Gotareynir – Sorbus teodorii
Sumargrænt tré eða runni. Hæð um eða yfir 2 m. Laufblöðin eru fjöðruð og er endasmáblaðið stærra og þrískipt. Rauðgulir haustlitir. Blómin eru smá, mörg saman, gulhvít í hálfsveip. Berin eru rauð fullþroska á haustin. Gotareynir er „apomictic“ smátegund þ.e.a.s. að hann myndar fræ án undangenginnar æxlunar / frjóvgunar.
Mjög sjaldgæfur hérlendis en virðist harðgerður. Trúlega sæmilega vind- og saltþolinn. Óvíst er hversu hávaxinn gotareynir getur orðið hérlendis. Hentar í garða og sumarhúsalóðir til að auka fjölbreyttnina. Millibil að minnsta kosti 2 m.
Heimkynni: Gotland, Suðurmannaland og Uppland í Svíþjóð. Álandseyjar, Finnlandi og Staldzene, Lettlandi. Rósaætt (Rosaceae).
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Bergfura – Pinus uncinata
Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Könglar eru tvílitir, dekkri á jöðrum köngulhreisturs og minna á köngla fjallafuru en eru enn ljósari (sjá mynd). Bergfurukönglar eru kúptir að neðan en ekki sléttir eins og könglar fjallafuru. Könglar stafafuru eru aftur á móti einlitir, kanelbrúnir. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta. Heimkynni: Pýreneafjöll og V-Alparnir. Háfjallategund sem vex þar aðallega í 1000 - 2300 m.h.y.s. Finnst einnig lægra í frostpollum og barnamosamýrum. Þar sem útbreiðslusvæði berg- og fjallafuru skarast myndast gjarnan blendingar (Pinus x rotundata). Þessi blendingur virðist algengur hérlendis sem lýsir sér í fremur lágvöxnum, margstofna trjám eða stórum runnum upp á 4 - 7 m. Bergfura er stundum skilgreind sem undirtegund fjallafuru, Pinus mugo subsp. uncinata.
Evrópuþinur -Abies alba
Sæmilega harðgert, sígrænt barrtré. Óvíst er hversu hávaxinn evrópuþinur getur orðið hérlendis en reikna má með afmarkað 10 - 15 m hæð á góðum stöðum. Nálarnar eru flatar, 1,8 - 3 sm á lengd og 2 mm á breidd. Dökkgrænar og gljáandi á efra borði en að neðan með tvær ljósar loftaugarákir. Nálarendinn aðeins sýldur. Nálarnar liggja meira og minna láréttar út frá greinum/sprotum. Það er þó ekki algillt og fer eftir kvæmum/undirtegundum. Könglarnir eru 9 - 17 sm langir og 3 - 4 sm breiðir með 150 - 200 hreisturblöð. Hreisturblaðka sýnileg. Könglarnir molna í sundur þegar þeir eru fullþroska. Fræið er vængjað. Viðurinn er hvítur og er fræðiheiti tegundarinnar "alba" dregið af því.
Evrópuþinur hentar stakstæður í skjóli. Einnig fleiri saman með um 3 m millibili. Þrífst í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Evrópuþinur er sjaldgæfur hérlendis og reynsla því takmörkuð. Virðist þrífast vel í skógarskjóli. Erlendis m.a. nýttur sem jólatré en einnig sem timburtré. Í sínum heimkynnum vex hann til fjalla aðallega í norðurhlíðum með meðalársúrkomu yfir 1.500 mm.
Náttúruleg heimkynni eru fjalllendi í Mið- og S-Evrópu. Víða hálfvilltur norðar í álfunni. Þallarætt (Pinaceae).
Lensuvíðir ‘Ljómi’ – Salix lasiandra ‘Ljómi’
All harðgerður stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 6 m). Árssprotar rauðbrúnir og gljáandi. Laufið lensulaga - egglaga, bogtennt og langydd. Meira og minna hárlaus. áberandi glansandi. Gulir haustlitir. Reklarnir birtast á sama tíma og laufgun á sér stað í maí. Þeir eru smáir og ekki sérstaklega áberandi. Minnir í útliti nokkuð á bambus.
Lensuvíðir þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Í meðallagi hraðvaxta. sólelskur. Hentar stakstæður, í raðir, þyrpingar, í bland með öðrum gróðri og í klippt limgerði. Fremur hraðvaxta. Getur orðið fyrir kali við erfiðar aðstæður. Stundum ber aðeins á skemmdum af völdum asparglyttu en þær eru yfirleitt ekki miklar. Annars heilbrigður. Karlkyns yrki valið úr efnivið úr Alaska-leiðangi Óla Vals Hanssonar og félaga árið 1985.
Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Víðisætt (Salicaceae).
Sumareik – Quercus robur
Sumargrænt tré. Óvíst er hversu há sumareikin getur orðið hérlendis en sjálfsagt mun hún vaxa upp fyrir 12 m hæð með tímanum á góðum vaxtarstöðum. Gulir haustlitir. Visin lauf sitja gjarnan á ungum trjám fram á vor. Þarf nokkurt skjól í uppvextinum. Þolir hálfskugga. Þrífst best í þokkalega frjóum jarðvegi. Má vera grýttur. Gott er að stýra vexti með klippingu annars vilja sumar eikur verða runnavaxnar. Almennt talið harðgerðasta eikin hérlendis og sú sem mesta hefur verið gróðursett. Samt er sumareik ennþá fremur sjaldgæf í ræktun. Sumareik hentar helst stakstæð í grónum görðum og í rjóður í skógarreitum og sumarhúsalóðum. Þrífst ekki á köldum og vindasömum stöðum. Sumareik laufgast seint eða ekki fyrr en um miðjan júní.
Fjallaþinur – Abies lasiocarpa
Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga. Heimkynni: Fjalllendi í vestanverðri N-Ameríku.
Hvítgreni – Picea glauca – Nýfundnaland
All hávaxið, sígrænt, keilulaga tré. Barrið grágrænt - blágrænt. Fínlegra og ekki eins stingandi samanborið við sitkageni (Picea sitchensis). Hægvaxnara og mjóslegnara samanborið við sitkagreni. Hentar frekar inn til landsins en við sjávarsíðuna. Lyktar. Hvítgreni og sitkagreni mynda gjarnan kynblendinga sem kallast sitkabastarður eða hvítsitkagreni (Picea x lutzii). Blendingur þessi er algengur hérlendis. Hvítgrenið okkar er af fræi frá Nýfundnalandi.
Virginíuheggur ‘Canada Red’ – Prunus virginiana ‘Canada Red’
Lítið til meðalstórt (5- 7,5 m), all harðgert tré eða stórvaxinn runni. Gjarnan margstofna enda hefur virginíuheggur tilhneigingu til að skjóta upp stofnskotum. Hægt að forma með klippingu í einstofna tré. Fremur harðgerður. Grænt lauf fyrri part sumars. Dökk-purpurarautt lauf upp úr miðju sumri (júlí). Skærrautt lauf á haustin. Ljósir blómklasar, svört ber. Hefur þó lítið blómstrað hérlendis hingað til. Þolir hálfskugga en litsterkastur í fullri sól. Fallegur stakstæður eða innan um og framan við grænan og ljósari gróður. Virðist þola klippingu vel. Millibil 2,5/3 m eða meir. Heimkynni: Stór svæði í N-Ameríku. Aðallega S-Kanada og norðanverð Bandaríkin. Dæmigerður villtur virginíuheggur hefur ekki purpurarauð laufblöð yfir sumartímann. Yrkið 'Canada Red' er upprunið frá Minnesota í Bandaríkjunum frá því fyrir árið 1985.
Stafafura – Pinus contorta
Mjög harðgert, hraðvaxta, meðalstórt - stórvaxið sígrænt tré. Hæð 7 - 15 m. Getur orðið enn hærri á góðum stöðum. Sérstaklega á það við um undirtegundina P. contorta ssp. latifolia (meginlandsundirtegundin). Stafafura getur orðið talsvert breið hafi hún nóg pláss. Börkurinn er fremur þunnur og grábrúnn á litinn. Brumin eru rauðbrún og frekar mjó samanborið við berg- (P. uncinata) og fjallafuru (P. mugo). Nálarnar eru fagurgrænar, venjulega tvær saman í knippi. Þær eru 4 - 8 sm á lengd og 0,9 - 2 mm á breidd. Þroskar 3 - sm langa, kanelbrúna köngla strax á unga aldri. Könglarnir eru á annað ár að ná fullum þroska. Karlblómin birtast á vorin eða fyrri part sumars. Þau raða sér þétt á sprotana og eru í fyrst rauðbleik en síðan ryðbrún og falla síðan af þegar líður á sumarið.
Þrífst víðast hvar á landinu. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelsk. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Algengasta furan hérlendis. Vinsælasta íslenska jólatréið. Myndar svepprót með furusvepp (Suillus luteus) sem er ágætis matsveppur.
Stafafura hentar stakstæð en einnig í raðir, þyrpingar og til skógræktar sérstaklega á rýru landi. Varpar ekki eins miklum skugga og greni. Millibil ekki minna en 3 m. Gjarnan 2 m í skógrækt til að forðast miklar hliðargreinar. Tré sem hafa rými verða gjarnan mjög greinamikil og breið. Skýlið alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög berangurslegum stöðum. Barr roðnar gjarnan eftir mikla saltákomu af hafi.
Öll stafafuran okkar er vaxin upp af íslensku fræi. Við framleiðum aðallega stafafuru af Skagway (Alaska) uppruna. Sú fura er fagurgræn allan veturinn en gulnar ekki eins og stafafura af meginlandsundirtegundinni, latifolia, gerir gjarnan. Stafafura er ágætis timburtré. Talsvert nýtt sem eldiviður og í kurl í stíga og beð. Stafafura er vinsælasta íslenska jólatréið. Einnig eru greinar hennar nýttar til skreytinga enda er stafafura barrheldin og ilmar talsvert.
Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Þallarætt (Pinaceae).