Einir – Juniperus communis – Undirhlíðar-Hfj
Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (30 - 120 sm). Ýmist jarðlægur eða hálfuppréttur. Sérbýll. Kvenplöntur þroska einiber á tveimur árum. Þau má nýta í matargerð. Sólelskur. Hægvaxta. Einir hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Einnig í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum. Jarðlæg yrki nokkuð þekjandi. Vex villtur víða um land.
Einir ‘Holger’ – Juniperus ‘Holger’
All harðgerður, sígrænn, lágvaxinn, hægvaxta, þekjandi runni (50 sm á hæð). Barrið á nýjum sprotum ljósgult síðan gráblátt. Sólelskur. Hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Ekki eins harðgerður og himalajaeinir 'Meyeri'. Yrkið 'Holger' mun vera blendingur garðaeinis (J. x media 'Pfitzeriana Aurea') og himalajaeinis (J. squamata 'Meyeri'). Úr smiðju Holger Jensen, Svíþjóð frá árinu 1946.
Einir ‘Loderi’ – Juniperus ‘Loderi’
All harðgerður, sígrænn, þéttur, hægvaxta, keilulaga runni. Barrið er blágrænt og ilmandi. Hæð um 1 m. Getur hugsanlega orðið hærri með tímanum. Sólelskur en þolir hálfskugga. Þarf nokkurt skjól til að þrífast.
Yrkið 'Loderi' er ýmist talið heyra undir himalajaeini (J. squamata) eða J. pingii en einitegundir þessar eru líkar útlits. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Má vera malar og/sandborinn. Sagður þurrkþolinn. Hentar í beð með sígrænum runnum eins og lyngrósum og lyngi. Einnig í steinhæðir og hleðslur þar sem skjól er þokkalegt. Hentar einnig í gróna kirkjugarða. Finnst hér og þar í görðum en ekki sérlega algengur. Lofar þó góðu. Grátviðarætt (Cupressaceae).
Eplamynta – Mentha suaveolens
All harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 30 - 70 sm. Blöðin áberandi loðin. Hvít eða bleik blóm birtast stundum þegar komið er undir haust. Þrífst vel í frjóum, rakaheldnum eða jafnvel blautum jarðvegi. Sólelsk. Má nota ferska og þurrkaða í te, salöt, til að skreyta rétti og þess háttar. Eplamynta kemur fremur seint upp (júní) og gæti maður því haldið að hún væri dauð á vorin. Sjaldgæfari í ræktun hérlendis samanborið við piparmyntu (Mentha x piperita) Heimkynni: Suður- og V-Evrópa.
Eplatré ‘Transparente Blanche’ – Malus ‘Transparente Blanche’
Ólíkt flestum öðrum eplayrkjum er 'Transparente Blanche' sjálffrjótt. Þó gefur betri raun að planta epli af öðru yrki í grennd til að tryggja betri frjóvgun og aldinmyndun. Góðar frjósortir eru: 'Discovery'/ 'Katja'/ 'Sävstaholm'. Þrífst aðeins í skjóli og sól. Blandið nóg af lífrænu efni í holuna við gróðursetningu (molta, húsdýraáburður). Ágræðslun á að vera ofanjarðar að gróðursetningu lokinni. Setjið stoðir við tréið að gróðursetningu lokinni. Berið tilbúinn áburð í kringum tréið á hverju vori. Vökvið í þurrkatíð. Fullþroska epli eru ljós-gulgræn og bragðgóð og henta til átu beint af trénu en geymast ekki lengi. Stundum kallað 'Hvítt Glærepli'. Yrkið hefur gefið góða og mikla uppskeru hérlendis í góðu árferði.
Evrópulerki – Larix decidua
Alla jafna harðgert, hávaxið sumargrænt, einstofna barrtré. Hæð 10 - 20 m hérlendis. Getur sjálfsagt orðið enn hærra á góðum stöðum með tímanum. Krónan breiðkeilulaga eða óregluleg. Greinar gjarnan uppsveigðar í endann með hangandi smágreinum. Árssprotar eru gulbrúnir og hárlausir. Börkur á yngri trjám grábrúnleitur. Eftir því sem tréin eldast ber gjarnan á stálbláum lit á berki neðst á trjánum. Á eldri trjám er börkurinn rauðbrúnn, sprunginn og flögóttur. Nálar eru 2 - 4 sm á lengd. Stakar og skrúfstæðar á langsprotum. Á dvergsprotum sitja þær 30 - 40 talsins saman í knippi. Þær eru stinnari samanborið við nálar síberíulerkis/rússalerkis (Larix sibirica). Gulir haustlitir í október.
Kvenblóm rauð um 1,5 sm á lengd. Könglar egglaga - keilulaga, 2 - 6 sm á lengd og 2 - 2,5 sm á breidd fullþroska. Köngulhreistrið er beint og ávallt í endann. Stundum er það aðeins innsveigt. Könglarnir verða síðan dökkgráir og sitja áfram á trjánum í einhver ár. Lítið ber á hæringu á köngulhreistrinu nema kannski neðst á könglunum ólíkt hærðu köngulhreistri síberíulerkis. Hreisturblöðkurnar sjást neðst á könglunum.
Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Þrífst þó ekki í blautum jarðvegi. Sólelskt. All vindþolið. Laufgast seinna samanborið við síberíulerki og verður því sjaldnast fyrir skemmdum á vorin. Getur orðið fyrir haustkali og þess vegna orðið kræklótt. Varpar ekki miklum skugga. Reynist almennt betur í lágsveitum sunnan- og vestanlands samanborið við síberíulerki. Evrópulerki hentar sem stakstætt tré eða í raðir/þyrpingar með 3-4 m millibili. Hentar einnig til skógræktar.
Evrópulerkið okkar er gjarnan vaxið upp af íslensku fræi. Heimkynni: Alpafjöll og Karpatafjöll í Evrópu. Afbrigðið L. decidua var. polonica vex á nokkrum aðgreindum svæðum í N- og Mið-Póllandi. Þallarætt (Pinaceae).
Evrópuþinur -Abies alba
Sæmilega harðgert, sígrænt barrtré. Óvíst er hversu hávaxinn evrópuþinur getur orðið hérlendis en reikna má með afmarkað 10 - 15 m hæð á góðum stöðum. Nálarnar eru flatar, 1,8 - 3 sm á lengd og 2 mm á breidd. Dökkgrænar og gljáandi á efra borði en að neðan með tvær ljósar loftaugarákir. Nálarendinn aðeins sýldur. Nálarnar liggja meira og minna láréttar út frá greinum/sprotum. Það er þó ekki algillt og fer eftir kvæmum/undirtegundum. Könglarnir eru 9 - 17 sm langir og 3 - 4 sm breiðir með 150 - 200 hreisturblöð. Hreisturblaðka sýnileg. Könglarnir molna í sundur þegar þeir eru fullþroska. Fræið er vængjað. Viðurinn er hvítur og er fræðiheiti tegundarinnar "alba" dregið af því.
Evrópuþinur hentar stakstæður í skjóli. Einnig fleiri saman með um 3 m millibili. Þrífst í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Evrópuþinur er sjaldgæfur hérlendis og reynsla því takmörkuð. Virðist þrífast vel í skógarskjóli. Erlendis m.a. nýttur sem jólatré en einnig sem timburtré. Í sínum heimkynnum vex hann til fjalla aðallega í norðurhlíðum með meðalársúrkomu yfir 1.500 mm.
Náttúruleg heimkynni eru fjalllendi í Mið- og S-Evrópu. Víða hálfvilltur norðar í álfunni. Þallarætt (Pinaceae).
Fagurlim / Búxus – Buxus sempervirens
Þéttur, sígrænn, hægvaxta, lágvaxinn runni hérlendis (50 - 150 sm). Laufið heilrennt, smágert. Skuggþolið. Þrífst í grónum hverfum í venjulegri garðmold. Tæplega ræktanlegt inn til landsins. Vinsælt í ker og blönduð beð með sígrænum gróðri. Þolir mjög vel klippingu og gjarnan mótað til í kúlur, keilur og fleiri form. Fremur viðkvæmt. Með allra hægvöxnustu runnum hérlendis!
Fagursýprus / Jólasýprus – Chamaecyparis lawsoniana ‘Ellwoodii’
Þétt, sígrænt, upprétt vaxandi smátré eða runni. Barrið fíngert og fjaðurkennt, blágrænt. Skuggþolinn en skjólþurfi. Hægvaxta. Þrífst aðeins í skjólgóðum hverfum og skógarskjóli ekki of langt frá ströndinni. Skýlið fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Gjarnan seldur í blómabúðum fyrir jólin sem lítið "jólatré". Mikið notaður í ker og potta. Endist yfirleitt illa þannig nema í góðu skjóli. Passið að halda moldinni ávallt rakri. Hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri. Þolir vel klippingu en afskaplega hægvaxta. Verður með tímanum 2 - 3 m hérlendis á bestu stöðum.