Showing 301–312 of 389 results

Silkibóndarós – Paeonia lactiflora

Fjölær jurt. Hæð: 75 - 90 sm. Laufið djúpskert, gljáandi. Lauf og stönglar áberandi rauð fyrst á vorin. Gróðursetjið silkibóndarós á sólríkan og skjólgóðan stað í frjóa, velframræsta garðmold. Færið ekki aftur eftir gróðursetningu. Það tekur bóndarósir nokkurn tíma að koma sér fyrir og byrja að blómstra, gjarnan 2 - 3 ár. Setjið moltu ofan á jarðveginn á vorin. Blómin eru stór, fyllt og ilmandi. Þau þurfa gjarnan stuðning. Blómin þykja góð til afskurðar. Blómgast í júlí. Svo plönturnar setji ekki orku í fræmyndun er mælt með því að blómhöfuðin séu skorin af að blómgun lokinni. Hlífið rótunum að vetri til með lagi af trjákurli ofan á moldina. Vorið 2021 bjóðum við upp á þrjú mismunandi yrki af silkibóndarós: 'Sara Bernhardt' með fölbleikum blómum, 'Karl Rosenfield' með rauðum, blómum og 'Shirley Temple' sem er bleik í knúpp en snjóhvít útsprungin. Bóndarósir eru ekki eiginlegar rósir heldur fjölærar jurtir af bóndarósaætt (Paeoniaceae).

Sitkaelri / Sitkaölur – A. viridis ssp. sinuata

Harðgerður, stórvaxinn, sólelskur og fremur hraðvaxta runni eða lítið tré (2,5 - 6,5 m). Laufið all stórt, tvísagtennt, gljáandi og bylgjað. Langir, hangandi karlreklar áberandi á vorin rétt fyrir laufgun í maí. Kvenreklarnir sitja nokkrir saman. Í fyrstu ljósir en síðan brúnir. Þeir minna á smágerða köngla og endast fram á vetur á greinunum. Henta til skreytinga. Sitkaelri lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur og getur þar af leiðandi vaxið vel í ófrjóum jarðvegi. Vindþolið og fremur saltþolið einnig. Plássfrekt. Þolir klippingu/snyrtingu en ekki stýfingu. Hentar stakstætt, í raðir og þyrpingar og sólarmegin í skjólbeltum. Millibil 2 - 3 m. Má vera þéttar í runnaröð/limgerði. Einnig til uppgræðslu á melum, söndum og skriðum. Forðist að planta sitkaelri í lægðir í landslaginu þar sem hætt er við því að kalt loft safnist fyrir. Á þannig stöðum hættir sitkaelri við vorkali.  Sáir sér út þar sem aðstæður leyfa en sitkaelri er frumherji og sáir sér helst út í raskað og lítt gróið land. Allt sitkaelrið okkar er ræktað upp af íslensku fræi. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Íslenski stofninn er líklega allur frá Alaska.

Sitkagreni – Picea sitchensis

Mjög harðgert, stórvaxið, langlíft, sígrænt barrtré. Hraðvaxta. Vind- og saltþolið. Þolir vel klippingu. Þrífst best í brekkum þar sem er að finna ferskan jarðraka og jarðvegur er nokkuð frjór. Nálar dökkgrænar að ofanverðu en ljós-bláleitar að neðanverðu. Mjög stingandi. Könglar í fyrstu rauðleitir, seinna ljósbrúnir, pappírskenndir og meðalstórir. Þroskar köngla á nokkurra ára fresti eftir að 30 - 40 ára aldri er náð. Sum tré mynda þó köngla fyrr á æviskeiðinu. Börkur er fremur þunnur og er því sitkagreni ekki sérlega eldþolið tré. Viðurinn er léttur og hlutfallslega sterkur. Hann er m.a. notaður í hljóðfæri, flugvélar og báta. Útsprungin brum ná nota í greni-bjór og sýróp. Forðist að planta í frostpolla. Sumt af því sem kallað er sitkagreni kann að vera sitkabastarður / hvítsitkagreni (Picea x lutzii). Sitkagreni / sitkabastarður er lang algengasta grenið hérlendis. Sitkagreni er glæsilegt stakstætt, fer vel í röðum og þyrpingum. Einnig kjörið í skjólbelti og jafnvel klippt limgerði. Þó eru ekki öll sveitarfélög sem leyfa gróðursetningu sitkagrenis á lóðarmörkum (sjá byggingareglugerð) enda verður sitkagreni mjög stórvaxið með tímanum.  Eitt mest notaða tré í skógrækt hérlendis enda harðgert og gott timburtré. Stundum nýtt sem jólatré enda ágætlega barrheldið. Lang besta sígræna tréið til ræktunar við sjávarsíðuna eins og t.d. á Reykjanesi. Sitkagreni gerir kröfur um frjósemi jarðvegs svo setjið vel af moltu eða búfjáráburði við gróðursetningu. Þegar skógarplöntur eru gróðursettar skal setja nokkur korn af tilbúnum áburði með. Hæstu tré hérlendis eru sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri, um 30 m á hæð (2022). Millibil við gróðursetningu að lágmarki 3 m. Stundum 2 m í skógrækt. Til frambúðar að lágmarki 4 - 5 m. Við framleiðum eingöngu sitkagreni af íslensku fræi. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Vex yfirleitt ekki langt frá ströndinni í heimkynnum sínum.

Sitkareynir – Sorbus sitchensis

Fremur harðgerður, meðalhár, fremur hægvaxta, sumargrænn runni. Hæð 1,5 - 2 m. Laufið matt, blágrænt, stakfjaðrað. Smáblaðapörin 4 - 5 talsins. Smáblöðin sporbaugótt og tennt á efri hlutanum. Blómin ljós í sveip í júní. Berin ferskjulituð í klösum þroskast að hausti. Fljótlega étin af fuglum. Rauðgulir eða gulir haustlitir. Sitkareynir sómir sér vel í bland með öðrum runnum og blómum. Millibil 1,5 m. Þolir hálfskugga. Ef klippa þarf sitkareyni ætti helst að gera það að sumarlagi til að forðast reyniátu. Sjaldgæfur hérlendis. Sitkareynir er fræekta (apomictic). Við framleiðum sitkareyni eingöngu af íslensku fræi. Sitkareynir hérlendis er trúlega allur eða mestmegnis ættaður frá Alaska. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Rósaætt (Rosaceae).  

Sitkavíðir / „Ólavíðir“ – Salix sitchensis

Harðgerður stórvaxinn runni/lágvaxið tré. Laufin breiðust framan við miðju. Silfurhærð á neðra borði. Brum útstæð. Er með fremur smá axlarblöð. Vindþolinn. Sólelskur. Minnir á viðju (Salix myrsinifolia) í útliti en heilbrigðari og almennt laus við asparglittu. Þrífst vel í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Sitkavíðir hentar í limgerði og skjólbelti 2 - 3 plöntur/m. Erum með yrkið 'Óli' sem almennt gengur undir nafninu "Ólavíðir". Yrkið er kennt við Óla Val Hansson (1922 - 2015) garðyrkjuráðanaut. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til N-Kaliforníu og austur til Montana.

Skáldarós ‘Frankfurt’ – Rosa x francofurtana ‘Frankfurt’

Fremur harðgerð runnarós. Þyrnalítil. Hæð 1 - 1,5 m. Sólelsk en þolir hálfskugga. Laufið matt. Blómin fremur stór, rauðbleik - purpurarauð, tvöfölld með gulum fræflum. Enginn eða lítill ilmur. Blómgast í nokkrar vikur síðsumars og jafnvel fram á haust. Rauðar perulaga nýpur þroskast á haustin. Þrífst vel í allri sæmilega frjósamri og vel framræstri ræktunarmold. Blandið moltu eða gömlu hrossataði við moldina við gróðursetningu. Ef jarðvegur er leirkenndur/þéttur blandið þá sandi eða fínnri möl við jarðveginn. Skríður eitthvað út með rótarskótum en ekki til ama. Klippið í burt kalnar greinar og krosslægjur seinni part vetrar eða snemma vors. Skáldarós 'Frankfurt' hentar í blönduð rósa- og runnabeð. Einnig tilvalin í raðir og þyrpingar. Millibil tæpur 1 m. Gamalt yrki sem er þekkt frá Þýskalandi frá því á 16. öld. Talin blendingur gallarósar (R. gallica) og kanelrósar (R. majalis).

Skessujurt – Levisticum officinale

Harðgerð, hávaxin, fjölær jurt. Hæð: 1,5 - 2 m. Laufblöð þrífjöðruð. Skessujurt hefur lengið verið nýtt sem mat- og lækningajurt. Blómin eru gulgræn í sveip í júlí - ágúst. Þrífst best í rakaheldnum, frjósömum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Náttúruleg heimkynni eru ekki nákvæmlega þekkt. Skessujurt vex í dag víða villt í Evrópu og Asíu. Ilmur og bragð minna á sellerí og steinselju en skessujurt er bragðmeiri. Blöð og unga stöngla má nota í salat og súpur. Einnig má nýta rótina sem grænmeti. Fræ skessujurtar má nota sem krydd. Bragðið heldur sér vel við þurrkun. Skessujurt er góð í kryddsmjör og með bökuðum kartöflum. Skessujurt gengur stundum undir nafninu "maggijurt" samanber "maggiurt" á dönsku og "Maggikraut" á þýsku þar sem bragð minnir á frægar pakkasúpur og súputeninga. Skessujurt hentar til gróðursetningar aftarlega í beð, í skógarjaðra eða í horn til uppfyllingar t.d. í hálfskugga. Frekar nytjajurt en skrautjurt.

Skildir – Ligularia spp.

Harðgerðar, stórvaxnar, fjölærar jurtir. Blómin gul, gjarnan í turnlaga blómskipunum. Þola vel hálfskugga. Vaxa gjarnan í frjóu deiglendi. Skildir henta aftarlega í blönduðum blómabeðum, við tjarnir og þess háttar. Þurfa yfirleitt ekki stuðning. Heimkynni: Evrasía.

Skógarbrydda – Mahonia aquifolium

Lágvaxinn ( um og yfir 1 m), viðkvæmur, sígrænn runni. Blöðin stakfjöðruð, gljándi með þyrnótta jaðra. Gjarnan rauðleit sérstaklega að vetrarlagi. Blómin skærgul í klasa. Berin blá í klösum. Sjást sjaldan hérlendis. Skuggþolin. Þrífst aðeins á hlýjum stöðum í góðu skjóli. Sómir sér best með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Sjaldgæf hérlendis.

Skógarfura – Pinus sylvestris – Af íslensku fræi

Fremur harðgert, Hægvaxta, sígrænt tré. Getur orðið stórvaxin með tímanum. Oftast einstofna en stundum kræklótt. Nálar fremur stuttar, blágrænar. Gulna gjarnan yfir vetrartímann. Könglar fremur smáir. Sólelsk. Varpar fremur litlum skugga. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Börkur á eldri trjám áberandi rauðbrúnn. Furulús (Pineus pini) getur verið vandamál. Hentar stakstæð eða fleiri saman með góðu millibili (3 - 4 m). Má einnig nota í ker enda þurrkþolin. Er hér og þar í eldri skógræktarreitum en sjaldgæf í görðum. Plöntur af íslensku fræi lofa góðu. Hefur sáð sér út hérlendis en þó ekki í miklu mæli. Millibil 3 - 4 m eða meir. Heimkynni: Stór hluti Evrópu og austur eftir M-Asíu.

Skógarkvistur / Kóreukvistur ‘Finndís’ – Spiraea miyabei ‘Finndís’

Harðgerður, fremur lágvaxinn (0,5 - 0,8), þéttur runni. Stórir bleikir blómsveipir birtast síðsumars (ágúst - september) 'Finndís' blómstrar á enda árssprotans. Rauðgulir haustlitir. Þrífst vel í sæmilega frjórri, ekki of blautri garðmold. Skógarkvistur 'Finndís' hentar í ker, blönduð beð, raðir og þyrpingar.  Millibil um 80 sm. Sólelskur en þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa skógarkvistinn niður um alla vega helming seinni part vetrar. Kenndur við Finndísi, Dilksnesi, Höfn. Ekki er óhugsandi að hér sé í raun um yrki af japanskvist (Spiraea japonica) að ræða. Vinsæll og talsvert útbreiddur skrautrunni hérlendis.

Skógarstikill – Ribes divaricatum

Harðgerður, þéttur, þyrnóttur runni. Hæð: 1-2 m. Berin dökk-vínrauð - svört, æt. Minna á stikilsber (Ribes uva-ursi).