Ryðelri / Ryðölur – Alnus rubra – íslensk kvæmi
Harðgert, hraðvaxta, einstofna, meðalstór – stórvaxið tré (10 m). Lágvaxnara og runnkendara við erfið skilyrði. Rauðleitir karlreklar vaxa fram snemma vors (mars / apríl). Kvenreklar brúnir. Minna á litla köngla. Börkur grár með ljósum þverrákum. Gjarnan ber á uppblásnum trjákvoðu-bólum á berki. Sólelskt en gerir litlar kröfur til jarðvegs. Vex eins og annað elri í sambýli við niturbindandi bakteríur. Rótarskot engin eða lítið áberandi. Ryðelri hentar stakstætt, í raðir / þyrpingar með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Hentar einnig til skógræktar. Nýlegur í ræktun en lofar mjög góðu. Hugsanlega hentugur sem götutré.
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Súlueik – Quercus robur ‘Fastigiata’
Fremur viðkvæmt tré hérlendis. Krónan mjóslegin. Laufgast upp úr miðjum júní. Frýs yfirleitt græn en stundum sjást gulir/gulbrúnir haustlitir. Fremur hægvaxta. Þrífst eingöngu í grónum görðum þar sem er skjólsælt. Sólelsk en þolir hálfskugga. Jarðvegurinn þarf að vera frjór og rakaheldinn. Óvíst er hversu hávaxin súleikin getur orðið hérlendis en reikna má með 6 - 7 m á allra bestu stöðum á löngum tíma.
Fjallareynir – Sorbus commixta
Harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré (3 - 6 m). Laufin stakfjöðruð. Smáblöðin hvassydd. Áberandi eldrauðir haustlitir. Brum rauð og hárlaus. Hvítir blómsveipir fyrri part sumars. Rauðgul, fremur smá reyniber í klösum þroskast að hausti. Fjallareynir er glæsilegur stakur eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Kjörinn í sumarhúsalóðir. Fjallareynir er talsvert breytilegur enda fjölgar hann sér með kynæxlun og getur t.d. myndað kynblendinga með ilmreyni (S. aucuparia). Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst einnig vel í lúpínubreiðum. Allur fjallareynirinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis.
Fjallaþinur – Abies lasiocarpa – íslensk kvæmi
Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga.
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’ og fleiri yrki
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk. 'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd). Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m.
Hjartatré – Cercidiphyllum japonicum
Fremur lítið tré hérlendis (3 - 6 m). Stundum runni. Þarf skjólgóðan og sólríkan stað til að þrífast. Þrífst í venjulegri garðmold. Laufið hjartalaga og rauðleitt fyrst á vorin og á vaxandi sprotum. Haustlitir bleikir. Karamelluilm leggur af laufinu á haustin. Blóm ekki áberandi og sjást sjaldan hérlendis. Sérbýlt. Þolir hálfskugga. Heppilegt og fallegt garðtré í skjólgóðum hverfum. Hætt við haustkali. Heimkynni: Kína og Japan.
Rósareynir – Sorbus rosea
All harðgerður hávaxinn runni eða lágvaxið tré (2,5 - 5 m). Blöðin stakfjöðruð, mött. Rauðgulir haustlitir. Fölbleik blóm í sveipum birtast fyrri part sumars. Fremur stór, bleik/rósrauð reyniber í klösum þroskast á haustin. Þolir hálfskugga. Rósareynir sómir sér vel stakur eða í bland með öðrum runnum. Fremur nýlegur í ræktun hérlendis. Minnir í útliti á kasmírreyni (S. cashmiriana).
Sitkagreni – Picea sitchensis
Mjög harðgert, stórvaxið sígrænt barrtré. Hraðvaxta. Vind- og saltþolið. Þolir vel klippingu. Þrífst best í brekkum þar sem er að finna ferskan jarðraka og jarðvegur er nokkur frjór. Könglar í fyrstu rauðleitir, seinna ljósbrúnir, pappírskenndir og meðalstórir. Forðist að planta í frostpolla. Sumt af því sem kallað er sitkagreni kann að vera sitkabastarður / hvítsitkagreni (Picea x lutzii). Sitkagreni / sitkabastarður er lang algengasta grenið hérlendis. Sitkagreni er glæsilegt stakstætt, fer vel í röðum og þyrpingum. Einnig kjörið í skjólbelti og jafnvel klippt limgerði. Þó eru ekki öll sveitarfélög sem leyfa gróðursetningu sitkagrenis á lóðarmörkum (sjá byggingareglugerð) enda verður sitkagreni mjög stórvaxið með tímanum. Eitt mest notaða tré í skógrækt hérlendis enda harðgert og gott timburtré. Lang besta sígræna tréið til ræktunar við sjávarsíðuna eins og t.d. á Reykjanesi. Sitkagreni gerir kröfur um frjósemi jarðvegs svo setjið vel af moltu eða búfjáráburði við gróðursetningu. Þegar skógarplöntur eru gróðursettar skal setja nokkur korn af tilbúnum áburði með. Hæstu tré hérlendis eru sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri, rúmir 25 m (2019). Við framleiðum eingöngu sitkagreni af íslensku fræi.