Rós ‘Aicha’ – Rosa ‘Aicha’
Sæmilega harðgerð runnarós. Hæð 1,5 – 2 m. Ekki sérlega þyrnótt. Greinar aðeins bogsveigðar með tímanum. Laufblöðin stakfjöðruð, dökk blágræn, og mött. Blómin eru stór, allt að 9 sm í þvermál, einföld – tvöfölld. Krónublöðin eru ljósgul. Fræflarnir dökkgulir. Blómbotninn áberandi rauðgulur. Sterkur og góður ilmur. Blómstrar síðsumars og fram á haust.
Eins og aðrar rósir er ‘Aicha’ sólelsk en þolir að vaxa í hálfskugga. Þrífst best í frjóum, vel framræstum jarðvegi á skjólgóðum stað. Blandið moltu eða stöðnu hrossataði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Þar sem ‘Aicha’ er yfirleitt seld ágrædd þarf að gróðursetja hana djúpt þannig að ágræðslustaðurinn sé um 10 sm undir jarðvegsyfirborðinu. Jarðvegurinn má gjarnan vera sand- og malarborinn. Hentar í beð með öðrum rósum, lágvöxnum runnum og jurtum. Millibil um eða yfir 1 m. Einnig er hægt að gróðursetja ‘Aicha’ við grind upp við vegg og rækta sem klifurrós.
‘Aicha’ er úr smiðju Valdemar Petersen, Kolding, Danmörku frá sjöunda áratug síðustu aldar. Foreldarar eru terósablendingurinn ‘Souvenir de Jack Verschuren’ og þyrnirósablendingurinn ‘Guldtop’. Rósaætt (Rosaceae).