Prestabrá – Leucanthemum maximum
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 70 – 90 sm. Laufblöð fremur þykk, aflöng, öfuglensulaga – langlensulaga og gróftennt. Blómkörfurnar stakar á stöngulendum, stórar með hvítar tungukrónur og gular pípukrónur. Minna á blóm baldursbrár en stærri. Blómgast í ágúst og september. Blómsæl.
Prestabrá þrífst best í frjórri og rakaheldinni garðmold. Sólelsk en þolir hálfskugga. Sæmilega vindþolin. Prestabrá hentar í beð með öðrum fjölæringum. Hæfilegt millibil við gróðursetningu er um 50 sm. Vekur athygli þegar hún blómstrar með sín stóru blóm síðsumars og fram á haust.
Heimkynni: Pýreneafjöll. Körfublómaætt (Asteraceae).
Vöruflokkur: Fjölærar jurtir
Tengdar plöntur
Sæhvönn – Ligusticum scoticum
Harðgerð, íslensk jurt. Hæð um 40 - 60 sm. Vex villt við ströndina, aðallega í sjávarhömrum, eyjum og þess háttar. Algengust á sunnan- og vestanlands. Lauf þrífingruð og gljáandi. Hvítir blómsveipir birtast á miðju sumri. Aldin brúnleit. Sæhvönn er æt. Blöðin bragðast ekki ósvipað og steinselju eða selleríi og fræið eins og broddkúmen eða bukkasmári (fenugreek). Blöðin eru best til átu fyrir blómgun. Mjög saltþolin. Þolir illa beit. Heimkynni: Auk Íslands, strandsvæði NA-Ameríka og N-Evrópu.
Álfakollur – Betonica macrantha
Harðgerð, meðalhá, fjölær jurt. Hæð um 50 sm. Laufblöðin eru egglaga til hjartalaga og bogtennt. Blómin fjólublá í krönsum í júlí til ágúst. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Breiðir smám saman úr sér. Álfakollur fer vel í blönduðum beðum með öðrum fjölærum jurtum eða margir saman í breiðum. Millibil við gróðursetningu um 70 sm. Getur einnig vaxið hálfvilltur við litla umhirðu í frjóu landi. Eldra og þekktara fræðiheiti er Stachys macrantha. Heimkynni: Kákasus, NA-Tyrkland og NV-Íran.
Lundahæra – Luzula sylvatica
All harðgerð, sígræn, fjölær, graskennd jurt. Hæð: 30 - 70 sm. Laufið gljáandi. Hært á blaðjöðrum. Blómhnoð í smáum klösum sem standa upp úr blaðbreiðunni, brún en ekki áberandi. Lundahæra er all skuggþolin. Hentar sem þekjandi undirgróður undir trjám og runnum, í beðjöðrum, við tjarnir og læki. Breiðist rólega út. Þrífst vel í rökum - meðalrökum jarðvegi. Þolin gagnvart breytilegu sýrustigi jarðvegs þó hún vaxi venjulega villt í súrum jarðvegi. Heimkynni Evrópa og SV-Asía.
Höfuðklukka – Campanula glomerata
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð um 40 - 60 sm. Blómin dökk-fjólublá mörg saman í kúlulaga blómskipun. Blómgast í júlí og ágúst. Höfuðklukka er talsvert skriðul. Þolir vel samkeppni við ýmsar ágengar tegundir þ.m.t. gras. Þolir hálfskugga. Höfuðklukka fer vel í blönduðum blóma- og runnabeðum. Hentar einnig í villagarða og sumarhúsalóðir. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst ekki í bleytu eða súrum jarðvegi. Blöð og blóm eru sögð æt og má nota t.d. í salat. Heimkynni: Evrasía, allt frá Bretlandseyjum austur til Japan.
Regnhlífarblóm / Skjaldsteinbrjótur – Darmera peltata
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 1,5 m. Blómgast fyrir laufgun í maí. Blómin eru ljósrauð í hvelfdum sveip á allt að 1,5 m háum blómstöngli. Blöðin eru fremur stór, gljáandi, skjaldlaga og birtast eftir blómgun í júní. Rauðir haustlitir. Þrífst best í rökum og frjóum jarðvegi t.d. við læki og tjarnir. Skuggþolið. Dreifir sér rólega út með neðanjarðarrenglum. Regnhlífarblóm er ættað frá Óregon og Kaliforníu. Fremur sjaldgæft hérlendis.
Postulínsblóm / Skuggasteinbrjótur – Saxifraga x urbium
Harðgerð, lágvaxin fjölær jurt. Hæð 15 - 30 sm. Laufblöðin sitja í jarðlægum hvirfingum sem smám saman bætist við. Blöðin leðurkennd, hálfsígræn, stilkuð, spaðalaga eða öfugegglaga og bogtennt. Blómin smá, stjörnulaga, fölbleik, mörg saman í uppréttum, gisnum klösum. Blómstilkar rauðleitir.
Postulínsblóm er skuggþolið. Hentar í hleðslur, steinhæðir og ker. Prýðis þekju- og kantplanta. Þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Þarf ekki djúpan jarðveg. Vinsælt og algengt í görðum hérlendis.
Yrkið 'Aureopunctata' hefur gulflekkótt laufblöð. Eigum það gjarnan til og er það ekki síður harðgert.
Postulínsblóm er talið vera garðablendingur á milli hins eiginlega skuggasteinbrjóts (Saxifraga umbrosa) og spaðasteinbrjóts (S. spathularis). Steinbrjótsætt (Saxifragaceae).