Rökkursteinbrjótur – Saxifraga cuneifolia
Harðgerð, lágvaxin, sígræn, fjölær jurt. Hæð 8 – 20 sm. Laufblöðin sitja í hvirfingum. Sprotar eru jarðlægir og bætast við nýjar blaðhvirfingar út frá þeim eldri. Myndar með tímanum þéttar breiður þar sem aðstæður leyfa. Laufblöðin eru fleyglaga, breið-egglaga eða því sem næst kringlótt. Þverstýfð í endann. Gjarnan tennt í efri hluta blöðkunnar. Blómsönglar rauðleitir og vaxa vel upp fyrir blaðbreiðuna. Bera nokkur eða all mörg, smá, hvít blóm stundum með gulum eða rauðleitum dröfnum. Blómgast í júní – júlí. Líkist smágerðu postulínsblómi (Saxifraga x urbium).
Rökkursteinbrjótur er skuggþolinn eins og nafnið gefur til kynna. Þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Jarðvegurinn þarf ekki að vera djúpur. Hentar í beðkanta, hleðslur, ker, potta og sem undirgróður. Þar sem rökkursteinbrjótur er mjög lágvaxinn getur hann ekki keppt við hávaxið, ágengt illgresi.
Heimkynni: Fjalllendi Mið- og S-Evrópu. Steinbrjótsætt (Saxifragaceae).