Skógartoppur ‘Belgica’ – Lonicera periclymenum ‘Belgica’
Fremur harðgerður, heilbrigður klifurrunni/vafningsviður. Laufblöðin eru gagnstæð og heilrennd. Getur vafið sig upp nokkra metra upp klifurgrindur, snúrur, pergólur og tré. Blómgast síðsumars. Blómin sitja í krönsum. Rauð að utanverðu en gulleit að innanverðu. Ilma vel. Rauð ber þroskast seint á haustin ef tíð er góð. Óæt. Fremur hraðvaxinn. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegum, sæmilega frjóum, meðalrökum garðajarðvegi. Þrífst vel upp við veggi þar sem sólar nýtur. Fremur algengur og vinsæll klifurrunni hérlendis. Náttúruleg heimkynni skógartopps eru um stóran hluta Evrópu þó ekki hérlendis, N-Afríka, Tyrkland og Kákasus.
Skrautepli ‘Rudolph’ – Malus ‘Rudolph’
Lítið tré. Hæð 3 - 5 m. Laufið rauðbrúnt - purpurarautt en dökkgræn þegar líður á sumarið. Laufin eru egglaga - sporöskjulaga og tennt. Gulir haustlitir. Blómin rauðbleik í júní. Stundum þroskast lítil rauð epli á haustin. Þarf aðfrjóvgun.
Þrífst í skjólgóðum görðum á sólríkum stöðum. Þolir þó hálfskugga. Gróðursetjið í sæmilega frjóan, ekki of blautan jarðveg. Blandið vel af moltu eða gömlum búfjáráburði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Skrauteplið 'Rudolph' hentar í litla garða, stakstætt eða í beði með jurtum og runnum. Hefur reynst nokkuð vel í grónum görðum hérlendis. 'Rudolph' er úr smiðju F.L. Skinner, Manitoba, Kanada frá árinu 1954. Rósaætt (Rosaceae).
Skrautreynir – Sorbus decora
Lítið - meðalstórt, fremur harðgert tré. Stundum runni. Hæð: 4 - 10 m. Brum eru dökkrauðbrún og klístruð. Ekki gráloðin eins og brum ilmreynis/reyniviðar (S. aucuparia). Laufblöð stór, stakfjöðruð. Rauðir og gulir haustlitir. Hvítir blómsveipir í júní. Rauðir, stórir berjaklasar í september. Fuglar sækja í berin. Þolir hálfskugga. Í meðallagi vindþolinn.
Þrífst best í þokkalega frjóum, meðalrökum jarðvegi. Millibil að minnsta kosti 3 m. Fallegt og hæfilega stórt garðtré. Notkun skrautreynis hefur aukist mikið síðastliðna tvo áratugi. Virðist ekki eins næmur fyrir reyniátu (Valsaria insitiva) samanborið við reynivið.
Skrautreynir myndar fræ með geldæxlun og er því einsleitur samanborið við ilmreyni. Heimkynni: Norðaustanverð N-Ameríka, aðallega í A-Kanada. Á Grænlandi vex náskyld tegund (S. groenlandica) sem stundum er talin vera undirtegund skrautreynis. Rósaætt (Rosaceae).
Skriðbláeinir / Himalajaeinir ‘Blue Carpet’ – Juniperus squamata ‘Blue Carpet’
Harðgerður, sígrænn, þéttur, jarðlægur runni. Barrið ljós-blágrænt. Sólelskur. Þrífst í allri venjulegri garðmold sem má gjarnan vera blönduð sandi og/eða möl. Hentar sérlega vel í hleðslur, steinhæðir, ker og kanta. Forðist bleytu. Millibil 80 - 100 sm. Breiðir talsvert úr sér með tímanum. Þolir vel klippingu. Talsvert algengur í görðum hérlendis og reynist almennt vel. 'Blue Carpet' mun vera stökkbreyting fundin á himalajaeini 'Meyeri'.
Skriðmispill – Cotoneaster apiculatus?
Harðgerður, jarðlægur runni. Blöðin smá, dökkgræn og gljáandi. Rauðir haustlitir. Smá bleik blóm fyrri part sumars. Rauðgul ber þroskast á haustin og endast þau gjarnan langt fram á vetur. Sólelskur. Hentar í grjóthleðslur, kanta, ker o.þ.h. Ágætis þekjuplanta þar sem hann nýtur góðrar birtu. Hugsanlega eru fleiri tegundir en ein sem í daglegu tali kallast "skriðmispill". Mjög vinsæll og algengur í görðum landsmanna.
Skriðtoppur – Lonicera prostrata
All harðgerður, jarðlægur runni. Hæð um eða yfir 30 sm. Þekjandi. Laufin fremur smá, nær stilklaus, oddbaugótt eða egglaga. Blómin smá, í blaðöxlunum, tvö og tvö saman, gulleit fyrri part sumars. Þroskar rauð ber á haustin. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þolir hálfskugga. Hentar sem undirgróður, í hleðslur og framanlega í beð. Heimkynni: V-Kína. Verður vonandi fáanlegur sumarið 2025.
Snækóróna ‘Þórunn Hyrna’ – Philadelphus coronarius ‘Þórunn Hyrna’
Harðgerður, þéttur, stórvaxinn runni (3 m). blómin hvít, stjörnulaga, meðalstór og ilmandi. Blómgast í júlí og fram í ágúst. Þolir hálfskugga. Harðgerðasta kórónan (Philadelphus sp.). Þrífst í allri frjósamri, framræstri garðmold. Snækóróna 'Þórunn Hyrna' sómir sér einstaklega vel stakstæð en hentar einnig í raðir, þyrpingar og aftarlega í beð með blönduðum gróðri. Nokkuð plássfrek. 'Þórunn Hyrna' er íslenskt úrvalsyrki úr Lystigarði Akureyrar. Yrkið er kennt við Þórunni Hyrnu landnámskonu í Eyjafirði.
Snjóber ´Svanhvít´ – Symphoricarpos albus ‘Svanhvít’
Harðgerður, þéttur, fíngreinóttur runni. All skriðult rótarkerfi. Laufið er blágrænt. Smáar bleikar klukkur birtast miðsumars. Snjóhvít, óæt ber í þéttum klösum þroskast á haustin. Gulir haustlitir. Snjóber eru skuggþolin en þroska lítið af berjum í skugga. Millibili 70 - 80 sm. Fuglar sækja ekki í berin og hanga þau því á runnunum fram eftir vetri og skreyta runnana og lýsa upp í skammdeginu. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Snjóber 'Svanhvít' hentar í raðir, þyrpingar og þess háttar. Afskornar greinar með berjum henta vel í skreytingar. 'Svanhvít' er íslenskt úrvalsyrki sem þroskar sérlega mikið af berjum. Náttúruleg heimkynni snjóberjarunnans eru N-Ameríka allt norður til Alaska.