Sitkavíðir ‘Þruma’ – Salix sitchensis ‘Þruma’
Harðgerður, sumargrænn runni. Hæð 3 – 5 m. Greinar grábrúnar. Árssprotar frekar grannir, rauðbrúnir. Efri hluti þeirra er hærður. Brum rauðbrún, útstæð. Laufblöðin eru mjóöfugegglaga – öfuglenslulaga, meira og minna heilrend og gráleit. Gishært að ofan og silkihært á neðra borði. Nýtt lauf gjarnan rauðbrúnleitt. Gulur haustlitur.
Sitkavíðir ‘Þruma’ er vindþolin. Sólelsk. Hún er laus við asparglyttu sem er mikill kostur. Þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi sem gjarnan má vera sendinn og malarborinn. Blandið moltu eða hrossataði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Sitkavíðir ‘Þruma’ hentar í klippt limgerði og skjólbelti. Hæfilegt er að setja 2 – 3 plöntur/m. Klippið ‘Þrumu’ alla vega einu sinni á ári. Heppilegur tími til klippingar er seinni part vetrar.
‘Þruma’ er úrvalsyrki úr efniviðnum sem barst hingað úr Alaskaferð Óla Vals og félaga haustið 1985. Nánar tiltekið er ‘Þruma’ ættuð frá grifjum/námum við Kopará austan við Cordova í S-Alaska. Víðisætt (Salicaceae).