Rúbínreynir – Sorbus bissetii
Stór runni eða lítið tré (3 – 5 m). Ýmist ein- eða margstofna. Brum dökkrauð. Blaðstilkar rauðleitir. Laufið allt að 20 sm á lengd, stakfjaðrað, dökkgrænt og gljáandi. Smáblaðapörin yfirleitt 11 – 15 talsins. Stundum allt niður í 9. Rauðir haustlitir í lok september og fram í október. Laufgast í maí. Blómin hvít, smá í sveip í júní. Berin vínrauð í ágúst en síðan bleik er líður að hausti. Virðist nokkuð harðgerður. Sérlega fallegt garðtré. Fremur nýlegur í ræktun hérlendis en lofar almennt góðu. Þrífst í allri sæmilega frjórri, framræstri garðmold. Hentar stakstæður, í raðir og þyrpingar. Varist að láta gras vaxa upp að stofni. Klippið og snyrtið að sumri til ef þörf krefur. Millibil alla vega 2 m. Rúbínreynir er kenndur við Dr. L. Bisset sem starfaði í Grasagarðinum í Edinborg, Skotlandi. Rúbínreynir er fræekta (apomictic). Í Bretlandi er hann stundum seldur undir yrkisheitinu ‘Pearls’. Heimkynni: Kína (V-Sichuan).
 
	
 
				 
				 
						 
						 
						 
				 
				 
		 
				 
		 
				 
		 
				 
		 
		 
				 
		 
				 
		 
				 
		