Showing 73–84 of 141 results

Lágkvistur – Spiraea humilis

Fremur harðgerður, lágvaxinn runni (30 - 40 sm). Laufið fremur ljósgrænt. Rauðgulir haustlitir. Stórir ljósbleikir, keilulaga blómklasar síðsumars (Seinni part júlí - ágúst). Lágkvistur skríður aðeins út með rótarskotum. Þolir hálfskugga. Lágkvistur fer vel í blönduðum beðum með runnum og fjölæringum. Heimkynni: A-Rússland. Stundum talinn undirtegund víðikvists (S. salicifolia).

Lambarunni – Viburnum lantana

All harðgerður, sumargrænn runni. Hæð: 2 - 3 m hérlendis. Laufin gagnstæð, sporöskjulaga - lensulaga og tennt. 6 - 13 sm á lengd og 4 - 9 sm á breidd. Dúnhærð á neðra borði en nánast hárlaus að ofan. Blómin eru smá, mörg saman í sveip, rjómahvít fyrri part sumars. Það vottar strax fyrir blómsveipunum á greinarendum haustið áður. Berin sem þroskast á haustin eru í raun steinaldin. Fyrst græn, svo rauð og fullþroska svört. Berin eru óæt. Frýs gjarnan grænn en haustlitur annars rauður. Lambarunni þrífst best í ögn basískum, frjóum, framræstum jarðvegi. Þolir hálfskugga. Þarf nokkurt skjól. Verður gjarnan nokkuð breiður með tímanum. Millibil 1 m eða meir. Heimkynni: Mið-, Suður- og V-Evrópa, NV-Afríka og SV-Asía. Yllisætt (Adoxaceae).

Lækjavíðir ‘Blika’ – Salix arbusculoides ‘Blika’

Harðgerður, fremur hraðvaxta, hávaxinn runni eða margstofna tré. Hæð 3 - 6 m. Sprotar grannir, dökkrauðbrúnir og gljáandi. Laufblöð lensulaga - mjósporbaugótt, ydd í báða enda og gljándi á efra borði. Ljósari og gjarnan aðeins hærð að neðan. Laufin eru allt að 7,5 sm löng og kirtiltennt. Er með axlarblöð sem falla fljótt. Haustlitur gulur. Sólelskur. Þolir vel klippingu. Laus við asparglyttu og ryð. Þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi sem má gjarnan vera sand- og malarborinn. Lækjavíðir 'Blika' hentar vel í klippt limgerði. Einnig fer hann vel í þyrpingar og við læki og tjarnir. 2 - 3 stk/m henta í limgerði. Meira bil þarf að gefa þegar lækjavíðir er gróðursettur í þyrpingar eða stakur eða um 1,5 m. Lækjavíðir 'Blika' hentar ekki á mjög vindasama staði t.d. úti við ströndina. Þá henta jörfavíðir (S. hookeriana) og alaskavíðir (S. alaxensis) betur. 'Blika' er úrvalsyrki valin úr efniviði úr Alaskaferð Óla Vals og félaga árið 1985. Henni var safnað nálægt Port Alsworth við Clark stöðuvatnið sunnarlega í vesturhluta Alaska. Heimkynni lækjarvíðis eru annars auk Alaska, stærstur hluti Kanada. Lækjavíðir vex aðallega inn til landsins meðfram ám og lækjum. Víðisætt (Salicaceae).

Lensuvíðir ‘Ljómi’ – Salix lasiandra ‘Ljómi’

All harðgerður stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 6 m). Árssprotar rauðbrúnir og gljáandi. Laufið lensulaga - egglaga, bogtennt og langydd. Meira og minna hárlaus. áberandi glansandi. Gulir haustlitir. Reklarnir birtast á sama tíma og laufgun á sér stað í maí. Þeir eru smáir og ekki sérstaklega áberandi. Minnir í útliti nokkuð á bambus. Lensuvíðir þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Í meðallagi hraðvaxta. sólelskur. Hentar stakstæður, í raðir, þyrpingar, í bland með öðrum gróðri og í klippt limgerði. Fremur hraðvaxta. Getur orðið fyrir kali við erfiðar aðstæður. Stundum ber aðeins á skemmdum af völdum asparglyttu en þær eru yfirleitt ekki miklar. Annars heilbrigður. Karlkyns yrki valið úr efnivið úr Alaska-leiðangi Óla Vals Hanssonar og félaga árið 1985. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Víðisætt (Salicaceae).

Litli eldrunni – Chaenomeles japonica

Lágvaxinn runni (1 m). Blómin meðalstór, rauðgul. Aldinið gulgrænt, hart "epli". Sólelskur. Þarf skjólgóðan vaxtarstað. Sjaldgæfur hérlendis og reynsla takmörkuð. Erlendis er aldinið nýtt í hlaup og sultur. Óvíst er um aldinþroska utandyra hérlendis. Tilvalinn til ræktunar í óupphituðum gróðurhúsum / skálum.

Loðvíðir – Salix lanata – jarðlægur

Mjög harðgerður, íslenskur, lágvaxinn/jarðlægur runni. Lauf og sprotar eru gráloðin. Karlreklar eru fallega gulir og birtast í apríl - maí. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Vex villtur um land allt. Loðvíðir hentar í hleðslur, kanta, steinhæðir, ker og þess háttar. Jarðlægi loðvíðirinn okkar er karlkyns og seldur í stykkjatali í pottum.

Loðvíðir ‘Laugabrekka’ – Salix lanata ‘Laugabrekka’

Mjög harðgerður, íslenskur runni. Upprétt yrki. Hæð: 1 - 2 m. Laufið grágrænt og loðið. Kvenkyns yrki. Sólelskur. Loðvíðir 'Laugabrekka' laufgast ekki fyrr en um miðjan júní. En fyrir vikið sækja pöddur ekki í þetta yrki ólíkt öðrum loðvíði. Þrífst í alls konar jarðvegi. Vind- og saltþolinn. Hefur lengi verið framleiddur í Þöll og reynst vel. Hentar í raðir, þyrpingar, lágvaxin limgerði, brekkur, opin svæði og sumarhúsalóðir. Millibil 50 - 80 sm. Einnig nefndur grávíðir.

Mánaklungur – Rubus parviflorus

All harðgerður, meðalhár runni (1 - 2 m). Blöðin stór, flipótt. Blómin hvít, með 5 krónublöðum og gulum fræflum. Aldinið rautt, ætt ber, ekki ósvipað hindberi um 1 sm í þvermál. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í venjulegri garðmold. Dreifir sér með rótarskotum. Hentar sem þekjandi planta undir trjám og þess háttar. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka.

Mánakvistur – Spiraea ‘Máni’

Harðgerður, þéttur, meðalhár, all hraðvaxta runni. Hæð 1,5 - 2,0 m. Álíka breiður með tímanum. Greinar fyrst uppréttar en síðan útsveigðar. Laufblöð oftast í kringum 1,5 sm á lengd, mött, grágræn á neðra borði og hárlaus. Blaðgrunnur odddreginn. Breiðsporbaugótt - öfugegglaga. og yfirleitt bogtennt á efsta þriðja hluta blöðkunnar. Blómin smá, hvít, mörg saman í hálfsveipum sem eru allt að 3 sm í þvermál. Blómgast í júlí og fram í ágúst. Blómsæll. Rauðgulir haustlitir. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Minnir talsvert á sunnukvist (S. nipponica) í útliti en greinabygging er fíngerðari. Mánakvistur sómir sér vel í blönduðum runna- og blómabeðum og í röðum/limgerðum og þyrpingum. Millibil um 80 - 100 sm. Mánakvistur er all algengur á opnum svæðum í Rvk og í görðum á höfuðborgarsvæðinu og sjálfsagt víðar. Mánakvisturinn sem hér er í ræktun kom frá Grasagarðinum í Rvk. Hann óx upp af fræi frá háskólagrasagarðinum í Rostock í Þýskalandi á áttunda áratug síðustu aldar. Fræið kom undir heitinu Spiraea uratensis. Mánakvisturinn virðist ekki vera ekta S. uratensis og er hann því skráður sem Spiraea 'Máni' enda líklega um blendingstegund að ræða. Rósaætt (Rosaceae).

Möndluvíðir – Salix triandra

All harðgerður runni. Hæð 2 - 4 m. Lauf 5 - 10 sm á lengd, lensulaga, hárlaus, sagtennt, græn að ofan, ljósgræn að neðan. Axlarblöð áberandi, langæ. Laufblöðin gjarnan áberandi hangandi á sprotunum. Gulur haustlitir. Sprotar nánast hárlausir og fremur grannir. Greinar gjarnan samofnar og hlykkjóttar. Henta til skreytinga. Blómgast um það leyti sem hann laufgast seinni part maí eða í byrjun júní. Sólelskur. Möndluvíðir hentar í raðir, þyrpingar og blönduð runnabeð. Millibil um 1 - 1,5 m. Vex best í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Þolir jafnvel blautan jarðveg. Sjaldgæfur hérlendis. Erum gjarnan með kk og kvk yrki. Kk yrkið er ættað frá Haparanda, Svíþjóð sem stendur við Helsingjabotn. Það var Jóhann Pálsson fyrrverandi garðyrkjustjóri Rvk sem kom með græðlinga af því yrki til landsins á sínum tíma. Möndluvíðirinn okkar gæti verið af undirtegundinni S. triandra var. hoffmanniana en sú undirtegund er lágvaxnari, með áberandi samofnar greinar og með laufum sem eru ekki blá- eða gráleit á neðra borði samanborið við dæmigerðan möndluvíði sem er almennt hávaxnari og með beina sprota sem mikið eru notaðir til körfugerðar erlendis. Heimkynni: Evrópa, vestur og M-Asía. Víðisætt (Salicaceae).

Myrtuvíðir ‘Vala’ – Salix myrsinites ‘Vala’

Mjög harðgerður, þéttur, lágvaxinn (60 - 100 sm stundum hærri) runni. Laufið, smágert, dökkgrænt, tennt og gljáandi. Gulir haustlitir. Gullinbrúnt, visið laufið situr á greinunum fram á vor. Reklar með vínrauðum frævum birtast á vorin. Sólelskur en annars nægjusamur. Vind- og saltþolinn. Myrtuvíðir hentar sérstaklega vel í þyrpingar, raðir, til klæða brekkur og þess háttar. Þolir klippingu. Má t.d. gróðursetja í lágvaxin limgerði. Millibil almennt 70 - 100 sm. Asparglytta sækir nokkuð í myrtuvíði. Asparglytta er síður vandamál á vindasömum stöðum. Vinsæll og útbreiddur hérlendis. Yrkið sem er kvenkyns er kennt við Óla Val Hansson garðyrkjuráðanaut sem kom með umræddan myrtuvíði hingað til lands frá Vadsø í N-Noregi árið 1963. Heimkynni: N-Evrópa. Víðisætt (Salicaceae).

Perlukvistur – Spiraea x margaritae

Lágvaxinn, þéttur, hálfkúlu-laga runni. Hæð: 50 - 60 sm. Stórir fölbleikir blómsveipir síðsumars. Rauðgulir haustlitir. Fremur harðgerður. Hentar í ker / stampa, raðir, þyrpingar og blönduð beð. Millibil 60 - 70 sm. Best fer á því að klippa perlukvistinn niður síðvetrar. Blómgast á árssprotann.