Demantsvíðir ‘Flesja’ – S. pulchra ‘Flesja’
Harðgerður, alveg jarðlægur runni. Litlir gráloðnir reklar birtast seinni part vetrar. Laufið ljósgrænt, heilrennt og gljáandi. Axlablöð áberandi. Gulir haustlitir í september - október. Visin lauf sitja gjarnan á greinunum fram á vetur.
Hentar í hleðslur, kanta, ker o.þ.h. Sólelskur. Hentar því ekki sem undirgróður. Nægjusamur hvað varðar jarðveg. Úrvalsyrki úr Alaskaferð Óla Vals og félaga 1985.
Heimkynni tegundarinnar eru auk Alaska í Kanada og Rússlandi. Víðisætt (Salicaceae).
Demantsvíðir ‘Kodiak’ – Salix pulchra ‘Kodiak’
All harðgerður, þéttur runni. Hæð um 1,5 m. Greinar og sprotar áberandi rauðbrúnar. Laufin eru sporöskjulaga - lensulaga, hárlaus, ydd og gljáandi á efra borði. Blágræn á því neðra. Stöku lauf sitja á runnanum allan veturinn. Það á sama á við um axlarblöðin sem eru mjó og nokkrir millimetrar á lengd. Silfur-loðnir reklar birtast seinni part vetrar (feb/mars). Sólelskur.
Demantsvíðir þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Hentar í runnaþyrpingar einn og sér eða í bland með öðrum tegundum. Hentar sjálfsagt í lægri limgerði. Millibil 50 - 100 sm. Yrkinu 'Kodiak' var safnað á Kodiakeyju við Alaska í leiðangri Ólafar S. Njálssonar, Nátthaga og Pers í Mörk árið 1994. Heimkynni demantsvíðis eru auk Alaska, NV-Kanada og NA-Rússland. Víðisætt (Salicaceae).
Döglingskvistur – Spiraea douglasii
Harðgerður, þéttur runni. Hæð rúmlega 1 m. Blómin fjólubleik í uppréttum klösum síðsumars (ágúst - september). Virðast loðin þar sem fræflarnir standa út fyrir blómskipunina. Greinar uppréttar, rauðbrúnar. Visnar blómskipanir standa fram á vetur. Döglingskvistur hefur talsvert skriðullt rótarkerfi. Laus við meindýr og sjúkdóma. Þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa döglingskvist niður í svona 50 - 60 sm seinni part vetrar. Það hefur ekki áhrif á blómgun þar sem döglingskvistur blómgast á árssprotann. Þrífst í allri venjulegri rakaheldinni garðmold. Döglingskvist er gjarnan plantað í raðir / limgerði. Einnig í ker og þess háttar þar sem hann getur alveg fyllt út í rýmið. Hentar síður með öðrum gróðri nema tegundum sem eru sjálfar duglegar í samkeppni. Tilvalinn í villigarða þar sem hann má breiðast út. Líklegt er að stór hluti af því sem í daglegu tali kallast "döglingskvistur" sé í raun úlfakvistur (S. x billardii). Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Úlfakvistur er blendingur döglings- og víðikvists (S. salicifolia). Víðikvistur er frá Evrasíu.
Döglingsþyrnir – Crataegus douglasii
Lítið tré eða runni (2-6 m). Þéttur. All harðgerður. Fremur hægvaxta. Laufið tvísagtennt, gljáandi. Rauðir haustlitir. Greinar þyrnóttar. Blómin hvít í sveip. Aldinið svart, ætt ber (kjarnaldin). Sólelskur en þolir hálfskugga. Döglingsþyrnir hentar sem stakstætt lítið tré, í þyrpingar með 2 m millibili eða í bland með öðrum runnum og jurtum. Hentar í klippt eða óklippt limgerði með um 0,7 - 1 m millibili. Hentar einnig í yndisskóga. Framleiðum eingöngu döglingsþyrni af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka, allt norður til Alaska.
Dröfnulyngrós ‘Grandiflorum’ – Rhododendron catawbiense ‘Grandiflorum’
Lágvaxinn - meðalstór runni (1,5 m). Laufið all stórt, sígrænt. Blómin trektlaga, fjólubleik með rauðbrúnum dröfnum í krönsum í júní. Þarf nokkurt skjól. Þolir hálfskugga. Þrífst best í grónum görðum og skógarskjóli. Gróðursetjið í blöndu af mómold, furunálum og veðruðu hrossataði. Ein algengasta lyngrósin hérlendis.
Dröfnusteinbrjótur – Saxifraga rotundifolia
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 30 - 50 sm. Laufblöðin eru nær kringlótt eða nýrlaga, bogtennt, með all langan blaðstilk. Laufið er hálf sígrænt. Blómin eru smá, stjörnulaga og mörg saman á greinóttum, fínlegum blómstilkum og ná vel upp fyrir blaðbreiðuna. Blómin eru hvít með rauðum dröfnum. Blómgast í júlí.
Dröfnusteinbrjótur er fremur skuggþolinn. Þrífst best í rakaheldnum jarðvegi. Hentar í steinhæðir og hleðslur þar sem jarðvegur er ekki of þurr. Einnig sem þekju- og kantplanta.
Heimkynni dröfnusteinbrjóts eru í fjöllum Mið- og S-Evrópu þ.e.a.s. á Íberíuskaga, Ölpunum og Balkanskaga. Steinbrjótsætt (Saxifragaceae).
Dúnheggur – Prunus maximowiczii
All harðgert, fremur lágvaxið tré eða runni (5 - 7 m). Sprotar og blaðstilkar dúnhærðir. Laufin sporöskjulaga - egglaga og ydd í endann. Snubbótt - fleyglaga í grunninn og tvísagtennt. Gishærð. Blómin hvít, nokkur saman snemmsumars (júní) á all löngum blómstilkum með lauflíku háblaði. Aldinið lítið rautt - svart ætt, ber (steinaldin). Rauðgulir - koparbrúnir haustlitir. Stundum jafvel rauðir.
Takmörkuð reynsla er af dúnhegg hérlendis enda sárasjaldgæfur. Þrífst í sæmilega frjósömum, rakaheldnum jarðvegi þar sem einhvers skjóls nýtur. Virðist annars harðgerður. Blómin eru ekki eins áberandi og á hegg (P. padus). Aldinin eru heldur ekki sérlega áberandi. Fallegastur er hann á haustin vegna haustlitanna. Hentar stakstæður eða í þyrpingar með um 2,5 - 3 m millibili. Þolir hálfskugga.
Heimkynni dúnheggs eru í NA-Asíu (Kína, Kórea, Rússland og Japan). Vex þar til fjalla í leirkenndum jarðvegi. Plönturnar okkar eru vaxnar upp af fræi sem safnað var hérlendis. Rósaætt (Rosaceae).
Dúntoppur – Lonicera xylosteum
Harðgerður, þéttur, meðalhár - hávaxinn runni (1,5 - 3,0 m). Blómin smá, fölgul, tvö og tvö saman. Rauð, óæt, samvaxin ber þroskast á haustin. Laufið dúnhært. Gulir haustlitir. Skuggþolinn. Heilbrigður. Dúntoppur hentar sérlega vel sem undirgróður undir stærri trjám. Einnig tilvalinn í skuggsæl horn. Þolir vel klippingu og hentar því í limgerði. Millibil 50 - 100 sm. Sæmilega vind- og saltþolinn. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Berin eru eitruð en ekki hættuleg. Heimkynni: Víða í Evrópu, N-Tyrkland og V-Síbería.
Dvergavör ‘Atropurpurea’ – Ajuga reptans ‘Atropurpurea’
Harðgerð, alveg jarðlæg fjölær jurt. Laufið gljáandi, dökk-purpurarautt - brúnt. Hálf-sígræn. Blómin dökkfjólublá í uppréttum klasa. Blómgast á miðju sumri. Dreifir sér út með ofanjarðar-renglum. Skuggþolin. Prýðis þekjuplanta undir trjám og inn á milli runna og fjölæringa. Þrífst í allri venjulegri garðmold svo fremi að hún sé of þurr.
Einir – Juniperus communis – Undirhlíðar-Hfj
Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (30 - 120 sm). Ýmist jarðlægur eða hálfuppréttur. Sérbýll. Kvenplöntur þroska einiber á tveimur árum. Þau má nýta í matargerð. Sólelskur. Hægvaxta. Einir hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Einnig í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum. Jarðlæg yrki nokkuð þekjandi. Vex villtur víða um land.