Japanselri / Fjallelri – Alnus maximowiczii
Harðgerður, stórvaxinn, sumargrænn runni eða lágvaxið tré. Ein- eða margstofna. Hæð 3 – 7 m. Börkur grár. Árssprotar og brum dökkbrún eða því sem næst svört. Laufin eru gljáandi, egglaga fín-sagtennt með hjartalaga grunni. Brúnleitir haustlitir eða frýs grænt. Blómstrar rétt fyrir laufgun í maí. Karlreklar aflangir, gulgrænir, drjúpandi og um 5 sm langir. Kvenreklar, smáir í fyrstu og rauðleitir. Að hausti líkjast kvenreklarnir litlum, könglum. Þeir eru um 2 sm á lengd, egglaga og grænir en brúnleitir fullþroska. Sitja á greinunum fram á vetur.
Sólelskt. Niturbindandi eins og aðrar tegundir elris. Gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Japanselri er enn tiltölulega sjaldgæft en hefur hingað til reynst harðgert.
Japanselri hentar í runnaþyrpingar, skjólbelti og þess háttar. Millibil 1,5 m.
Heimkynni: Til fjalla í mið- og N-Japan, Kóreu og A-Rússlandi. Japanselrið sem er í ræktun hérlendis mun allt vera ættað frá Hokkaido, Japan. Var það Ólafur S. Njálsson sem safnaði þar fræi og kom með til landins árið 1996. Okkar plöntur eru ræktaðar upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis. Líklegt er að japanselri myndi kynblendinga með öðrum elritegundum sem hér vaxa.