Fjallaþinur – Abies lasiocarpa
Meðalstórt – stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt – blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó – meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga. Heimkynni: Fjalllendi í vestanverðri N-Ameríku.
Vörunr.
9ca84c89f189
Vöruflokkar: Hnausplöntur, Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Fjallagullregn – Laburnum alpinum
Harðgert, lágvaxið - meðalhátt tré (6 - 10 m). Gjarnan margstofna og umfangsmikið. Fjallagullregn er fremur hraðvaxta. Greinarnar vaxa gjarnan mest út til hliðanna. Þrífingrað lauf. Smáblöðin eru oddbaugótt eða egglaga, 3 - 10 sm á lengd. Hárlaus og aðeins gljáandi á efra borði. Hærð á jöðrum og á miðtaug á neðra borði. Laufgast ekki fyrr en í byrjun júní. Gulir haustlitir í lok september eða byrjun október eða frýs grænt. Gulir, ilmandi, drjúpandi blómklasar, 20 - 35 sm langir. Hvert blóm 0,5 - 2 sm á lengd. Byrjar að blómgast í lok júní eða byrjun júlí. "Baunabelgir" þroskast á haustin. Þeir eru flatir, hárlausir, 4 - 8 sm á lengd. Hver með nokkrum, dökkbrúnum fræum sem eru eitraðasti hluti trésins.
Sólelskt en þolir hálfskugga. Sómir sér vel stakstætt. Þarf talsvert pláss þegar fram líða stundir. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur og gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hann má þó ekki vera blautur. Sagt kjósa fremur súran jarðveg heldur en kalkríkan. Klippið og snyrtið gullregn á sumrin til að minnka líkur á átu. Með allra glæsilegustu trjám sem völ er á. Sáir sér gjarnan eitthvað út en ekki til ama. Eitrað sé þess neytt.
Fjallagullregn er all vind- og saltþolið og sleppur yfirleitt við vorhret þar sem það laufgast fremur seint. Vissara er að binda það vel upp til að byrja með. Það á síður við ef gróðursettar eru litlar plöntur og/eða margstofna. Fjallagullregnið okkar er vaxið upp af íslensku fræi. Það tekur plönturnar all nokkur ár að ná blómgunaraldri. Oft er það í kringum 10 ára aldurinn en stundum fyrr og stundum síðar á æviskeiðinu.
Heimkynni: Fjalllendi Mið- og S-Evrópu. Ertublómaætt (Fabaceae).
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Gömul tré hérlendis þroska stundum köngla. Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 3 m millibili. Úrvals jólatré enda barrheldið. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands. Blágreni þykir all gott timburtré og viðurinn sagður léttur en fremur sterkur. M.a. nýtt í ýmis hljóðfæri. Blágreni er fyrst og fremst háfjallatré. Heimkynni blágrenis eru aðallega í Klettafjöllum og Fossafjöllum (Cascade Range) N-Ameríku. Vex þar víða upp að skógarmörkum. Myndar blendinga með hvít- (P. glauca) og sitkagreni (P. sitchensis) í heimkynnum sínum þar sem útbreiðslusvæði þessara tegunda skarast.
Fjallareynir – Sorbus commixta
Harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré (3 - 6 m). Laufin stakfjöðruð. Smáblöðin 11 - 17 talsins, hvassydd. Áberandi eldrauðir haustlitir. Brum rauð og hárlaus. Hvítir blómsveipir fyrri part sumars. Rauðgul, fremur smá reyniber í klösum þroskast að hausti. Fjallareynir er glæsilegur stakur eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Kjörinn í sumarhúsalóðir. Fjallareynir er talsvert breytilegur enda fjölgar hann sér með kynæxlun og getur t.d. myndað kynblendinga með ilmreyni (S. aucuparia). Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst einnig vel í lúpínubreiðum. Allur fjallareynirinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Japan, Kína, Kórea og Sakalín.
Glæsiþinur – Abies fraseri
Sígrænt, keilulaga barrtré, frekar lágvaxið tré (5-8 m). Óvíst er þó hversu hátt það verður hérlendis í framtíðinni. Nálar mjúkar, fagurgrænar að ofan en ljósar að neðan. Könglar uppréttir. Ilmar. Þarf nokkurt skjól í uppvextinum. Nokkuð skuggþolinn. Vinsælt jólatré í N-Ameríku. Nýlegur í ræktun hérlendis en lofar góðu. Hentar í skjólgóða garða og inn í skóga/undir skermi. Ættaður frá Appalasíufjöllum í SA-Bandaríkjunum.
Alaskaepli – Malus fusca
Harðgert, fremur hægvaxta, lágvaxið tré eða runni (3 - 6 m). Laufin eru 5 - 8 sm á lengd egglaga eða sporöskjulaga. Óreglulega flipótt og sagtennt. Blómin hvít, ilmandi í sveipum fyrri part sumars. Aldinið lítið gulgrænt - rauðleitt, ætt epli á stærð við vínber. Þroskar yfirleitt aldin á hverju ári. Rauðir haustlitir. Þolir vel klippingu. Stundum ber á rótarskotum. Þrífst í allri venjulegri, rakaheldinni garðmold. Blandið moltu eða gömlum búfjáráburði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Alaskaepli fer vel stakstætt eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Alaskaepli hentar vel í klippt limgerði. Í limgerði er hæfilegt millibil um 70 sm. Greinar alaskaeplis eru harðar/stífar og dvergsprotar áberandi hvassir. Alaskaepli er harðgerðasta skrauteplið fyrir íslenskar aðstæður sem völ er á. Við framleiðum eingöngu alaskaepli af íslensku fræi. Aldin alaskaeplis má nýta í sultu- og hlaupgerð en þau eru rík af pektíni. Ekki er ósennilegt að alaskaepli nýtist sem frjógjafi fyrir matarepli (M. domestica) en erlendis er það þekkt að þar sem þessar tegundir vaxa saman mynda þær stundum blendinga (M. x dawsoniana). Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex það gjarnan í deiglendi og nálægt ströndinni.
Heggur – Prunus padus
Harðgert, lágvaxið - meðalhátt tré (5 - 10 m). Ein- eða margstofna. Stundum runni. Blómin hvít, ilmandi í klösum í maí - júní. Stundum þroskast svört ber (steinaldin)í gisnum klösum að hausti. Gulir - rauðgulir haustlitir. Heggur þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Heggur sómir sér vel stakur eða fleiri saman í þyrpingum og röðum. Tilvalinn í sumarhúsalandið. Þolir vel hálfskugga. Lágmarks-millibil: 2 m. Þolir vel klippingu en blómgast þá minna. Heggurinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Norður og M-Evrópu, Norður og NA-Asía.
Gljáhlynur – Acer glabrum var. douglasii
Fremur harðgert lágvaxið tré eða stór runni (3 - 6 m). Blöðin sepótt eða jafnvel fingruð. Gulir - rauðgulir haustlitir. Sprotar áberandi rauðir. Þolir hálfskugga. Gljáhlynur sómir sér vel stakstæður, í bland með öðrum trjágróðri eða blómgróðri. Gljáhlynur er með harðgerðustu hlyntegundum (Acer spp.) sem völ er á. Sprotarnir vilja þó trosna í vetrarstormum. Miklu fínlegri og nettari samanborði við garðahlyn (A. pseudoplatanus) en garðahlynur er algengasti hlynurinn hérlendis. Gljáhlynurinn okkar er allur vaxinn upp af íslensku fræi.
Gráreynir – Sorbus hybrida
Harðgert meðalstórt tré (5-12m). Stundum runni. Laufin með minnst tveimur smáblaða-pörum neðst. Hvítgráloðin á neðra borði. Blómin hvít í sveip í júní. Berin rauð í klösum í október. All vind- og saltþolinn. Ekki viðkvæmur fyrir reyniátu (Cytospora rubescens). Þrífst vel í venjulegri, vel framræstri garðmold. Gráreynir hentar sem stakstætt tré, í raðir/þyrpingar, í sumarhúsalóðir og jafnvel sem götutré. Millibil um 3-4 m. Gráreynirinn okkar er allur af íslensku fræi sem við tínum af fallegum móðurtrjám. Þar sem gráreynir er "apomictic" eru fræplönturnar með sama erfðamengi og móðurtréið.