Showing 397–398 of 398 results

Þyrnirós ‘Tove Jansson’ – Rosa pimpinellifolia ‘Tove Jansson’

Fremur lágvaxinn runnarós. Blómin rauð, einföld og ilmandi. Fremur smáar, dökkar nýpur á haustin. Rauðgulir haustlitir. Sólelsk. Nýleg í rækun. Virðist harðgerð. Hentar í beð með lágvöxnum runnum og fjölæringum. Kennd við höfund múmíuálfanna.

Þyrnirós (Lóurós) ‘Lovísa’ – Rosa pimpinellifolia ‘Lovísa’

Sérlega harðgerður, þéttur, fremur lágvaxinn runni. Hæð um 1 m eða rúmlega það. Laufið blágrænt, fínlegt, stakfjaðrað. Árssprotar rauðir, mikið þyrnóttir. Blómin meðalstór, hvít, einföld og ilmandi. Blómgast í nokkrar vikur miðsumars. Blómviljug. Dökkbrúnar - svartar nýpur þroskast á haustin. Rauðgulir haustlitir. Sólelsk. Vind- og saltþolin. Skríður eitthvað út með rótarskotum. Lóurós er nægjusöm. Þrífst vel í ekki of frjóum jarðvegi og vel framræstum sem gjarnan má vera sand- og malarborinn. Lóurós er kjörin í raðir, þyrpingar, sumarhúsalandið og opin svæði. All vind- og saltþolin. Millibil 80 - 100 sm. Ólafur S. Njálsson, Nátthaga valdi þessa rós árið 1985 úr 66 sáðplöntum sem hann fékk hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, Fossvogi á áttunda áratug síðustu aldar. Plönturnar voru á sínum tíma gróðursettar í limgerði á Seltjarnarnesi og bar 'Lovísa' af hvað varðar harðgerði og blómgun. Rósina skírði hann í höfuðið á móður sinni Lovísu Margréti Marinósdóttur. Plönturnar munu hafa vaxið upp af erlendu fræi sem merkt var R. pimpinellifolia var. altaica. Afbrigðið var. altaica hefur stundum verið nefnt hlíðarós. Lóurós algeng hérlendis sérstaklega á opnum svæðum sveitarfélaga. Lóurós er að mörgu leyti dæmigerð þyrnirós. Náttúruleg heimkynni þyrnirósar eru í stórum hluta Evrópu og þar með talið Ísland og NV-Afríku. Afbrigðið var. altaica er ættað frá Síberíu. Rósaætt (Rosaceae).