Prestabrá – Leucanthemum maximum
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 70 – 90 sm. Laufblöð fremur þykk, aflöng, öfuglensulaga – langlensulaga og gróftennt. Blómkörfurnar stakar á stöngulendum, stórar með hvítar tungukrónur og gular pípukrónur. Minna á blóm baldursbrár en stærri. Blómgast í ágúst og september. Blómsæl.
Prestabrá þrífst best í frjórri og rakaheldinni garðmold. Sólelsk en þolir hálfskugga. Sæmilega vindþolin. Prestabrá hentar í beð með öðrum fjölæringum. Hæfilegt millibil við gróðursetningu er um 50 sm. Vekur athygli þegar hún blómstrar með sín stóru blóm síðsumars og fram á haust.
Heimkynni: Pýreneafjöll. Körfublómaætt (Asteraceae).
Vöruflokkur: Fjölærar jurtir
Tengdar plöntur
Höfuðklukka – Campanula glomerata
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð um 40 - 60 sm. Blómin dökk-fjólublá mörg saman í kúlulaga blómskipun. Blómgast í júlí og ágúst. Höfuðklukka er talsvert skriðul. Þolir vel samkeppni við ýmsar ágengar tegundir þ.m.t. gras. Þolir hálfskugga. Höfuðklukka fer vel í blönduðum blóma- og runnabeðum. Hentar einnig í villagarða og sumarhúsalóðir. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst ekki í bleytu eða súrum jarðvegi. Blöð og blóm eru sögð æt og má nota t.d. í salat. Heimkynni: Evrasía, allt frá Bretlandseyjum austur til Japan.
Friggjarlykill – Primula florindae
Harðgerð fjölær jurt. Hæð 50 - 80 sm. Blómin oftast gul, drjúpandi, mörg saman á stönglum sem vaxa upp fyrir blaðhvirfinguna. Blómin ilma. Vex best í rökum, frjósömum jarðvegi. Heimkynni SA-Tíbet. Barst fyrst til V-Evrópu árið 1924 með breska grasafræðingnum Frank Kingdon-Ward sem nefndi jurtina í höfuðið á eiginkonu sinni Florinda.
Valurt – Symphytum officinale
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 60 - 100 sm. Stundum hærri. Stofnlauf stór, egglaga - lensulaga, langydd og með blaðstilk. Stöngulblöð aflöng - lensulaga og stilklaus. Stöngull hærður og vængjaður. Blómin sitja nokkur saman í kvíslskúf. Blómin fjólublá eða purpurarauð. Blómgast í júlí - ágúst. Valurt þrífst best í sæmilega rökum jarðvegi. Þolir nokkurn skugga. Hentar t.d. aftarlega í blómbeð, í villigarða og sem undirgróður undir stærri tré. Vex sums staðar sem slæðingur utan garða hérlendis. Valurt er gömul lækningajurt og þótti sérstaklega græðandi. Í dag er almennt varað við inntöku og annarri notkun valurtar vegna hættu á lifrarskemmdum. Heimkynni: Víða í Evrópu, V-Asíu á rökum svæðum.
Fjallasveipur – Adenostyles alliariae
Harðgerð, stórvaxin jurt. Hæð í kringum 1,5 m. Blómin smá, lillablá, mörg saman í all stórum sveipum. Blómgast miðsumars (júlí og fram í ágúst). Þolir vel hálf skugga. Þrífst best í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Fjallasveipur hentar aftarlega í blómabeð. Þarf yfirleitt ekki uppbindingu. Millibil allt að 1 m. Heimkynni: Fjalllendi M-Evrópu.
Krosshnappur – Glechoma hederacea
Harðgerð, jarðlæg fjölær, sígræn, þekjandi jurt. Laufið gjarnan rauðbrúnleitt. Laufið er ætt. Blómin fjólublá miðsumars. Þolir hálfskugga. Ilmandi. Þrífst best í frjóum, niturríkum, sæmilega rökum jarðvegi. Hentar sem þekjuplanta t.d. undir trjám, í ker og potta og þess háttar. Dreifir sér með jarðstönglum. Heimkynni: Evrasía.