• Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
Gróðrarstöð Gróðrarstöð
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
Search
Menu
Gróðrarstöð Gróðrarstöð
Stækka mynd
Heim Runnar Baunatré – Caragana arborescens
Skrautreynir - Sorbus decora
Back to products
Bjarmasýrena 'Valkyrja' - Syringa wolfii 'Valkyrja'

Baunatré – Caragana arborescens

Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 – 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum „síberískt baunatré“ og „kergi“. Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.

Vörunr. abffeba7821f Vöruflokkar: Plöntur í limgerði/hekk, Runnar, Tré, Tré og runnar í pottum
Share:

Tengdar plöntur

Gráreynir – Sorbus hybrida

Harðgert meðalstórt tré (5-12m). Stundum runni. Laufin með minnst tveimur smáblaða-pörum neðst. Hvítgráloðin á neðra borði. Blómin hvít í sveip í júní. Berin rauð í klösum í október. All vind- og saltþolinn. Ekki viðkvæmur fyrir reyniátu (Cytospora rubescens). Þrífst vel í venjulegri, vel framræstri garðmold. Gráreynir hentar sem stakstætt tré, í raðir/þyrpingar, í sumarhúsalóðir og jafnvel sem götutré. Millibil um 3-4 m. Gráreynirinn okkar er allur af íslensku fræi sem við tínum af fallegum móðurtrjám. Þar sem gráreynir er "apomictic" eru fræplönturnar með sama erfðamengi og móðurtréið.

Evrópulerki – Larix decidua

Alla jafna harðgert, hávaxið sumargrænt, einstofna barrtré. Hæð 10 - 20 m hérlendis. Getur sjálfsagt orðið enn hærra á góðum stöðum með tímanum. Krónan breiðkeilulaga eða óregluleg. Greinar gjarnan uppsveigðar í endann með hangandi smágreinum. Árssprotar eru gulbrúnir og hárlausir. Börkur á yngri trjám grábrúnleitur. Eftir því sem tréin eldast ber gjarnan á stálbláum lit á berki neðst á trjánum. Á eldri trjám er börkurinn rauðbrúnn, sprunginn og flögóttur. Nálar eru 2 - 4 sm á lengd. Stakar og skrúfstæðar á langsprotum. Á dvergsprotum sitja þær 30 - 40 talsins saman í knippi. Þær eru stinnari samanborið við nálar síberíulerkis/rússalerkis (Larix sibirica).  Gulir haustlitir í október. Kvenblóm rauð um 1,5 sm á lengd. Könglar egglaga - keilulaga, 2 - 6 sm á lengd og 2 - 2,5 sm á breidd fullþroska. Köngulhreistrið er beint og ávallt í endann. Stundum er það aðeins innsveigt. Könglarnir verða síðan dökkgráir og sitja áfram á trjánum í einhver ár. Lítið ber á hæringu á köngulhreistrinu nema kannski neðst á könglunum ólíkt hærðu köngulhreistri síberíulerkis. Hreisturblöðkurnar sjást neðst á könglunum. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Þrífst þó ekki í blautum jarðvegi. Sólelskt. All vindþolið. Laufgast seinna samanborið við síberíulerki og verður því sjaldnast fyrir skemmdum á vorin. Getur orðið fyrir haustkali og þess vegna orðið kræklótt. Varpar ekki miklum skugga. Reynist almennt betur í lágsveitum sunnan- og vestanlands samanborið við síberíulerki. Evrópulerki hentar sem stakstætt tré eða í raðir/þyrpingar með 3-4 m millibili. Hentar einnig til skógræktar. Evrópulerkið okkar er gjarnan vaxið upp af íslensku fræi. Heimkynni: Alpafjöll og Karpatafjöll í Evrópu. Afbrigðið L. decidua var. polonica vex á nokkrum aðgreindum svæðum í N- og Mið-Póllandi. Þallarætt (Pinaceae).

Hengibaunatré ‘Pendula’ – Caragana arborescens ‘Pendula’

Harðgert, ágrætt, sumargrænt, einstofna smátré. Hæð: 1,5 - 2,0 m yfirleitt en það fer eftir hæð ágræðslunnar. Laufið fínlegt, fjaðrað. Nánast hvítt þegar það springur út á vorin, síðar ljósgrænt. Gul baunablóm birtast miðsumars. Baunabelgir þroskast að hausti. Sólelskt. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur. Gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hentar stakstætt, innan um lægri gróður, framan við hús og í ker/potta. Hengibaunatré er ágrætt efst á stofn af venjulegu baunatré sem vaxið er upp af fræi. Fjarlægið því rótarskot, stofnskot og sprota upp eftir stofninum að ágræðslunni um leið og þeir myndast annars munu þeir yfirtaka hangandi hlutann.

Birki / Ilmbjörk – Betula pubescens

Harðgert íslenskt tré. Hæð breytileg. Sólelskt. Í meðallagi hraðvaxið. Þrífst best í frjóum jarðvegi en annars nægjusamt. Getur lifað í all blautum jarðvegi. Lauf ilmar, sérstaklega á vorin í röku veðri. Haustlitur á ekta ilmbjörk er gulur. Eina trjátegundin sem myndað hefur skóga hérlendis frá því að síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Myndar gjarnan blendinga með fjalldrapa (B. nana). Blendingurinn kallast skógviðarbróðir og er misstór runni en ekki tré og mjög algengur í íslenskri náttúru, sérstaklega vestanlands. Skógviðarbróðir hefur yfirleitt dökkan / svartan börk, smágert lauf og rauðgulan haustlit. Birki hentar sem stakstætt tré eða fleiri saman í þyrpingum og röðum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Einnig notað til skógræktar og uppgræðslu. Vex þó hægt í ófrjóu landi. Birki hentar einnig í klippt limgerði á sólríkum stöðum. Upp á síðkastið hafa nýjar tegundir skordýra sem herja á birki numið land. Birkið okkar í Þöll er af Bæjarstaða-uppruna. Móðurtréin eru af yrkinu 'Embla'. Því fá tréin venjulega ljósan börk með aldrinum. Náttúruleg heimkynni imbjarkar eru auk Íslands mestur hluti Evrópu nema syðst, Norður og Mið-Asía og S-Grænland.

Fjallagullregn – Laburnum alpinum

Harðgert, lágvaxið - meðalhátt tré (6 - 10 m). Gjarnan margstofna og umfangsmikið. Fjallagullregn er fremur hraðvaxta. Greinarnar vaxa gjarnan mest út til hliðanna. Þrífingrað lauf. Smáblöðin eru oddbaugótt eða egglaga, 3 - 10 sm á lengd. Hárlaus og aðeins gljáandi á efra borði. Hærð á jöðrum og á miðtaug á neðra borði. Laufgast ekki fyrr en í byrjun júní. Gulir haustlitir í lok september eða byrjun október eða frýs grænt. Gulir, ilmandi, drjúpandi blómklasar, 20 - 35 sm langir. Hvert blóm 0,5 - 2 sm á lengd. Byrjar að blómgast í lok júní eða byrjun júlí. "Baunabelgir" þroskast á haustin. Þeir eru flatir, hárlausir, 4 - 8 sm á lengd. Hver með nokkrum, dökkbrúnum fræum sem eru eitraðasti hluti trésins. Sólelskt en þolir hálfskugga. Sómir sér vel stakstætt. Þarf talsvert pláss þegar fram líða stundir. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur og gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hann má þó ekki vera blautur. Sagt kjósa fremur súran jarðveg heldur en kalkríkan. Klippið og snyrtið gullregn á sumrin til að minnka líkur á átu. Með allra glæsilegustu trjám sem völ er á. Sáir sér gjarnan eitthvað út en ekki til ama. Eitrað sé þess neytt. Fjallagullregn er all vind- og saltþolið og sleppur yfirleitt við vorhret þar sem það laufgast fremur seint. Vissara er að binda það vel upp til að byrja með. Það á síður við ef gróðursettar eru litlar plöntur og/eða margstofna. Fjallagullregnið okkar er vaxið upp af íslensku fræi. Það tekur plönturnar all nokkur ár að ná blómgunaraldri. Oft er það í kringum 10 ára aldurinn en stundum fyrr og stundum síðar á æviskeiðinu. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og S-Evrópu. Ertublómaætt (Fabaceae).

Broddhlynur – Acer platanoides

Sæmilega harðgert, meðalhátt - hávaxið tré. Blöðin stór, þunn, með löngum blaðstilk, gagnstæð, handsepótt. Skuggþolinn en skjólþurfi. Hentar eingöngu til ræktunar í grónum hverfum eða í skógarskjóli. Sómir sér best stakstæður. Gulir - rauður haustlitir. Verður gjarnan fyrir haustkali. Ekki eins harðgerður og garðahlynur (Acer pseudoplatanus). Blómin eru smá, gulleit í klösum. Blómstar fyrir laufgun. Horn á milli hnotvængja um 180 gráður. Bjóðum einnig upp broddhlyn með purpuralitum/bronslituðum laufum (sjá myndir).

Fjallaþinur – Abies lasiocarpa

Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga. Heimkynni: Fjalllendi í vestanverðri N-Ameríku.

Askur – Fraxinus excelsior

Í meðallagi hávaxið tré hérlendis. Blöðin stór, stakfjöðruð. Laufgast í júní. Gulir haustlitir. Svört, fremur stór, gagnstæð brum. Börkur ljósgrár. Hefur blómgast og þroskað fræ hérlendis. Þarf þokkalegt skjól í uppvextinum og frjósaman jarðveg. Þolir hálfskugga. Fer vel stakstæður eða fleiri saman þar sem pláss er nóg. Bil þarf að lágmarki að vera 4 m. Í skógrækt borgar sig að gróðursetja ask undir skerm en lauf asks þola alls ekki að frjósa. Fremur skuggþolinn í æsku. Þarf frjósaman, framræstan jarðveg sem er ekki súr. Hentar eingöngu til gróðursetningar í skógarskjóli eða grónum hverfum. Heimkynni: Stór hluti Evrópu, þó ekki allra nyrst, austur til Kákasus og Alborz fjalla.
Kaldárselsvegi. Hafnarfirði
555 6455
skoghf@simnet.is
Tenglar
  • Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
  • Plöntuleit
  • Skógræktarfélag Íslands
  • Yndisgróður
  • Lystigarður Akureyrar
  • Sumarhúsið og garðurinn
  • Grasagarður Reykjavíkur
  • Garðaflóra
  • Garðyrkjufélag Íslands
Plöntuleit
  • Tré
  • Runnar
  • Skógarplöntur
  • Ávaxtatré og berjarunnar
  • Tré og runnar í pottum
  • Klifurrunnar
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar 2021
Hönnun: Veftorg vefþjónusta
  • Menu
  • Categories
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
Start typing to see products you are looking for.