Sóltoppur ‘Tumi’ – Lonicera chrysantha ‘Tumi’
Harðgerður, þéttur, fíngreinóttur meðalhár runni. Hæð 1,5 m. Vaxtarlagið nánast kúlulaga. Blómin smá, fölgul. Aldinið rautt ber. Þolir hálfskugga. Þolir vel klippingu. Sóltoppur ‘Tumi’ hentar stakstæður, í blönduð beð með öðrum gróðri, í ker og potta. Millibil 80 – 100 sm. ‘Tumi’ óx upp af fræi í Þöll. Fræinu var safnað á Tumastöðum í Fljótshlíð. Yrkið er eingöngu fáanlegt í Þöll.
Vörunr.
0faa9ca22f33
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Fjallatoppur – Lonicera alpigena
Harðgerður, sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,0 m). Börkur gráleitur. Laufin eru með stuttan stilk, oddbaugótt, allt að 11 sm löng og 5,5 sm breið. Blaðgrunnur stundum snubbóttur. Þau er stór miðað við aðra toppa (Lonicera spp.), gagnstæð og gljáandi á efra borði. Laufin eru hærð á jöðrum og blaðstrengjum á neðra borði framan af sumri. Laufgast jafnvel í byrjun maí. Gulir haustlitir. Blómin smá, gul með rauðleitum fræflum tvö og tvö saman á löngum stilk fyrri part sumars. Aldinið rautt samvaxið, um eða yfir 1 sm langt, óætt ber sem minnir á kirsuber í útliti.
Fremur hægvaxta. Þolir vel hálfskugga. Hentar sérlega vel sem undirgróður undir stærri trjám. Einnig fer fjallatoppur vel í bland með öðrum gróðri eða nokkrir saman í þyrpingum eða röðum. Tilvalinn í skuggsæl horn. Þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Millibil 80 - 100 sm.
Heimkynni: Í skógum til fjalla í Mið- og S-Evrópu. Geitblaðsætt (Caprifoliaceae).
Blárifs ‘Perla’ – Ribes bracteosum ‘Perla’
Fremur harðgerður, sumargrænn, gisgreinóttur runni. Hæð: 1,5 - 2 m. Laufin fremur stór, handflipótt, 5 til 7 - flipótt með egglaga - egglensulaga, ydda og tennta flipa. Lauf gljáandi á löngum blaðstilk. Gulir haustlitir. Blómin græn-brúnleit í útstæðum klösum. Blómgast í júní. Berin bláhéluð, áberandi í löngum útstæðum klösum. Þroskast í lok ágúst og fram í september. Henta í sultur og þess háttar en sæmileg til átu beint af runnanum.
Blárifs 'Perla' þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Blandið gömlum húdýraáburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Gott er að setja álíka lífrænt efni í kringum runnana á fárra ára fresti. Blárifs er all skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Þrífst betur við ströndina en inn til landsins. Hentar í raðir, þyrpingar, í berjagarðinn og sem undirgróður undir trjám. Millibil um 1 m eða meir.
'Perla' er úrvalsyrki valið af Ólafi S. Njálssyni úr Alaskasafni því er barst til landsins með Óla Val og félögum árið 1985. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá S-Alaska í norðri suður til N-Kaliforníu. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).
Garðakvistill ‘Diabolo’ – Physocarpus opulifolius ‘Diabolo’
Lágvaxinn - meðalstór runni. Laufið dökk-purpurarautt. Ljósir blómsveipir miðsumars. Skærrauðir haustlitir. Þrífst vel í grónum hverfum. Sólelskur. Verður gjarnan fyrir einhverju haustkali. Þolir vel klippingu. Garðakvistill 'Diabolo' fer sérlega vel í blönduðum beðum með ljósari plöntum eða framan við ljósa fleti.
Bjarkeyjarkvistur – Spiraea chamaedryfolia
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 m). Laufið matt, óreglulega tennt. greinar ljósbrúnar, áberandi hlykkjóttar. Blómin hvít í sveip. Fræflar skaga upp fyrir krónublöðin. Blómgast miðsumars eða fyrir mitt sumar í lok júní og fram í júlí. Gulir og rauðir haustlitir. Bjarkeyjarkvistur hefur aðeins skriðullt rótarkerfi. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í runnaþyrpingar, raðir og undir stórum trjám. Millibil um 80 sm.
Döglingsþyrnir – Crataegus douglasii
Lítið tré eða runni (2-6 m). Þéttur. All harðgerður. Fremur hægvaxta. Laufið tvísagtennt, gljáandi. Rauðir haustlitir. Greinar þyrnóttar. Blómin hvít í sveip. Aldinið svart, ætt ber (kjarnaldin). Sólelskur en þolir hálfskugga. Döglingsþyrnir hentar sem stakstætt lítið tré, í þyrpingar með 2 m millibili eða í bland með öðrum runnum og jurtum. Hentar í klippt eða óklippt limgerði með um 0,7 - 1 m millibili. Hentar einnig í yndisskóga. Framleiðum eingöngu döglingsþyrni af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka, allt norður til Alaska.
Döglingskvistur – Spiraea douglasii
Harðgerður, þéttur runni. Hæð rúmlega 1 m. Blómin fjólubleik í uppréttum klösum síðsumars (ágúst - september). Virðast loðin þar sem fræflarnir standa út fyrir blómskipunina. Greinar uppréttar, rauðbrúnar. Visnar blómskipanir standa fram á vetur. Döglingskvistur hefur talsvert skriðullt rótarkerfi. Laus við meindýr og sjúkdóma. Þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa döglingskvist niður í svona 50 - 60 sm seinni part vetrar. Það hefur ekki áhrif á blómgun þar sem döglingskvistur blómgast á árssprotann. Þrífst í allri venjulegri rakaheldinni garðmold. Döglingskvist er gjarnan plantað í raðir / limgerði. Einnig í ker og þess háttar þar sem hann getur alveg fyllt út í rýmið. Hentar síður með öðrum gróðri nema tegundum sem eru sjálfar duglegar í samkeppni. Tilvalinn í villigarða þar sem hann má breiðast út. Líklegt er að stór hluti af því sem í daglegu tali kallast "döglingskvistur" sé í raun úlfakvistur (S. x billardii). Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Úlfakvistur er blendingur döglings- og víðikvists (S. salicifolia). Víðikvistur er frá Evrasíu.
Fjallarifs/Alparifs ‘Lára’- Ribes alpinum ‘Lára’
Harðgerður, fremur lágvaxinn runni (1,5 m). Laufið fremur smátt, handsepótt og áberandi hvítyrjótt. Gulir haustlitir. Gulgræn blóm í klösum fyrri part sumar ekki áberandi. Fjallarifs 'Lára' er kvenkyns þroskar gjarnan rauð ber á haustin. Berin eru æt en bragðdauf.
Þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Fjallarifs 'Lára' er fallegast í hálfskugga. Hentar í blönduð beð með t.d. hvítblómstrandi runnum og blómum. Einnig sem undirgróður undir t.d. birkitrjám. Millibil um 50 sm sé því plantað í raðir/limgerði annars 70 - 80 sm.
'Lára' kom upphaflega upp af fræi í Þöll. Fræinu var safnað í Fossvogskirkjugarði, Rvk. Yrkið fæst ekki annars staðar. Kennt við Láru Þöll Búadóttur barnabarn Hólmfríðar Finnbogadóttir en Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar allt til ársins 2013. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).