Heggur ‘Laila’ – Prunus padus ssp. borealis ‘Laila’
Harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð 5 – 8 m. Blómin hvít, ilmandi í uppréttum klösum fyrri part sumars. Stundum sjást svört steinaldin/ber á haustin. Gulir haustlitir. Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Heggur ‘Laila’ hentar stakstæður, í trjá- og runnaþyrpingar og í sumarhúsalóðina. Millibil: 2 – 3 m. ‘Laila’ er sænskt, blómsælt úrvalsyrki ættað frá Kukkola við Torne-ánna í N-Svíþjóð.
Vörunr.
cb49b7a884fd
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Gömul tré hérlendis þroska stundum köngla. Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 3 m millibili. Úrvals jólatré enda barrheldið. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands. Blágreni þykir all gott timburtré og viðurinn sagður léttur en fremur sterkur. M.a. nýtt í ýmis hljóðfæri. Blágreni er fyrst og fremst háfjallatré. Heimkynni blágrenis eru aðallega í Klettafjöllum og Fossafjöllum (Cascade Range) N-Ameríku. Vex þar víða upp að skógarmörkum. Myndar blendinga með hvít- (P. glauca) og sitkagreni (P. sitchensis) í heimkynnum sínum þar sem útbreiðslusvæði þessara tegunda skarast.
Bergreynir – Sorbus x ambigua
Harðgert lítið tré eða all stór runni (2 - 5 m). Ýmist ein- eða margstofna. Lauf sporöskjulaga og sagtennt. Blómin eru rauðbleik í hálfsveip fyrri part sumars. Rauð ber í klösum í september. Rauðgulir haustlitir. Minnir mjög á úlfareyni (S. x hostii). Blöð bergreynis eru minna hærð og meira gljáandi samanborið við úlfareyni, einnig á neðra borði. Vindþolinn og trúlega saltþolinn einnig. Bergreyni sómir sér stakstæður, í beðum með öðrum gróðri, í raðir og þyrpingar. Mætti jafnvel nota í klippt limgerði. Tilvalinn í sumarhúsalóðina. Millibil 1,5 - 2 m. Í limgerði 50 - 100 sm. Byrjar ungur að blómgast og þroska ber, fyrr samanborið við úlfareyni. Bergreynir er náttúrulegur blendingur seljureynis (Sorbus aria) og blikreynis (S. chamaemespilus). Vex villtur í fjalllendi Mið - S-Evrópu. Íslenski stofninn er líklega allur kominn af tré/trjám í Grasagarði Rvk sem uxu upp af fræi frá Haute-Savoie í frönsku Ölpunum og sáð var til árið 1989.
Glæsiþinur – Abies fraseri
Sígrænt, keilulaga barrtré, frekar lágvaxið tré (5-8 m). Óvíst er þó hversu hátt það verður hérlendis í framtíðinni. Nálar mjúkar, fagurgrænar að ofan en ljósar að neðan. Könglar uppréttir. Ilmar. Þarf nokkurt skjól í uppvextinum. Nokkuð skuggþolinn. Vinsælt jólatré í N-Ameríku. Nýlegur í ræktun hérlendis en lofar góðu. Hentar í skjólgóða garða og inn í skóga/undir skermi. Ættaður frá Appalasíufjöllum í SA-Bandaríkjunum.
Broddhlynur – Acer platanoides
Sæmilega harðgert, meðalhátt - hávaxið tré. Blöðin stór, þunn, með löngum blaðstilk, gagnstæð, handsepótt. Skuggþolinn en skjólþurfi. Hentar eingöngu til ræktunar í grónum hverfum eða í skógarskjóli. Sómir sér best stakstæður. Gulir - rauður haustlitir. Verður gjarnan fyrir haustkali. Ekki eins harðgerður og garðahlynur (Acer pseudoplatanus). Blómin eru smá, gulleit í klösum. Blómstar fyrir laufgun. Horn á milli hnotvængja um 180 gráður. Bjóðum einnig upp broddhlyn með purpuralitum/bronslituðum laufum (sjá myndir).
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’, ‘Haukur’ og ‘Súla’
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk.
'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd).
Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.
Fjallagullregn – Laburnum alpinum
Harðgert, lágvaxið - meðalhátt tré (6 - 10 m). Gjarnan margstofna og umfangsmikið. Fjallagullregn er fremur hraðvaxta. Greinarnar vaxa gjarnan mest út til hliðanna. Þrífingrað lauf. Smáblöðin eru oddbaugótt eða egglaga, 3 - 10 sm á lengd. Hárlaus og aðeins gljáandi á efra borði. Hærð á jöðrum og á miðtaug á neðra borði. Laufgast ekki fyrr en í byrjun júní. Gulir haustlitir í lok september eða byrjun október eða frýs grænt. Gulir, ilmandi, drjúpandi blómklasar, 20 - 35 sm langir. Hvert blóm 0,5 - 2 sm á lengd. Byrjar að blómgast í lok júní eða byrjun júlí. "Baunabelgir" þroskast á haustin. Þeir eru flatir, hárlausir, 4 - 8 sm á lengd. Hver með nokkrum, dökkbrúnum fræum sem eru eitraðasti hluti trésins.
Sólelskt en þolir hálfskugga. Sómir sér vel stakstætt. Þarf talsvert pláss þegar fram líða stundir. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur og gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hann má þó ekki vera blautur. Sagt kjósa fremur súran jarðveg heldur en kalkríkan. Klippið og snyrtið gullregn á sumrin til að minnka líkur á átu. Með allra glæsilegustu trjám sem völ er á. Sáir sér gjarnan eitthvað út en ekki til ama. Eitrað sé þess neytt.
Fjallagullregn er all vind- og saltþolið og sleppur yfirleitt við vorhret þar sem það laufgast fremur seint. Vissara er að binda það vel upp til að byrja með. Það á síður við ef gróðursettar eru litlar plöntur og/eða margstofna. Fjallagullregnið okkar er vaxið upp af íslensku fræi. Það tekur plönturnar all nokkur ár að ná blómgunaraldri. Oft er það í kringum 10 ára aldurinn en stundum fyrr og stundum síðar á æviskeiðinu.
Heimkynni: Fjalllendi Mið- og S-Evrópu. Ertublómaætt (Fabaceae).
Döglingsþyrnir – Crataegus douglasii
Lítið tré eða runni (2-6 m). Þéttur. All harðgerður. Fremur hægvaxta. Laufið tvísagtennt, gljáandi. Rauðir haustlitir. Greinar þyrnóttar. Blómin hvít í sveip. Aldinið svart, ætt ber (kjarnaldin). Sólelskur en þolir hálfskugga. Döglingsþyrnir hentar sem stakstætt lítið tré, í þyrpingar með 2 m millibili eða í bland með öðrum runnum og jurtum. Hentar í klippt eða óklippt limgerði með um 0,7 - 1 m millibili. Hentar einnig í yndisskóga. Framleiðum eingöngu döglingsþyrni af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka, allt norður til Alaska.
Bergfura – Pinus uncinata
Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Könglar eru tvílitir, dekkri á jöðrum köngulhreisturs og minna á köngla fjallafuru en eru enn ljósari (sjá mynd). Bergfurukönglar eru kúptir að neðan en ekki sléttir eins og könglar fjallafuru. Könglar stafafuru eru aftur á móti einlitir, kanelbrúnir. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta. Heimkynni: Pýreneafjöll og V-Alparnir. Háfjallategund sem vex þar aðallega í 1000 - 2300 m.h.y.s. Finnst einnig lægra í frostpollum og barnamosamýrum. Þar sem útbreiðslusvæði berg- og fjallafuru skarast myndast gjarnan blendingar (Pinus x rotundata). Þessi blendingur virðist algengur hérlendis sem lýsir sér í fremur lágvöxnum, margstofna trjám eða stórum runnum upp á 4 - 7 m. Bergfura er stundum skilgreind sem undirtegund fjallafuru, Pinus mugo subsp. uncinata.