Hélurifs ‘Rökkva’ – Ribes laxiflorum ‘Rökkva’
Harðgerður, mjög kröftugur, jarðlægur þekjandi runni. Blöðin eru stærri samaborið við lauf kirtilrifs (R. glandulosum). Laufgast í apríl. Rauðir, áberandi haustlitir sem birtast strax í ágúst. Rauð brum áberandi á veturna. Skuggþolið. Sérlega öflug þekjuplanta. Hentar vel sem þekjuplanta undir trjám og stærri runnum. Getur klifrað upp veggi, tré o.þ.h. Hentar einnig í raðir sem lágvaxið gerði. 'Rökkva' þroskar yfirleitt ekki ber. Blómin eru rauðbrún en ekki sérlega áberandi. Ein planta þekur 1 fermeter á fáum árum. Þrífst illa í þurrum og ófrjóum jarðvegi. 'Rökkva' er úrvalsyrki úr efnivið sem safnað var í Alaska í leiðangri Óla Vals Hanssonar og félaga árið 1985.
Hindber – Rubus idaeus
Skriðull hálfrunni. Hæð 1 - 2 m. Greinar ná tveggja ára aldri. Fyrra árið vex grein upp frá jörðu í fulla hæð. Seinna árið blómgast hún og þroskar ber. Síðan er hún dauð. Klippið í burt dauðar greinar. Gróðursetjið í afmarkað rými til að forðast rótarskot um alla lóð. Tilvalið er að setja niður þil svona 40 sm niður í jarðveginn til að forðast dreifingu rótarskota. Einnig má rækta hindber í ílátum en þau þurfa frjóan og rakaheldinn jarðveg til að þroska ber. Setjið staðið hrossatað eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Villihindber henta til gróðursetningar í lúpínubreiður og skógarrjóður. Berin á villihindberjum eru smá en bragðgóð. Þau skríða mest út. Úrvalsyrki eins og 'Borgund' hafa stærri ber og skríða ekki eins mikið út. Hindberjarunnar þola hálfskugga en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Yrki með stærri berjum henta betur til ræktunar í heimilisgörðum samanborið við villihindber.
Hlíðaramall / Hunangsviður – Amelanchier alnifolia
Harðgerður lágvaxinn - meðalstór runni (1 - 2 m). Laufið blágrænt. Haustlitur gulur - rauðgulur. Blómin hvít í klösum snemmsumars. Berin fyrst græn, svo fjólublá og loks svarblá fullþroska. Æt og bragðgóð hrá eða í sultur, bökur, þurrkuð og s.frv. Fuglar sækja mjög í berin. Fremur hægvaxta. Hlíðaramall þrífst í allri venjulegri garðmold. Þolir hálfskugga en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Hentar í raðir, þyrpingar og blönduð beð með öðrum runnum og blómjurtum. Millibil um 1 m. Hentar einnig í villigarða og sumarhúsalóðir. Stundum ber á rótarskotum. Hlíðaramallinn okkar er allur af íslensku fræi. Ein móðurplantan er af fræi frá Skagway, Alaska. Heimkynni: N-Ameríka, vestanverð.
Ilmkóróna ‘Mont Blanc’ – Philadelphus x lemoinei ‘Mont Blanc’
Fremur harðgerður, meðalstór, þéttur, sumargrænn runni. Hæð um 1 - 1,5. Gamlir runnar eru stundum hærri. Laufblöðin egglaga, tennt, ljósgræn - gulgræn, 4 - 6 sm á lengd. Ljósgulir haustlitir. Blómin snjóhvít, stjörnulaga, 2 - 3 sm í þvermál og ilma sérlega vel. Blómgunartíminn er seinni part júlí og í ágúst. Sprotar rauðbrúnir. Greinar verða síðan ljósgrábrúnar. Sólelsk en þolir hálfskugga. Ilmkóróna sómir sér vel stakstæð en hentar einnig í raðir, þyrpingar og blönduð beð. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Algengasta kórónan (Philadelphus sp.) hérlendis. 'Mont Blanc' er gamall garðablendingur úr smiðju M. Lemoine í Frakklandi.
Japanselri / Fjallelri – Alnus maximowiczii
Harðgerður, stórvaxinn, sumargrænn runni eða lágvaxið tré. Ein- eða margstofna. Hæð 3 - 7 m. Börkur grár. Árssprotar og brum dökkbrún eða því sem næst svört. Laufin eru gljáandi, egglaga fín-sagtennt með hjartalaga grunni. Brúnleitir haustlitir eða frýs grænt. Blómstrar rétt fyrir laufgun í maí. Karlreklar aflangir, gulgrænir, drjúpandi og um 5 sm langir. Kvenreklar, smáir í fyrstu og rauðleitir. Að hausti líkjast kvenreklarnir litlum, könglum. Þeir eru um 2 sm á lengd, egglaga og grænir en brúnleitir fullþroska. Sitja á greinunum fram á vetur.
Sólelskt. Niturbindandi eins og aðrar tegundir elris. Gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Japanselri er enn tiltölulega sjaldgæft en hefur hingað til reynst harðgert.
Japanselri hentar í runnaþyrpingar, skjólbelti og þess háttar. Millibil 1,5 m.
Heimkynni: Til fjalla í mið- og N-Japan, Kóreu og A-Rússlandi. Japanselrið sem er í ræktun hérlendis mun allt vera ættað frá Hokkaido, Japan. Var það Ólafur S. Njálsson sem safnaði þar fræi og kom með til landins árið 1996. Okkar plöntur eru ræktaðar upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis. Líklegt er að japanselri myndi kynblendinga með öðrum elritegundum sem hér vaxa.
Japanskvistur ‘Firelight’ – Spiraea japonica ‘Firelight’
Lágvaxinn, þéttur runni. Vatarlagið þúfulaga. Laufið gulleitt - bleikt. Rauðgulir haustlitir. Fjólurauðir blómsveipir birtast síðsumars. Sólelskur en þolir hálfskugga. Þrífst vel í grónum görðum. Best er klippa japanskvist niður í u.þ.b. 25 sm seinni part vetrar. Það kemur ekki niður á blómgun þar sem hann blómgast á árssrotann. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Sómir sér vel í pottum, kerjum, í blönduðum beðum eða fleiri saman í þyrpingum.
Japanskvistur ‘Golden Princess’ – Spiraea japonica ‘Golden Princess’
All harðgerður, lágvaxinn, þéttur runni (60 - 80 sm). Vaxtarlagið hálfkúlulaga. Laufið skær gulgrænt. Rauðgulir haustlitir. Bleikir blómsveipir síðsumars. Sólelskur en þolir hálfskugga. Hentar vel í potta, ker, í blönduð beð, raðir og þyrpingar. Best fer á því að klippa japanskvist niður í um 25 sm hæð seinni part vetrar. Það kemur ekki niður á blómguninni þar sem hann blómgast á árssprotann.
Japanskvistur ‘Goldmound’ – Spiraea japonica ‘Goldmound’
All harðgerður, lágvaxinn, þéttur runni (60 - 80 sm). Vaxtarlagið hálfkúlulaga. Laufið skær gulgrænt. Rauðgulir haustlitir. Fjólubleikir blómsveipir síðsumars. Sólelskur en þolir hálfskugga. Hentar vel í potta, ker, í blönduð beð, raðir og þyrpingar. Best fer á því að klippa japanskvist niður í um 25 sm hæð seinni part vetrar. Það kemur ekki niður á blómguninni þar sem hann blómgast á árssprotann. 'Goldmound' líkist mjög 'Golden Princess'. Nýja laufið er þó meira rautt á 'Goldmound'. Hefur verið hér í ræktun í um 30 ár og reynst vel. Var t.d. plantað framan við Blómaval í Sigtúni á móti norðaustri upp úr 1990 og þreifst vel.
Japanskvistur ‘Lilly’ – Spiraea japonica ‘Lilly’
Fremur lágvaxinn, þéttur runni. Vaxtarlagið hálfkúlulaga. Blómin rauðfjólblá í sveipum síðsumars. Rauðir haustlitir. Sólelskur en þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa japanskvistinn niður í u.þ.b. 20 sm síðvetrar. Það hefur ekki áhrif á blómgun þar sem japanskvistur blómgast á árssprotann. Hentar í ker, potta, blönduð beð, raðir og þyrpingar. All harðgerður en ekki alveg eins harðgerður og japanskvistur 'Eiríkur Rauði'. 'Lilly' er finnskt úrvalsyrki.