Dröfnusteinbrjótur – Saxifraga rotundifolia
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 30 – 50 sm. Laufblöðin eru nær kringlótt eða nýrlaga, bogtennt, með all langan blaðstilk. Laufið er hálf sígrænt. Blómin eru smá, stjörnulaga og mörg saman á greinóttum, fínlegum blómstilkum og ná vel upp fyrir blaðbreiðuna. Blómin eru hvít með rauðum dröfnum. Blómgast í júlí.
Dröfnusteinbrjótur er fremur skuggþolinn. Þrífst best í rakaheldnum jarðvegi. Hentar í steinhæðir og hleðslur þar sem jarðvegur er ekki of þurr. Einnig sem þekju- og kantplanta.
Heimkynni dröfnusteinbrjóts eru í fjöllum Mið- og S-Evrópu þ.e.a.s. á Íberíuskaga, Ölpunum og Balkanskaga. Steinbrjótsætt (Saxifragaceae).
Vöruflokkur: Fjölærar jurtir
Tengdar plöntur
Postulínsblóm / Skuggasteinbrjótur – Saxifraga x urbium
Harðgerð, lágvaxin fjölær jurt. Hæð 15 - 30 sm. Laufblöðin sitja í jarðlægum hvirfingum sem smám saman bætist við. Blöðin leðurkennd, hálfsígræn, stilkuð, spaðalaga eða öfugegglaga og bogtennt. Blómin smá, stjörnulaga, fölbleik, mörg saman í uppréttum, gisnum klösum. Blómstilkar rauðleitir.
Postulínsblóm er skuggþolið. Hentar í hleðslur, steinhæðir og ker. Prýðis þekju- og kantplanta. Þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Þarf ekki djúpan jarðveg. Vinsælt og algengt í görðum hérlendis.
Yrkið 'Aureopunctata' hefur gulflekkótt laufblöð. Eigum það gjarnan til og er það ekki síður harðgert.
Postulínsblóm er talið vera garðablendingur á milli hins eiginlega skuggasteinbrjóts (Saxifraga umbrosa) og spaðasteinbrjóts (S. spathularis). Steinbrjótsætt (Saxifragaceae).
Sæhvönn – Ligusticum scoticum
Harðgerð, íslensk jurt. Hæð um 40 - 60 sm. Vex villt við ströndina, aðallega í sjávarhömrum, eyjum og þess háttar. Algengust á sunnan- og vestanlands. Lauf þrífingruð og gljáandi. Hvítir blómsveipir birtast á miðju sumri. Aldin brúnleit. Sæhvönn er æt. Blöðin bragðast ekki ósvipað og steinselju eða selleríi og fræið eins og broddkúmen eða bukkasmári (fenugreek). Blöðin eru best til átu fyrir blómgun. Mjög saltþolin. Þolir illa beit. Heimkynni: Auk Íslands, strandsvæði NA-Ameríka og N-Evrópu.
Fjallasveipur – Adenostyles alliariae
Harðgerð, stórvaxin jurt. Hæð í kringum 1,5 m. Blómin smá, lillablá, mörg saman í all stórum sveipum. Blómgast miðsumars (júlí og fram í ágúst). Þolir vel hálf skugga. Þrífst best í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Fjallasveipur hentar aftarlega í blómabeð. Þarf yfirleitt ekki uppbindingu. Millibil allt að 1 m. Heimkynni: Fjalllendi M-Evrópu.