagullregn er vinsælt og útbreitt garðtré hérlendis og klárlega það gullregn sem mest er gróðursett í dag. Ertublómaætt (Fabaceae)

Heggur – Prunus padus

Harðgert, lágvaxið - meðalhátt tré (5 - 10 m). Ein- eða margstofna. Stundum runni. Blómin hvít, ilmandi í klösum í maí - júní. Stundum þroskast svört ber (steinaldin)í gisnum klösum að hausti. Gulir - rauðgulir haustlitir. Heggur þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Heggur sómir sér vel stakur eða fleiri saman í þyrpingum og röðum. Tilvalinn í sumarhúsalandið. Þolir vel hálfskugga. Lágmarks-millibil: 2 m. Þolir vel klippingu en blómgast þá minna. Heggurinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Norður og M-Evrópu, Norður og NA-Asía.

Glæsiþinur – Abies fraseri

Sígrænt, keilulaga barrtré, frekar lágvaxið tré (5-8 m). Óvíst er þó hversu hátt það verður hérlendis í framtíðinni. Nálar mjúkar, fagurgrænar að ofan en ljósar að neðan. Könglar uppréttir. Ilmar. Þarf nokkurt skjól í uppvextinum. Nokkuð skuggþolinn. Vinsælt jólatré í N-Ameríku. Nýlegur í ræktun hérlendis en lofar góðu. Hentar í skjólgóða garða og inn í skóga/undir skermi. Ættaður frá Appalasíufjöllum í SA-Bandaríkjunum.

Fjallaþinur – Abies lasiocarpa

Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga. Heimkynni: Fjalllendi í vestanverðri N-Ameríku.

Alaskaepli – Malus fusca

Harðgert, fremur hægvaxta, lágvaxið tré eða runni (3 - 6 m). Laufin eru 5 - 8 sm á lengd egglaga eða sporöskjulaga. Óreglulega flipótt og sagtennt. Blómin hvít, ilmandi í sveipum fyrri part sumars. Aldinið lítið gulgrænt - rauðleitt, ætt epli á stærð við vínber. Þroskar yfirleitt aldin á hverju ári. Rauðir haustlitir. Þolir vel klippingu. Stundum ber á rótarskotum. Þrífst í allri venjulegri, rakaheldinni garðmold. Blandið moltu eða gömlum búfjáráburði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Alaskaepli fer vel stakstætt eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Alaskaepli hentar vel í klippt limgerði. Í limgerði er hæfilegt millibil um 70 sm. Greinar alaskaeplis eru harðar/stífar og dvergsprotar áberandi hvassir. Alaskaepli er harðgerðasta skrauteplið fyrir íslenskar aðstæður sem völ er á. Við framleiðum eingöngu alaskaepli af íslensku fræi. Aldin alaskaeplis má nýta í sultu- og hlaupgerð en þau eru rík af pektíni. Ekki er ósennilegt að alaskaepli nýtist sem frjógjafi fyrir matarepli (M. domestica) en erlendis er það þekkt að þar sem þessar tegundir vaxa saman mynda þær stundum blendinga (M. x dawsoniana).     Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex það gjarnan í deiglendi og nálægt ströndinni.

Baunatré – Caragana arborescens

Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.

Gljáhlynur – Acer glabrum var. douglasii

Fremur harðgert lágvaxið tré eða stór runni (3 - 6 m). Blöðin sepótt eða jafnvel fingruð. Gulir - rauðgulir haustlitir. Sprotar áberandi rauðir. Þolir hálfskugga. Gljáhlynur sómir sér vel stakstæður, í bland með öðrum trjágróðri eða blómgróðri. Gljáhlynur er með harðgerðustu hlyntegundum (Acer spp.) sem völ er á. Sprotarnir vilja þó trosna í vetrarstormum. Miklu fínlegri og nettari samanborði við garðahlyn (A. pseudoplatanus) en garðahlynur er algengasti hlynurinn hérlendis. Gljáhlynurinn okkar er allur vaxinn upp af íslensku fræi.
Kaldárselsvegi. Hafnarfirði
555 6455
skoghf@simnet.is
Tenglar
  • Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
  • Plöntuleit
  • Skógræktarfélag Íslands
  • Yndisgróður
  • Lystigarður Akureyrar
  • Sumarhúsið og garðurinn
  • Grasagarður Reykjavíkur
  • Garðaflóra
  • Garðyrkjufélag Íslands
Plöntuleit
  • Tré
  • Runnar
  • Skógarplöntur
  • Ávaxtatré og berjarunnar
  • Tré og runnar í pottum
  • Klifurrunnar
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar 2021
Hönnun: Veftorg vefþjónusta
  • Menu
  • Categories
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
Start typing to see products you are looking for.