Steinahnoðri – Phedimus spurius
Harðgerð, jarðlæg sumargræn – hálfsígræn jurt. Hæð 10 – 15 sm. Laufblöðin eru gagnstæð, þykk, öfugegglaga, nýrlaga – hringlaga og tennt á efri hluta blöðkunnar. Blöðin eru gjarnan rauðmenguð á þeim plöntum sem bera rauðleit blóm. Blöðin sitja þétt á endum jarðlægra stöngla. Blómlitur er mismunandi eftir yrkjum / einstaklingum. Blómin eru stjörnulaga, bleik, hvít eða rauð. Þau eru í hálfsveip á stöngulendum. Blómgast síðsumars og fram á haust. Visnar blómskipanir standa uppréttar langt fram á næsta ár.
Steinahnoðri er sólelskur. Annars nægjusamur. Þurrkþolinn. Þrífst ekki í blautum jarðvegi. Þrífst vel í sendnum og malarbornum jarðvegi. Hentar í hleðslur, ker og sem kantplanta. Þar sem steinahnoðri er breiðumyndandi hentar hann sem þekjuplanta þar sem er sæmilega sólríkt og ekki mjög ágengt illgresi fyrir. Steinahnoðri dreifir sér all hratt þar sem aðstæður leyfa. Humlur sækja í blóm steinahnoðra. Er sagður aðeins eitraður sé hans neytt. Eldra og betur þekkt fræðiheiti þessa hnoðra er Sedum spurium.
Heimkynni: Kákasusfjöll. Hnoðraætt (Crassulaceae).