Showing 61–72 of 284 results

Fjallafura / Dvergfura – Pinus mugo

Mjög harðgerður, lágvaxinn - meðalhár, sígrænn runni. Nálar dökkgrænar, 2 saman í búnti. Karlblóm ljósrauð, mörg saman neðst á árssprotum. Síðar rauðbrún. Könglar fremur smáir. Getur orðið talsvert breið. Til að halda fjallafuru þéttri borgar sig að brjóta til hálfs framan af brumun á greinaendum í kringum jónsmessuleytið. Fjallafura gerir litlar kröfur til jarðvegs. Fjallafura er sólelsk og hentar ekki sem undirgróður undir trjám. Fjallafura fer vel í blönduð beð með öðrum gróðri, nokkrar saman í þyrpingu með um 80 - 90 sm millibili. Einnig í stórgerðar hleðslur, ker og á opin svæði. Skýlið fjallafura alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög opnum og skjóllausum stöðum eins og í kringum háar byggingar o.þ.h. Smávaxin/fínleg fjallafura er gjarnan kölluð "dvergfura". Í raun er um stömu tegund að ræða. Fjallafura/dvergfura er mjög vinsæl og útbreidd í görðum og útivistarskógum. Fjallafuran okkar í Þöll er öll vaxin upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis eins og t.d. í Rauðvatnsstöðinni í Rvk, Gráhelluhrauni í Hfj og víðar. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og SA-Evrópu. Myndar blendinga með bergfuru (P. uncinata) þar sem útbreiðslusvæði tegundanna skarast í vestanverðum Ölpunum.

Fjallagullregn – Laburnum alpinum

Harðgert, lágvaxið - meðalhátt tré (6 - 10 m). Gjarnan margstofna og umfangsmikið. Fjallagullregn er fremur hraðvaxta. Greinarnar vaxa gjarnan mest út til hliðanna. Þrífingrað lauf. Smáblöðin eru oddbaugótt eða egglaga, 3 - 10 sm á lengd. Hárlaus og aðeins gljáandi á efra borði. Hærð á jöðrum og á miðtaug á neðra borði. Laufgast ekki fyrr en í byrjun júní. Gulir haustlitir í lok september eða byrjun október eða frýs grænt. Gulir, ilmandi, drjúpandi blómklasar, 20 - 35 sm langir. Hvert blóm 0,5 - 2 sm á lengd. Byrjar að blómgast í lok júní eða byrjun júlí. "Baunabelgir" þroskast á haustin. Þeir eru flatir, hárlausir, 4 - 8 sm á lengd. Hver með nokkrum, dökkbrúnum fræum sem eru eitraðasti hluti trésins. Sólelskt en þolir hálfskugga. Sómir sér vel stakstætt. Þarf talsvert pláss þegar fram líða stundir. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur og gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hann má þó ekki vera blautur. Sagt kjósa fremur súran jarðveg heldur en kalkríkan. Klippið og snyrtið gullregn á sumrin til að minnka líkur á átu. Með allra glæsilegustu trjám sem völ er á. Sáir sér gjarnan eitthvað út en ekki til ama. Eitrað sé þess neytt. Fjallagullregn er all vind- og saltþolið og sleppur yfirleitt við vorhret þar sem það laufgast fremur seint. Vissara er að binda það vel upp til að byrja með. Það á síður við ef gróðursettar eru litlar plöntur og/eða margstofna. Fjallagullregnið okkar er vaxið upp af íslensku fræi. Það tekur plönturnar all nokkur ár að ná blómgunaraldri. Oft er það í kringum 10 ára aldurinn en stundum fyrr og stundum síðar á æviskeiðinu. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og S-Evrópu. Ertublómaætt (Fabaceae).

Fjallareynir – Sorbus commixta

Harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré (3 - 6 m). Laufin stakfjöðruð. Smáblöðin 11 - 17 talsins, hvassydd. Áberandi eldrauðir haustlitir. Brum rauð og hárlaus. Hvítir blómsveipir fyrri part sumars. Rauðgul, fremur smá reyniber í klösum þroskast að hausti. Fjallareynir er glæsilegur stakur eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Kjörinn í sumarhúsalóðir. Fjallareynir er talsvert breytilegur enda fjölgar hann sér með kynæxlun og getur t.d. myndað kynblendinga með ilmreyni (S. aucuparia). Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst einnig vel í lúpínubreiðum. Allur fjallareynirinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Japan, Kína, Kórea og Sakalín.

Fjallarifs/Alparifs ‘Lára’- Ribes alpinum ‘Lára’

Harðgerður, fremur lágvaxinn runni (1,5 m). Laufið fremur smátt, handsepótt og áberandi hvítyrjótt. Gulir haustlitir. Gulgræn blóm í klösum fyrri part sumar ekki áberandi. Fjallarifs 'Lára' er kvenkyns þroskar gjarnan rauð ber á haustin. Berin eru æt en bragðdauf. Þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Fjallarifs 'Lára' er fallegast í hálfskugga. Hentar í blönduð beð með t.d. hvítblómstrandi runnum og blómum. Einnig sem undirgróður undir t.d. birkitrjám. Millibil um 50 sm sé því plantað í raðir/limgerði annars 70 - 80 sm. 'Lára' kom upphaflega upp af fræi í Þöll. Fræinu var safnað í Fossvogskirkjugarði, Rvk. Yrkið fæst ekki annars staðar. Kennt við Láru Þöll Búadóttur barnabarn Hólmfríðar Finnbogadóttir en Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar allt til ársins 2013. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).

Fjallatoppur – Lonicera alpigena

Harðgerður, sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,0 m). Börkur gráleitur. Laufin eru með stuttan stilk, oddbaugótt, allt að 11 sm löng og 5,5 sm breið. Blaðgrunnur stundum snubbóttur. Þau er stór miðað við aðra toppa (Lonicera spp.), gagnstæð og gljáandi á efra borði. Laufin eru hærð á jöðrum og blaðstrengjum á neðra borði framan af sumri. Laufgast jafnvel í byrjun maí. Gulir haustlitir. Blómin smá, gul með rauðleitum fræflum tvö og tvö saman á löngum stilk fyrri part sumars. Aldinið rautt samvaxið, um eða yfir 1 sm langt, óætt ber sem minnir á kirsuber í útliti. Fremur hægvaxta. Þolir vel hálfskugga. Hentar sérlega vel sem undirgróður undir stærri trjám. Einnig fer fjallatoppur vel í bland með öðrum gróðri eða nokkrir saman í þyrpingum eða röðum. Tilvalinn í skuggsæl horn. Þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Millibil 80 - 100 sm. Heimkynni: Í skógum til fjalla í Mið- og S-Evrópu. Geitblaðsætt (Caprifoliaceae).

Fjallaþinur – Abies lasiocarpa

Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga. Heimkynni: Fjalllendi í vestanverðri N-Ameríku.

Fjallaþöll – Tsuga mertensiana – Íslensk kvæmi

Lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Stundum aðeins runni. Gjarnan runnkennd framan af ævinni. Barrið dökk-blágrænt. Aðeins ljósara að neðan. Könglar meðalstórir, tunnulaga, rauðbrúnir - brúnir. Skuggþolin. Hægvaxta og talsvert hægvaxnari samanborið við marþöll (T. heterophylla). Þrífst vel á Hallormsstað og í Skorradal. Þroskar reglulega fræ þar. Ágætis eintök af fjallaþöll finnast á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fjallaþöll er falleg í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri. Einnig gróðursett undir skerm í skógi. Heimkynni fjallaþallar eru vesturströnd N-Ameríku allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex hún aðallega til fjalla á svölum, úrkomusömum stöðum. Vel aðlöguð snjóþyngslum.

Fjalldrapi / Hrís – Betula nana

Harðgerður, íslenskur, lágvaxinn runni (20 - 50 sm). Blöðin smá, nánast kringlótt. Rauðir - rauðgilir haustlitir. Sólelskur. Vex í mólendi og deiglendi víða um land. Hentar í hleðslur, steinhæðir og í rakan jarðveg þar sem sólar nýtur. Blandast gjarnan íslensku ilmbjörkinni (Betula pubescens) og myndar blendinginn skógviðarbróður (Betula x intermedia) sem er algengur í náttúru Íslands sérstaklega á Vesturlandi. Fjalldrapi er ekki algengur í görðum landsmanna. Fjalldrapinn okkar er af íslensku fræi.

Flosvíðir – Salix × dasyclados

Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Laufið lensulaga. Minnir á körfuvíði (Salix viminalis) en grófgerðari. Sprotar áberandi loðnir. Karlkynsklónn með fallegum silfurloðnum reklum strax í febrúar/mars með bleikum blæ. Gulir frjóhnappar birtast í mars / apríl. Þrífst best í frjóum, rökum jarðvegi t.d. við læki og tjarnir. Einnig góður í runnaþyrpingar og jafnvel skjólbelti. Fallegastur sé hann klipptur / sagaður niður reglulega.

Garðagullregn – Laburnum x watereri ‘Vossii’

All harðgert, fremur lágvaxið tré eða runni (3 - 7 m). Getur orðið nokkuð breitt. Börkur grænn á ungum greinum. Verður síðan gulbrúnn - brúnn með tímanum. Brum stakstæð og silfurhærð. Blöð þrífingruð. Smáblöðin eru sporöskjulaga 2,5 - 7 sm á lengd og allt að 3 sm breið. Blöð eru hærðari að neðanverðu til að byrja með samanborið við fjallagullregn. Blóm dæmigerð ertublóm, gul, ilmandi og um 2 sm löng. Hvert blóm er að jafnaði ívið stærra en blóm fjallagullregns. Þau sitja mörg saman í allt að 50 sm löngum klösum í júní og fram í júlí. Byrjar að blómgast ögn fyrr á sumrin samanborið við fjallagullregn. Aldinið er um 6 sm langur belgur. Þroskar yfirleitt lítið af fræi sem er almennt talið vera kostur þar sem fræið er eitraðasti hluti trésins. Fræið er annars dekkra samanborið við fræ fjallagullregns. Annars er garðagullregn eitrað sé þess neytt. Sólelskt. Niturbindandi og gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hann má þó ekki vera blautur. Bindið upp eftir gróðursetningu. Hafið uppbindingar á að minnsta kosti fyrsta árið eftir gróðursetningu. Garðagullregni hættir til að losna. Til að létta á trjánum má stytta greinar í júlí/ágúst. Ekki klippa gullregn á öðrum árstíma. þar sem greinar hafa tilhneigingu til að vaxa meira á þverveginn en hæðina getur verið ráð að binda upp leiðandi toppsprota strax í upphafi. Garðagullregn er ágrætt tré sem blómstrar strax á unga aldri. Garðagullregn er nettara tré samanborið við fjallagullregn. Sómir sér vel stakstætt eða innan um fjölæringa og runna. Hafið minnsta kosti 2-3 m á milli að næsta tré. Erlendis er garðagullregn gjarnan gróðursett við grindur og boga og bundið þar við og t.d. látið mynda bogagöng og þess háttar. Þannig notkun á garðagullregni ætti ekki síður að henta hérlendis. Ekki er óalgengt að garðagullregn blómstri mikið annað hvert ár og hvíli sig með minni eða engri blómgun þar á milli. Garðagullregn er tegundablendingur milli fjallagullregns og strandgullregns (Laburnum anagyroides). Foreldrategundirnar vaxa í fjalllendi Mið-Evrópu. Yrkið 'Vossii' er upprunið í Hollandi í kringum árið 1875. Garðagullregn er vinsælt og útbreitt garðtré hérlendis og klárlega það gullregn sem mest er gróðursett í dag. Ertublómaætt (Fabaceae)

Garðahlynur – Acer pseudoplatanus

Harðgert, meðalhátt - hávaxið tré. Á erfiðum stöðum lægri. Krónumikill. Blöðin fremur stór, handsepótt, með löngum, rauðum blaðstilk. Laufgast í lok maí eða júníbyrjun. Gulir - brúnir haustlitir í október. Gulgræn blóm í klösum birtast í júní. Aldinin vængjuð, tvö og tvö saman. Mynda 90 gráðu horn eða minna. Varpar fremur miklum skugga yfir sumarið. Þarf frjóan jarðveg. Plássfrekur með tímanum. Engin rótarskot. Þokkalega vind- og saltþolinn. Nær þó ekki að vaxa eðlilega upp á mjög vindasömum stöðum. Hætt við haustkali sérstaklega inn til landsins. Forðist að gróðursetja of litlar plöntur og að gróðursetja í frostpolla. Garðahlynur er fyrst og fremst notaður stakstæður í stórum görðum. Einnig gróðursettur í lundi á skógræktarsvæðum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti hlynurinn hérlendis. Gott timburtré. Blómin eru rík af frjói og blómasafa og því eftirsótt af hunangsflugum. Okkar garðahlynur er allur ræktaður upp af íslensku fræi. Þarf frjóan og vel framræstan jarðveg. Setjið vel af lífrænu efni (búfjáráburður/molta) við gróðursetningu. Þarf gjarnan stuðning til að byrja með. Sáir sér stundum út í görðum. Heimkynni: Mið-Evrópa og V-Asía. Ílendur í V-Evrópu, norður eftir Noregi, víða í N-Ameríku og á fleiri stöðum. Sápuberjaætt (Sapindaceae).

Garðakvistill – Physocarpus opulifolius

Harðgerður, þéttur, heilbrigður, sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Getur orðið talsvert breiður. Laufið grænt, flipótt ekki ólíkt rifsi (Ribes spp.) eða hlyn (Acer spp.). Rauðgulir haustlitir. Blómin hvít í hvelfdum sveip miðsumars. Fræbelgir uppblásnir, fremur smáir, margir saman, rauðleitir. Rauðleitir árssprotar. Börkurinn flagnar með tímanum af í strimlum. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Þrífst í sæmilega frjóum jarðvegi, jafnvel rökum en einnig fremur þurrum. Garðakvistill fer vel í blönduð runnabeð eða saman með fjölæringum. Einnig fer vel á því að planta nokkrum saman með um 80 - 100 sm millibili. Garðakvistil má nota í klippt eða óklippt limgerði. Hentar vel í jaðra skjólbelta. Garðakvistill gekk áður fyrr undir nafninu "blásurunni" vegna uppblásinna aldinanna. Mun harðgerðari samanborið við yrki garðakvistils sem bera rauðleit lauf eins og 'Diabolo' og 'Summer Wine'. Garðakvistill er sannarlega einn harðgerðasti skraut- og skjólrunni sem völ er á. Heimkynni garðakvistils eru í austanverðri N-Ameríku. Rósaætt (Rosaceae).